Föstudagspistill forstjóra

HSU_Herdis_Samsett-300x20419. ágúst 2016

 

Sumarið á Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur fram til þessa verið annasamur  tími hjá okkur.  Samhliða endurskoðun á mönnun, hagræðingu í rekstri þurfum við áfram að takast á við vaxandi fjölda verkefna.

 

Á bráðadeild HSU á Selfossi er um 20% aukning í fjölda á komum í júní og júlí mánuði miðað við fjölda bráðakoma á sama tíma í fyrra.  Þetta hefur skapað vaxandi álag á starfsfólk á sama tíma og nauðsynlegt hefur reynst að draga úr stoðþjónustu. Ef eingöngu er skoðuð verslunarmannahelgin á Selfossi þá tvöfaldaðist fjöldi sjúklinga sem þurfti að leita á bráðamóttöku á Selfossi verslunarmannahelgina 2016. Þá komu að jafnaði um 50 sjúklingar á sólarhring miðað við að um verkunarmannahelgina árið 2015 leituðu að jafnaði um 25 sjúklingar með bráð veikindi og slys á sjúkrahúsið á Selfossi.  Ljóst er að miðað við óbreyttar fjárveitingar verður ekki hægt að fylgja eftir aukinni eftirspurn eftir bráðaþjónustu á Suðurlandi. Fjölmargir leituðu til HSU í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina. Þá voru 5 sjúklingar fluttir með sjúkraflugi til aðgerðar á Landspítala vegna áverka eða brota sem þeir hlutu á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

 

Sjúkraflutningar halda áfram að aukast á Suðurlandi.  Miðað við sumarmánuðina maí, júní og júlí í fyrra er nú á saman tíma 7% aukning í fjölda sjúkraflutninga. Vegna langra vegalengda fyrir hvern flutning hefur því í vaxandi mæli þurft að auka við mönnun til að sinna auknum bráðaútköllum, með tilheyrandi kostnaðarauka.

 

Ljóst er að óbreyttu munu innviðir í heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi lenda á þolmörkum hvað varðar vaxandi álag á starfsfólk, með sívaxandi fjölda verkefna sem ekki er hægt að vísa annað. Í vor og sumar hefur verið leitað allra leiða, í samvinnu við hagsmunaðila, til að sinna grunnskyldum við veitta þjónustu á HSU og tryggja þannig íbúum og ferðafólki örugga og góða þjónustu. Starfsfólk HSU á því heiður skilið fyrir eljusemi og fagmennsku við oft á tíðum krefjandi aðstæður. Á stofnuninni er vel menntaður og þjálfaður hópur fagfólks sem er vel í stakk búinn að veita góða heilbrigðisþjónustu til allra er þangað leita.

 

 

Með góðri kveðju til ykkar allra og ósk um góða helgi,

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.