Forseti Íslands og heilbrigðisráðherra í Laugarási

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í dag föstudaginn 9. júní var Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands ásamt forsetafrú á ferð um Bláskógarbyggð og kom við á nokkrum stöðum og þar á meðal heimsótti hann heilsugæslustöðina í Laugarási.  Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra, Helgi Kjartansson oddviti, Valtýr Valtýsson sveitastjóri, Herdísi Gunnarsdóttur forstjóra HSU og framkvæmdastjórn HSU og starfsfólk í Laugarási tóku á móti hópnum við heilsugæsluna í blíðskaparveðri.

Tilefni heimsóknar forseta Íslands og heilbrigðisráðherra var undirritun samnings Bláskógabyggðar og Landlæknisembættis um Heilsueflandi samfélag á 15 ára afmæli Bláskógabyggðar.  Það var  skemmtilegt að geta sameinast í svona ánægjulega heimsókn.

Eftir að gestir voru komnir í hús, bauð Valgerður Sævarsdóttir formaður byggðaráðs alla velkomna.  Páll Magnús Skúlason fór yfir sögu heilsugæslunnar í Laugarási, fram kom hjá honum að læknir hefur verið starfandi þar síðan árið 1920, en heilsugæslan í núverandi mynd síðan 1997. Herdís Gunnarsdóttir forstjóri HSU fór yfir verkefni heilsugæslunnar á sviði hjúkrunar og lækninga og þau tækifæri sem liggja í áframhaldandi uppbyggingu grunn heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi. Forstjóri fagnaði þessu nýja samningi og bauð fram krafta HSU til samvinnu við áframhaldandi forvarnir, enda sé það eitt af lykilhlutverkum heilsugæslu.

Að því loknu sagði Helga Kristín Sæbjörnsdóttir verkefnastjóri heilsueflandi samfélags í Bláskógabyggð frá tilurð og tilgangi verkefnisins sem oddviti Bláskógabyggðar og heilbrigðisráðherra undirrituðu síðan formlega.

Að því loknu héldu forseti Íslands og heilbrigðisráðherra ræður um mikilvægi þess að efla lýðheilsu og heilbrigði, og mikilvægi samningsins í þá átt til heilsueflingar fyrir íbúa.

Í lokin var boðið uppá veitingar og skoðun um húsið. Þetta var einkar góður dagur, veðrið lék við gestina og þeim færðar bestu þakkir fyrir komuna.