Föstudagspistill forstjóra

Herdis_MBA_Gífurleg fjölgun verkefna hefur átt sér stað hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem sést bæði í mikilli aukningu í komum á heilsugæslu og á bráðdeild og ekki síst í gífurlegri aukningu í sjúkraflutningum á árinu 2015. Nú er lokið greiningarvinnu í tengslum við sjúkraflutningana á Suðurlandi og hef ég nú gefið út stöðuskýrslu um vaxandi umfang sjúkraflutninga á Suðurlandi árin 2011-2015. Skýrsluna má finna hér.

 

Nú er svo komið að greiðslur hins opinbera vegna sjúkraflutninga á Suðurlandi duga engan veginn til að reka svo umfangsmikla starfsemi. Árleg fjárframlög til rekstrarins eru á engan hátt í samræmi við þá hröðu aukningu sem hefur orðið í sjúkraflutningum á Suðurlandi. Vegna niðurskurðar og hagræðingar síðustu ára gefa óbreytt fjárframlög til HSU ekkert svigrúm til að bæta við inn í rekstur sjúkraflutninga af öðrum tekjum HSU frá hinum opinbera nema að skera niður í almennri grunnheilbrigðisþjónustu sem stofnuninni ber lagaleg skylda til að veita. Svigrúm heilbrigðisstofnanna er nánast ekkert til að færa til fé milli rekstrarliða. Því þarf að bregðast skjótt við og styrkja innviði rekstrar sjúkraflutninga á Suðurlandi með fjárframlögum sem eru í samræmi við fjölda útkalla, útkallstíma og umfang verkefna. Mikilvægt er að gera grein fyrir því í hverju umfangið er fólgið en hér eru eftirfarandi staðreyndir:

Frá árinu 2011 til ársins 2015:

  • Heildarfjöldi sjúkraflutninga hefur vaxið alls um 46%.
    • Fjöldi bráðaútkalla hefur vaxið um 88%.
    • Fjöldi millistofnannaflutninga hefur vaxið um 52%.
  • Vegalengd ekinna kílómetra á sjúkrabílum hefur vaxið um 89%.

Á árinu 2015:

  • Meðalútkallstími sjúkrabíla í heilbrigðisumdæmi Suðurlands er tæpar 2 klst.
  • Einn af hverjum sjö sjúkraflutningum er tilkominn vegna útlendinga.

Framkvæmdastjórn HSU hefur sent frá sér bréf og farið þess á leit við fjárlaga- og velferðarnefnd Alþingis, þingmenn Suðurkjördæmis og sveitastjórnir á Suðurlandi að þau beiti sér fyrir því að rétt fjármögnun almennrar heilbrigðis- og utanspítalaþjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands sé tryggð.

Vakin var athygli á sívaxandi umfangi og fjölda verkefna við sjúkraflutninga á Suðurlandi í fréttaþættinum Speglinum hjá RÚV.  Efni þáttarins má nálgast hér.

Þrátt fyrir sívaxandi verkefni og álag á starfsfólki vil ég deila því með ykkur að ég fæ reglulega að heyra af ánægjuröddum þeirra er njóta þjónustunnar á HSU og hjá samstarfsaðilum okkar.

Áætlaðir starfsmannafundir sem áttu að vera í mars, munu verða haldnir eftir páska á Selfossi og í Vestmanneyjum.  Það verða kynntar hagræðingarleiðir framkvæmdastjórnar fyrir þetta ár og samtal tekið um áframhaldandi faglega uppbyggingu á núverandi þjónustu hjá stofnuninni. Fagleg umræða verður að vera fastur liður í okkar daglegu störfum ásamt vitund um að leita ávalt hagkvæmustu leiða í öllum þáttum rekstrarins.

 

Góða helgi,

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.