Föstudagspistill – Aukinn viðbúnaður á Suðurlandi hjá HSU um Verslunarmannahelgi

 

 

3. ágúst 2018.

 

Nú fer í hönd ein annasamasta ferðahelgi sumarsins sem óhjákvæmilega leiðir til aukinnar eftirspurnar eftir þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) vegna bráðra veikinda eða slysa ferðalanga. Við höfum því undirbúið starfsemi bráðaþjónustu og sjúkraflutninga HSU vel þessa helgi með auknum viðbúnaði og viðbótum í mönnun heilbrigðisstarfsfólks. Stjórnendur HSU hafa einnig verið í góðu samstarfi við aðra viðbragðsaðila og viðburðastjórnendur á Suðurlandi í aðdraganda helgarinnar.

 

Samhliða fjölgun íbúa á svæðinu og fordæmalausri aukningu ferðamanna, sem er viðvarandi verkefni hjá HSU, eru nú fjöldi stórra hátíða á Suðurlandi þessa helgi.  Má þar m.a. nefna Unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn, Fjölskyldu- og tónlistarhátíð á Flúðum, mót Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi í Kirkjulækjarkoti og Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

 

Bráðheilbrigðisþjónusta á vestursvæði Suðurlands er á Selfossi. Þar er hefur verið bætt við þjónustu lækna og hjúkrunarfræðinga á slysa- og bráðamóttöku.  Einnig er gert ráð fyrir auka sjúkraflutningamönnum á vakt alla þessa helgi. Við sérsaka viðburði á íþróttahátíð UMFÍ, sem fram fer þessa helgi verður, staðsettur sjúkrabíll í Þorlákshöfn.

 

Í Laugarási er hefðbundin bráðavakt læknis í héraði. Á Flúðum verður staðsettur auka sjúkrabíll alla helgina til að stytta viðbragðstíma í uppsveitum, ef á þarf að halda. Einnig er bráðbíll sjúkraflutninga staðsettur í Þjóðgarðinum á Þingvöllum í samræmi við tilraunaverkefni sem hófst þar nú snemma í sumar. í Rangárþingi, á Vík í Mýrdal, Kirkjubæjarklaustri og Höfn í Hornafirði er jafnframt hefðbundin bráðavakt læknis í héraði.  Á þessum stöðum eru einnig starfstöðvar sjúkraflutninga.

 

Í Vestmannaeyjum er hefðbundin bráðavakt á heilsugæslu HSU með fjölgun og styrkingu í mönnun hjúkrunarfræðinga, lækna, sjúkraflutningamanna, vaktamanna og annarra starfsmanna sem eru á vakt allan sólarhringinn á sjúkrahúsinu.  Læknir og ljósmóðir sinna einnig neyðarmóttöku. Samkvæmt samkomulagi við ÍBV eru 3 hjúkrunarfræðingar, ritari og læknir á vakt í Herjólfsdal.  Þar eru einnig staðsettir 3 auka sjúkrabílar og sex sjúkraflutningamenn á vakt.

 

Við á HSU leggjum áherslu á að tryggja gott aðgengi og öryggi í þjónustu við alla þá sem kunna að leita til okkar þessa helgi, sem endranær.  Við hvetjum jafnframt til þess að ferðalangar sýni aðgæslu, tillitsemi og hófsemi þessa helgi svo fyrribyggja megi slys og stuðla að því að Verslunarmannahelgin á Suðurlandi verði ánægjuleg fyrir alla.

 

Við minnum á að í neyðartilfellum skal ávallt hringja beint í síma 112. Ef þörf er á leiðsögn um hvert skuli leita til að fá heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi skal hringja í síma 1700.

 

Við óskum öllum góðrar og gleðilegrar helgar.

 

Sérstakar þakkir fá samstarfsmenn mínir sem standa vaktina þessa helgi. Góð vakt!

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.