Föstudagspistill forstjóra

29. september 2017

 

Ágætu samstarfsmenn.

 

Frávik og uppákomur í samgöngumálum á Suðurlandi hafa sett mark sitt á vikuna sem nú er að líða.  Ég hef áður líst því áliti mínu að samgöngumál er stór áhrifaþáttur þegar kemur að því að mæla og skoða áhrif á heilbrigðisþjónustu. Nú í þessari viku hafa megin samgönguæðar lokast á Suðurlandi, bæði um Landeyjahöfn og með rofi þjóðvega og brúa í Skaftafellssýslu. Myndin sem fylgir þessum pistli er tekin við þessa tvo staði nú í vikunni af starfsmönnum HSU. Náttúruöflin spila þar auðvitað inn í, en þekking okkar ætti að gera kleift að spá fyrir um þær afleiðingar sem gera má ráð fyrir að fylgi haustlægðum og vatnsleysingum. Því þurfa hagsmunaðilar sem fara með samgöngumál að gera enn betur í að búa að öryggi íbúa um landið okkar. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að Vestmannaeyingar eru með réttu orðnir langþreyttir á því óvissu ástandi sem skapast hefur ítrekað vegna lokunnar Landeyjarhafnar. Ástand vega og brúa á Suðurlandi í heilbrigðisumdæmi HSU er löngu orðið það bágborið að endurnýjun einbreiðra brúa verður ekki lengur hægt að fresta. Við þessar aðstæður getur reynst snúið að sinna hlutverki HSU við að veita íbúum bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á og tryggja aðgengi að þjónustu í og utan heimabyggðar.  Sem betur fer hefur allt gengið vel í þessari viku að undaskildum nokkrum frávikum, sem ekki hafa valdið skaða, en hafa haft mikinn aukakostnað í för með sér. Um leið og ég er hugsi yfir því ástandi sem skapast hefur nú í vikunni í samgöngumálum á Suðurlandi, dáist ég líka að því hvað við erum alltaf tilbúin að ganga saman til verka og redda málunum.  Hins vegar vil ég deila þeim hugleiðingum mínum hvort ekki sé ráðlegra að leggja skipulaga í fjárfestingar í varanlegri úrbótum í samgöngum til að tryggja öryggi íbúa Suðurlands við að sækja sér nauðsynlega þjónustu, s.s. heilbrigðisþjónustu og búa við almennt ferðafrelsi án mikils auka tilkostnaðar.

Samgöngumál og heilbrigðismál á Suðurlandi haldast í hendur. Milli árananna 2015 og 2016 hefur umferð um þjóðveginn vestan Hvolsvallar aukist um 25% og umferð um Mýrdalssand aukist um 40%. Hvergi er önnur eins aukning í umferðaþunga eins og á Suðurlandi.  Daglega fara fleiri bílar um Biskupstungnabraut eina og sér heldur en um Holtavörðuheiði.  Eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu vex samliða. Eina bráðamóttakan á Suðurlandi frá Austfjörðum vestur til Höfuðborgarsvæðisins er á Selfossi.  Þar hefur komum fjölgað milli ára um 16%  og sjúkraflutningum fjölgað um 11%.  Nú er svo komið að fjármagnið dugar engan veginn fyrir auknum afköstum okkar í þjónustu.  Fjármögnun heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni þarf að vera í samræmi við framleiðslu og afköst. Því er ljóst að fjárlög ársins 2018 til HSU þarf að endurskoða ella þurfum við að skoða með alvarlegum hætti að beina þjónustunni í annan farveg.  Slík þrautalending væri alltaf verri kostur og dýrari þegar upp væri staðið.

Góða helgi.

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.