Föstudagspistill forstjóra

2. júní 2017

 

 

Kæra samstarfsfólk.

Rekstur HSU á fyrstu þremur mánuðum ársins 2017 var í samræmi við fjárhagsáætlun þegar stofnun í heild er skoðuð. Rekstur er þó nú í apríl og maí að sigla fram úr rekstraáætlunum og skýrist það af stærstum hluta af ófjármögnuðum en óhjákvæmilegum eignakaupum og launakostnaði vegna ört vaxandi verkefna og mikilla veikinda starfsfólks í sem leiðir til meiri yfirvinnu. Kaup á yfirvinnu eru öllu jöfnu ekki heimil nema með samþykki yfirmanns.

Verulega fjármuni skortir til eignakaupa hjá HSU. Í fjárveitingum til stofnunarinnar árið 2017 er gert ráð fyrir 7,8 millj. kr. í til eignakaupa. Á árunum 2004-2016 voru fjárveitingar til eignakaupa að meðaltali um 13,3 millj. kr. á ári á verðlagi hvers árs. Samtals á því tímabili voru fjárveitingar til eignakaupa um 172,5 millj. kr. en bókfærð eignakaup 480,2 millj. kr. Fjárveitingar til eignakaupa voru því 36% af eignakaupum, m.ö.o. þá voru eignakaup fjármögnuð að 2/3 hluta með gjafafé.  Í fyrra voru fjárveitingar sem hlutfall af raunverulegum eignakaupum aðeins 15% sem þýðir að 85% af eignakaupunum til HSU voru fjármögnuð með gjafafé á síðasta ári.  HSU hefur notið einstakrar velvildar í samfélaginu og Sunnlendingar hafa styrkt stofnunina rausnarlega. Útilokað er að ætlast til þess að íbúar Suðurlands fjármagni eignakaup HSU með viðlíka hætti áfram. HSU hefur neyðst til þess að grípa í gjafafé til að kaupa rekstrarvörur og grundvallartæki til starfsemi heilsugæslu, sjúkrahúsa og hjúkrunarrýma.

Á undaförnum árum hefur því ekki verið hægt að vinna að eðlilegri endurnýjun á lækningatækjum og búnaði til heilbrigðisþjónustu. Því má ljóst vera að fjárfestingaþörf til tækjakaupa er verulega uppsöfnuð og blasir nú við brýn þörf á endurnýjun búnaðar sem er úr sér genginn. Áður hefur verið gerð grein fyrir því að áætluð árleg fjárfestingaþörf HSU fyrir lækningatæki, tölvubúnað, húsbúnað, bifreiðar og búnað fyrir sjúklinga sé á núvirði um 110 millj. kr. á ári. Fjármögnun fyrir þessum búnaði liggur ekki fyrir og ljóst að 7,8 millj. kr. árlega duga hvergi til reksturs heilsugæslu, sjúkra- og hjúkrunarrýma í svo víðfeðmu umdæmi. Af þeim sökum hefur safnast upp mikil þörf fyrir endurnýjun búnaðar sem má ekki lengur bíða með að endurnýja. Fyrir liggur fjárfestingaþörf á þessu ári fyrir um 262 millj. kr. Ráðherra og embættismönnum hefur verið gerð grein fyrir stöðunni og nauðsyn þess að tiltækur sé nauðsynlegur lágmarksbúnaður til almennrar heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.  Við bindum sterkar vonir við að erindi okkar hljóti á endanum farsæla afgreiðslu.

Í sumar frá verður alls 8 sjúkrarúmum lokað á HSU, eða 4 á Selfossi og 4 í Vestmannaeyjum.  Þetta er í takt við það sem áður hefur verið undanfarin ár og er þessi ákvörðun að mestu tilkomin vegna skorts á fagmenntuðu afleysingafólki.  Síðastliðið sumar gekk mjög vel með sambærilega sumarstarfsemi og verður í ár. Áhrifin af lokun þessara rúma nú verða vonandi lítil en það er erfitt að vita fyrirfram. Vísbendingar í starfsemistölum okkar um vaxandi nýtingu sjúkrarýma renna stoðum undir mat okkar fyrir því að  þörf sé fyrir að auka fjölda almennra lyflækningarýma á Selfossi.  Umfang bráðamóttökunnar er orðið með þeim hætti að nauðsynlegt er á að endurskoða starfsemi og mönnun þar með hliðsjón af umfanginu. Að lokum skal tekið fram að starfsemi og opnun bráðamóttöku og fæðingadeilda verður með óbreyttu sniði nú í sumar.

 

Gleðilega hvítasunnuhelgi,

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU