Föstudagspistill forstjóra

Herdis GunnarsdottirNú hefur ný sameinuð Heilbrigðisstofnun Suðurlands stigið sín fyrstu skref og í gær hélt nýr forstjóri, Herdís Gunnarsdóttir, fyrsta opna starfsmannafundinn af þeim þremur sem nú eru fyrirhugaðir. Á fundinn, sem haldinn var á Selfossi mættu rúmlega 60 starfsmenn. Þar fékk hún tækifæri til að kynna sjálfa sig og þá sýn sem hún hefur á starfsemi HSu til framtíðar. Framundan eru spennandi verkefni í uppbyggingu velferðarþjónustu í heilbrigðisumdæmi Suðurlands með þeim breytingum sem verða á starfssvæði HSu.

Herdís fór yfir þau verkefni sem þarf að vinna í sameiningarferlinu nú næstu mánuði og í byrjun næsta árs, en þá þarf að hefjast handa við stefnumótun fyrir þjónustu og samhæfingu ferla hjá HSu. Til þess að árangur náist með þessi verkefni þarf á samvinnu og kröftum allra að halda. Sóknarfærin eru mörg þar sem framundan er áframhaldandi krafa um verkefni við skipulag og útfærslu á hagkvæmum lausnum í almennri og sérhæfðri heilbrigðisþjónustu. Mörg tækifæri eru einnig í að veita fyrirbyggjandi og heilsueflandi þjónustu eða meðferð fyrir einstaklinga á öllum æviskeiðum í umdæminu. Tryggja þarf aðgengi íbúa umdæmisins til heilbrigðisþjónustu. Að sögn forstjóra er afar mikilvægt að skilgreina hver sé kjarnastarfsemi HSu með markvissri stefnumótun, áætlanagerð og eftirfylgni með virkri kostnaðarstýringu.