Forstjórapistill

Herdis GunnarsdottirStarfsfólk HSu fær þakkir fyrir góð viðbrögð við ósk Herdísar Gunnarsdóttur forstjóra HSu, um að bjóða fram þátttöku í verkefnunum sem eru framundan í uppbyggingu fyrir nýja Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Til þess að árangur náist með þessi verkefni þarf á samvinnu og krafti allra að halda.  Ljúka þarf ýmsum praktískum málum er varðar sameininguna og helstu þætti þjónustunnar.

 

Í vikunni átti forstjóri HSu fund í Velferðarráðuneytinu og er verið að skoða möguleika á að nýta fé sem er eyrnamerkt stofnuninni til að eiga upp í kostnað við að fjárfesta annars vegar í nýju röntgentæki á Selfossi og hins vegar í nýju CT tæki í Vestmannaeyjum.

 

Einnig fundaði Herdís í vikunni með verkefnastjórum um upplýsingatækni hjá Embætti Landlæknis og staðfesti að fljótlega verður hafist handa við að sameina þrjá gagnagrunna Sögukerfisins í umdæminu í einn sameiginlegan gagnagrunn fyrir sjúkraskrána á stofnuninni.

 

Vegna sameiningar stofnanna verður ekki hjá því komist að leggja niður starf framkvæmdastjóra hjúkrunar og lækninga hjá fyrrverandi stofnunum og eru störf framkvæmdastjóra hjúkrunar og lækninga hinnar nýju sameinuðu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands auglýst nú um helgina laus til umsóknar.

 

Verið er að vinna í nýju skipuriti fyrir stofnunina og fyrstu drög að skipuriti munu liggja fyrir í næstu viku.  Kynnt verður nýtt skipurit fyrir starfsfólki í desember.  Jafnframt styttist í að nýtt logo verði valið fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurlands.