Inflúensan er komin – ekki of seint að bólusetja

Samkvæmt upplýsingum frá sóttvarnalækni Landlæknisembættisins þá er hin árlega inflúensa komin til landsins en hún er ekki komin á mikið flug ennþá. 
Ennþá er tími til að láta bólusetja sig og því ekki rétt að tími bólusetninga sé löngu liðinn og að ekkert bóluefni sé til. Þeir sem áhuga hafa á að láta bólusetja sig gegn inflúensunni er bent á að snúa sér til næstu heilsugæslu.


 

Læknaráð HSu ályktar um tillögur heilbrigðisráðherra

Á fundi sínum þann 16. janúar sl. samþykkti Læknaráð HSu eftirfarandi ályktun  varðandi tillögur Heilbrigðisráðuneytis (HR) um skipulagsbreytingar í heilbrigðiskerfinu frá 7. Janúar 2009.


1. Læknarráð lýsir vonbrigðum yfir þeim einhliða vinnubrögðum sem virðast viðhöfð við vinnu og framsetningu þessara tillagna. Tillögurnar eru ekki unnar í samvinnu við fagfólk og heimamenn á þjónustusvæði HSu og engir kostnaðar- eða hagkvæmnisútreikningar fylgja þeim. Tillögur þessar virðast settar saman útfrá sjónarmiði þeirra sem búa í þéttbýli og taka lítið tillit til hagsmuna og öryggis íbúa sem búa utan höfuðborgarsvæðisins eða á Akureyri.


 

Kaupmannafélag Suðurlands gefur á hjúkrunardeildir HSu

Þann 8. jan. 2008 var Vinafélagi Ljósheima og Fossheima afhent peningagjöf kr. 424.134.- frá Kaupmannafélagi Suðurlands. Félagið var stofnað af starfandi kaupmönnum á svæðinu um áramótin ’86 og var starfandi til ársins 1998. Það var síðan ákvörðun stjórnar að gefa vinafélaginu alla sjóðsupphæð félagsins. Afhending fór fram á heimili formanns Gunnars B. Guðmundssonar þar sem eiginkona hans Helga Jónsdóttir reiddi fram glæsilegt kaffihlaðborð.

Hjúkrunar-og ljósmæðraráð HSu ályktar um fyrirhugaða skerðingu þjónustu

Efni:  Ályktun Hjúkrunar- og ljósmæðraráðs í kjölfar yfirlýsingar heilbrigðisráðherra um breytingar á skipulagi og niðurskurð á þjónustu á HSu.
 
 
Stjórn Hjúkrunar- og ljósmæðraráðs HSu mótmælir harðlega vinnubrögð heilbrigðisráðherra við kynningu og innleiðingu breytinga á heilbrigðisþjónustu HSu. Unnið hefur verið að þessum breytingunum með mikilli leynd og hefur starfsfólki verið haldið í heljargreipum óvissu og ótta um störf sín.
Ráðið harmar þann niðurskurð sem stofnunin stendur frammi fyrir og þá skerðingu á þjónustu Heilbrigðisstofnunarinnar sem íbúar á þjónustusvæði hennar þurfa óhjákvæmilega að horfast í augu við.

Breytingar á heilbrigðisþjónustu

Í dag kynntu stjórnendur HSu starfsmönnum sínum þær breytingar sem verða á starfsemi stofnunarinnar skv. tillögum  Guðlaugs Þ. Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra. Breytingarnar sem eru stefnumarkandi fela m.a. í sér að vaktþjónusta á skurðsviði sjúkrahússins verður lögð niður og það hefur þau áhrif m.a. að fæðingar munu nánast leggjast af.

Sjúkraflutningamenn gleðja fjölskyldu

 


Á aðfangadag heimsóttu sjúkraflutningamenn úr Árnessýslu, Aron Eðvarð Björnsson og foreldra hans á barnaspítala Hringsins í Reykjavík. Aron liggur þar inni vegna veikinda sem hann hefður verið að kljást við síðan frá fæðingu, en hann fæddist 11. október sl.  Saga veikindanna er sú að á fæðingartímanum varð hluti garna utan við magann og þegar maginn lokaðist varð hluti garnanna eftir og skemmdist sá hluti, sem var til þess að drep komst í sárið.

 

 

Ljósheimar frá peningagjöf

Vörður, félag stjórnenda á Suðurlandi færði hjúkrunardeildinni Ljósheimum kr. 500 þúsund að gjöf, og skyldi gjöfinni varið til iðjuþjálfunar á deildinni. Keyptur hefur verið bakarofn sem er á hjólum og nú geta hjúkrunarsjúklingarnir á  deildinni fengið að taka þátt í að baka við og við og er það liður í  þeirri iðjuþjálfun sem þeir fá.
Jón Vilhjálmsson, fulltrúi Varðar afhenti Magnúsi Skúlasyni, forstjóra HSu  peningagjöfina og Fanney Karlsdóttir iðjuþjálfi sagði frá starfi sínu á deildinni en auk hennar er Ragnheiður Lúðvíksdóttir einnig starfandi iðjuþjálfi á stofnuninni.  Gjöfin var gefin í tilefni 60 ára afmælis félagsins.

Fyrsta barn ársins 2009

Á nýársdag kl.12:29 fæddist fyrsta barns ársins 2009  á Fæðingadeild HSu. Þetta var stúlka sem vóg 3420 gr  og var 49 cm að lengd. Foreldrarnir eru Þórunn Kolbrún Þórarinsdóttir og Einar Logi Eiðsson sem búa á Drekavöllum 18 í Hafnarfirði. Innilegar hamingjuóskir !

Ný reglugerð tekur gildi 1. janúar 2009

Frá og með 1. janúar 2009 tekur gildi ný reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Reglugerðin er birt á heimasíðu Stjórnartíðinda, stjornartidindi.is.


Reglugerðin er að stofni til endurútgáfa reglugerðar nr. 1265/2007 og felur í sér breytingu á greiðsluþátttöku sjúkratryggðra vegna heilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum og á heilbrigðisstofnunum.

Heilsugæsluþjónusta á Eyrarbakka og Stokkseyri

Á undanförnum árum hefur aðsókn í heilsugæsluselin á Eyrarbakka og Stokkseyri dregist verulega saman. Bæði selin eru opin tvo hálfa daga í viku, en hafa verið lokuð í júní til ágúst á hverju ári. Þrátt fyrir að þessi heilsugæslusel séu opin þá hefur aðsókn í þau verið mjög dræm. Íbúar þessara byggðarlaga sækja heilsugæsluþjónustu fyrst og fremst til heilsguæslustöðvarinnar á Selfossi.

Stuðningsviðtöl hefjast að nýju

Vegna stöðu efnahagsmála og í kjölfar þeirra erfiðleika sem nú eru í íslensku þjóðfélagi hafa aðilar sem vinna að velferðarþjónustu, undir forystu Fjölskyldumiðstöðvar Árborgar, ákveðið að bjóða þeim stuðningsviðtöl sem þess óska. Að verkefninu koma Fjölskyldumiðstöð Árborgar – félagsþjónusta, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Skólaskrifstofa Suðurlands, prestar í Árnesprófastdæmi og Rauði krossinn.


Þeir sem óska eftir viðtali er bent á að hringja í þjónustuver Sveitarfélagsins Árborgar í síma 480-1900 eða senda tölvupóst á netfangið arborg@arborg.is og gefa upp símanúmer. Haft verður samband við viðkomandi og viðtalstími tilkynntur.

Samþykktir SASS varðandi heilbrigðismál

Heilbrigðisstofnun Suðurlands


Ársþing SASS á Hvolsvelli 2008 skorar á stjórnvöld að ljúka nýbyggingu Heilbrigðisstofnunar eins og til stóð, útboðsgögn eru tilbúin og er beðið eftir að fjármálaráðuneyti gefi leyfi fyrir útboðinu. Sveitarstjórnarmenn og þingmenn Suðurkjördæmis eru hvattir til að fylgja málinu eftir þannig að verkið tefjist ekki frekar.

Tillögur um lækkun útgjalda

Vegna hinna miklu áfalla, sem dunið hafa á fjámálakerfi landsmanna að undanförnu er nú unnið að tillögum um mikla lækkun útgjalda ríkissjóðs. Heilbrigðisráðuneytið hefur óskað eftir tillögum frá heilbrigðisstofnunum um 10 % lækkun útgjalda á næsta ári. Víð mótun slíkra tillagna hefur framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands haft að leiðarljósi hlutverk stofnunarinnar skv. lögum um heilbrigðisþjónustu og að sem minnst skerðing verði á þjónustunni. Einnig að forðast í lengstu lög uppsagnir starfsfólks. Leitað var eftir þátttöku starfsmanna í gerð tillagnanna. Fjölmargar tillögur bárust frá stjórnendum og öðru starfsfólki stofnunarinnar, sem er verið að vinna úr.

Ábyrg sýklalyfjanotkun – vitundarvakning í Evrópu

Í dag, 18. nóvember 2008, verður haldin í fyrsta sinn vitundarvakning um sýklalyf sem nær til allra Evrópuþjóða. Ætlunin er að halda árlega slíka vitundarvakningu. Vakin er athygli á mikilvægi sýklalyfja þegar þau eru rétt notuð til meðferðar á sýkingum en jafnframt er vakin athygli á áhættu sem fylgir rangri notkun þeirra.

Ný kapella vígð á HSu

Þann 16. nóvember  var vígð ný kapella í Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.  Hin nýja kapella er í nýbyggingu stofnunarinnar, en 1. áfangi hennar var tekinn í notkun í byrjun þessa árs.
Fyrir rúmu ári var eldri kapellu stofnunarinnar tekin úr notkun vegna tengingar eldri og nýrri byggingar.  Síðan hefur verið unnið að tengingu gömlu og nýju byggingarinnar, ásamt innréttingu á hinni nýju kapellu.
Oddfellowreglan á Suðurlandi þ.e. Rebekkustúkan nr.9 Þóra og Oddfellowstúkan Hásteinn nr.17 tók að sér innréttingu kapellunnar. Þetta ákváðu stúkurnar að gera í tilefni af 15 ára afmæli þeirra á síðasta ári.

HSu semur við Hveragerðisbæ

Þann 29. október 2008 var skrifað undir samning milli HSu og Hveragerðisbæjar um heilbrigðisþjónustu við starfsmenn Hveragerðisbæjar.  Felur samningurinn í sér þjónustu trúnaðarlæknis sem og þjónustu hjúkrunarfræðinga frá heilsugæslunni á Selfossi um heilsufarsmælingar á starfsfólki, almenna og sérhæfða fræðslu auk inflúensubólusetninga. Samningurinn gildir frá 1. nóvember og munu hjúkrunarfræðingar hefja bólusetningar í næstu viku. Er það von okkar á HSu að fleiri sveitarfélög komi til með að nýta sér þessa þjónustu.

Um starfsemi HSu árið 2007

Samantekt úr ársskýrslu 2007 – skýrslan upplýsir starfsemi, umfang og rekstur stofnunarinnar.
Þjónustusvæði stofnunarinnar nær til um 20 þúsund íbúa á Suðurlandi.
Um er að ræða 8 heilsugæslustöðvar, 31 rúma sjúkrahús, 24 rúma hjúkrunardeild – Réttargeildeildin að Sogni með 7 vistrými og heilbrigðisþjónusta við Litla Hraun, en þar eru að jafnaði 80 fangar.

Hlé á stuðningsviðtölum vegna efnahagsmála


Hlé verður gert á stuðningsviðtölum sem íbúum hefur staðið til boða vegna stöðu efnahagsmála á Íslandi. Um er að ræða samstarfsverkefni Fjölskyldumiðstöðvar Árborgar – félagsþjónustu, Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Skólaskrifstofu Suðurlands, Vinnumálastofnunar Suðurlandi, presta í Árnesprófastdæmi og Rauða krossins sem starfrækt hefur verið síðustu tvær vikur. Staðan verður endurmetin á næstu vikum. Komi til þess að aftur verði boðið upp á þjónustu af þessu tagi verður það auglýst sérstaklega.

Góð reynsla af iðjuþjálfun barna og ungmenna

Nú hefur tilraunaverkefni um iðjuþjálfun barna og ungmenna á Suðurlandi staðið í eitt ár.  Verkefnið er til 3ja ára og er samstarfsverkefni Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Skólaskrifstofu Suðurlands og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Suðurlandi.

Starfið felur í sér iðjuþjálfun barna og ungmenna 0-18 ára, þátttöku í greiningarteymi barna, ráðgjöf í leik- og grunnskólum, fræðslu til starfsfólks, ásamt einstaklingsþjálfun samkv. tilvísunum.  Verkefni eins og mat, ráðgjöf og þjálfun hefur farið fram í nánasta umhverfi barnsins/skjólstæðingsins. Starfssvæðið er Suðurland og vinnur iðjuþjálfinn eftir tilvísunum frá þeim stofnunum, sem að tilraunaverkefninu standa. Verkefni fyrir Svæðisskrifstofu eru ekki bundin við börn, heldur notendur á öllum aldri. Felast flest verkefnin þar í mat og ráðgjöf vegna hjálpartækja, aðstæðna á heimilum og vinnustöðum, úttekta og fræðslu til notanda og starfsfólks. 

Sálfræðiþjónusta barna og ungmenna

Sálfræðiþjónusta Heilbrigðisstofnunar Suðurlands er ætluð börnum og ungmennum að 16 ára aldri. Þrír sálfræðingar eru starfandi við HSu. Ari Bergsteinsson, Íris Böðvarsdóttir og Þuríður Pétursdóttir. Þjónustan felst einkum í meðferð vegna vandamála eins og kvíða/fælni, depurð og hegðunarerfðileika, auk uppeldis- og hegðunarráðgjafar fyrir foreldra. Þeir aðilar sem geta vísað málum til sálfræðinga HSu eru starfandi heilsugæslulæknar á Suðurlandi og sálfræðingar Skólaskrifstofu Suðurlands.

Ársfundur HSu 2008

Ársfundur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands árið 2008 verður haldinn miðvikudaginn 22. október  kl. 14 – 16.  Fundurinn verður haldinn á Hótel Selfossi, í fundarsal á 2. hæð, suðursalur.  Fundurinn er opinn fyrir starfsfólk HSu, alþingismenn Suðurkjördæmis og fulltrúa sveitarfélaga.  


Dagskrá:
1. Ávarp.  Magnús Skúlason, forstjóri.
2. Ársskýrsla 2007, kynning á starfsemi.  Esther Óskarsdóttir, skrifstofustjóri.
3. Ný löggjöf um heilbrigðisþjónstu.  Sigurður Guðmundsson, landlæknir.
4. Jarðskjálftarnir 29. maí. Hlutverk HSu, áfallahjálp ofl.   Íris Böðvarsdóttir, sálfræðingur.
5. Ávörp.


Ársfundur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands árið 2008 verður haldinn miðvikudaginn 22. október  kl. 14 – 16.  Fundurinn verður haldinn á Hótel Selfossi, í fundarsal á 2. hæð, suðursalur.  Fundurinn er opinn fyrir starfsfólk HSu, alþingismenn Suðurkjördæmis og fulltrúa sveitarfélaga.  


 

Fékk prinsessuköku frá Guðnabakaríi

Erla Leifsdóttir, íbúi á Sólheimum í  Grímsnesi dvaldi á HSu á fimmtugsafmælinu sínu þann 2. september sl. Eigandi Guðnabakarís á Selfossi  frétti af þessu merkisafmæli og bakaði prinsessuköku fyrir afmælisbarnið og sendi henni á sjúkrahúsið.

Kveðjuhóf fyrir starfsmenn

Þriðjudaginn 14.okt. var haldið kveðjuhóf á stofnuninni fyrir
3 starfsmenn sem hætt hafa störfum vegna aldurs. Um er að ræða 3 konur sem allar eru fæddar árið 1941 og urðu því 67 ára á árinu.

Aðstandendadagur 19. október

Aðstandendadagur  verður haldinn 19. okt. 2008 nk. Á  Fossheimum  kl. 14:00  og á Ljósheimum kl. 15:00.


Á dagskránni verður erindi frá deildarstjórum hjúkrunardeildanna, tónlistarflutningur o.fl. og að sjálfsögðu boðið upp á kaffi og gott meðlæti. 

Stuðningsviðtöl vegna erfiðleika í íslensku þjóðfélagi

Vegna stöðu efnahagsmála á Íslandi þessa dagana og í kjölfar þeirra erfiðleika sem nú ríða yfir íslenskt þjóðfélag hafa aðilar sem vinna að velferðarþjónustu, undir forystu Fjölskyldumiðstöðvar Árborgar,  ákveðið að bjóða þeim stuðningsviðtöl sem á því þurfa að halda. Að verkefninu koma  Fjölskyldumiðstöð Árborgar – félagsþjónusta, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Skólaskrifstofa Suðurlands, Vinnumálastofnun Suðurlandi, prestar og Rauði krossinn.

Inflúensubólusetningar haustið 2008

Inflúensubólusetningar  verða 13. – 17. október 2008 á milli kl. 8:00 – 9:00 og 13:00 -14:00 á Heilsugæslustöð Selfoss.
Sóttvarnalæknir mælir með árlegri bólusetningu áhættuhópa sem eru meðal annars eftirfarandi:
– Allir einstaklingar eldri en 60 ára.
– Allir einstaklingar undir 60 ára sem þjást af langvinnum hjarta-,  lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum. 


 

Málþing Fræðslunefndar HSu

Málþing Fræðslunefndar HSu  „Næring og heilsa“ var haldið  25. sept. sl. á Hótel Selfossi.
Baldvina Ýr Hafsteinsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri og formaður fræðslunefndar setti málþingið. Fundarstjóri var Svanborg Egilsdóttir, yfirljósmóðir.

Ársfundur HSu verður haldinn 22. okt. nk.

Ársfundur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands árið 2008 verður haldinn miðvikudaginn 22. október  kl. 14 – 16.  Fundurinn verður haldinn á Hótel Selfossi, í fundarsal á 2. hæð, suðursalur.  Fundurinn er opinn fyrir starfsfólk HSu, alþingismenn Suðurkjördæmis og fulltrúa sveitarfélaga.  


Starfsmenn er hvattir til að mæta og kynna sér það sem efst er á baugi í málefnum HSu.  Vakin er athygli á, að ársskýrsluna verður að finna á heimasíðu HSu fyrir fundinn, www.hsu.is


 

Geðheilbrigðisþjónusta fyrir almenning

Í framhaldi af samningi um tilflutning verkefna var ákveðið að efla og bæta geðþjónustu við almenning á Suðurlandi. Þann 1. september sl. hófst þessi starfsemi og hefur
Dröfn Kristmundsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur hefur verið ráðin til starfa við HSu.

Aldraðir íbúar á jarðskjálftasvæðinu fá aukna áfallahjálp.

Styrkur frá LCIF – Alþjóðahjálparsjóði Lions
Neyðaraðstoð vegna náttúruhamfara


Lionshreyfingin á Íslandi fékk í ágúst s.l. afhentan 10.000 US$ (810.000 kr.) neyðarstyrk “Emergency Grant” frá Alþjóðahjálparsjóði Lions LCIF, vegna jarðskjálftanna á Suðurlandi 28. maí 2008.

Deildarlæknir ráðinn á sjúkrasvið

Mikil og vaxandi starfsemi á sjúkrasviði hefur kallað á aukningu í læknisþjónnustu. Á undanförnum árum hefur starfsemi sjúkrasviðs aukist með hverju árinu. Komum til sérfræðilækna hefur fjölgað, skurðaðgerðum hefur fjölgað sem og speglunum og rannsóknum eins og hjartaómskoðunum og áreynsluprófum.
Mikilvægt er því að styrkja starfsemi sjúkrasviðs og að ráði Hjúkrunar og ljósmæðraraðs og Læknaráðs hefur framkvæmdastjórn ráðið deildarlækni til starfa. Um er að ræða tímabundna stöðu læknis. Fyrst til að hefja þessi störf er Dögg Hauksdóttir en hún er í sérnámi í fæðingar og kvennsjúkdómum og verður hjá okkur fyrst í 4 mánuði. Reiknað er með að ráðið verði í stöðu deildarlæknis í 4-12 mánuði í einu. Deildarlæknir starfar við hlið sérfræðilækna sjúkrahúss

Aukin sálfræðiþjónusta á Suðurlandi

Móttökuritarar á Hsu Selfossi taka við beiðnum um áfallahjálp, einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið afallahjalp@hsu.is. Tilvísun vegna barna, annarra en þeirra sem þurfa á áfallahjálp að halda, skal senda bréflega til heilsugæslunnar merkt Sálfræðingar Heilsugæslu, Heilbrigðisstofnun Suðurlands v/Árveg, 800 Selfoss. Í tilvísun þarf að koma fram nafn, kennitala og heimilisfang barnsins, skóli/leikskóli, ástæða tilvísunar, nöfn foreldra og símanúmer (bæði heimasími og vinnusími/gsm). Það skal tekið fram að sálfræðingar Hsu sinna ekki meðferð fyrir fullorðna einstaklinga, þeir sem á slíku þurfa að halda verða að leita sér aðstoðar hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingum á stofu. Hins vegar geta nemendur við Menntaskólann á Laugarvatni og Framhaldsskóla Suðurlands leitað til námsráðgjafa í sínum skóla, en þessir skólar hafa greitt fyrstu þrjá tímana fyrir þá nemendur sem að mati námsráðgjafa þurfa á sálfræðimeðferð að halda. 

Starfsemi á HSu í verkfalli ljósmæðra 4. og 5. september n.k.

Í boðuðu verkfalli ljósmæðra 4.og 5. september nk. verður reynt að tryggja, að nauðsynlegasta heilbrigðisþjónusta verði í veitt í samræmi við ákvæði um verkföll í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Fæðingarhjálp telst til nauðsynlegustu heilbrigðisþjónustu og verður því sótt um heimild hjá undanþágunefnd um að ávallt sé ljósmóðir á vakt á fæðingardeildinni á Selfossi.


Mæðravernd á heilsugæslustöðinni í Laugarási fellur hins vegar niður þann 4. september.

Sjúkraflutningamenn vinna að auglýsingu

Sjúkraflutningamenn í Árnessýslu settu upp slysavettvang í samstarfi við lögreglu og Brunavarnir Árnessýslu s.l. föstudagskvöld. Tilgangurinn var myndataka í tengslum við auglýsingar sem Félag sjúkraflutningamanna stefnir á að birta á næstu vikum vegna þeirra alvarlegu slysa sem orðið hafa í umferðinni undanfarna mánuði. Útkoma er eitthvað á þá leið sem sjá má á meðfylgjandi mynd.

Gáfu fæðingadeildinni nýja myndavél

Sigrún Kristjánsdóttir, ljósmóðir og Valdimar Hafsteinsson, forstjóri Kjöríss í Hveragerði hafa gefið fæðingadeildinni nýja digital myndavél. Þau hjónin hafa áður gefið deildinni myndavél og nú var komið að því að endurnýja þá vél með tilkomu nýrrar heimasíðu. Myndavélin er af gerðinni Canon Digital Ixus 7,5 og hana nota ljósmæður til að taka myndir af öllum börnum sem fæðast á sjúkrahúsinu og einnig af börnum sem liggja sængurlegu með mæðrum sínum eftir að hafa fæðst t.d. á Fæðingadeild LSH í Reykjavík.  Myndbirtingin er þó háð leyfi foreldra.
Það sem af er árinu hafa fæðist yfir 100 börn á sjúkrahúsinu svo það lítur út fyrir að árið í ár verði nýtt metár í fæðingum.

Eðlileg fæðing og aðdragandi hennar:

Hver vika meðgöngunnar og jafnvel hver dagur skiptir máli fyrir lungnaþroskann hjá barninu og því ákjósanlegast að barnið ljúki sínum 40 vikum af meðgöngunni.
Meðgöngulengd er eðlileg frá 38 vikum og til 42 vikna. Að meðaltali er meðgöngulengd nær 41 viku en 40 vikum og því ekki rétt að tala um að kona sé komin yfir tímann ef hún gengur með barn sitt lengur en 40 vikur.


Gangsetning fæðingar er því aðeins gerð ef fæðing hefur ekki byrjað eftir 42 vikna meðgöngu, nema í brýna nauðsyn krefji.Hvers vegna er fagfólk sparsamt á gangsetningu?Ýmis einkenni eru örugg merki um byrjandi fæðingu en önnur eru óljósari.

Áhugaverðar heimasíður fyrir verðandi mæður/foreldra

Það er viðurkennt að þekking á gangi fæðingarinnar minnkar til muna kvíða hjá verðandi foreldrum, og veitir þeim þannig tækifæri til þess að hafa áhrif á gang hennar.
Frá náttúrunnar hendi hefur líkaminn sjálfur þá þekkingu sem þarf til þess að ala barn og brjóstfæða það. Nútímamaðurinn er þó í mun minni tengslum við náttúruna en forfeður hans voru og vill stundum ráðskast með eðlilega líkamsstarfssemi sína. Þetta kemur stundum niður á fæðingum og brjóstagjöf, þegar við gleymum að treysta líkamanum fyrir því sem hann kann.


Hér er hægt að nálgast fræðslu um barneignarferlið (meðgöngu, fæðingu, sængurlegu) frá ýmsum leiðum.


Útvíkkunarstig

Rólegt stig útvíkkunar:
Útvíkkun legháls frá 0sm til 5sm. Útvíkkun er hæg, hríðir u.þ.b. 1 mín. langar og geta verið nokkuð óreglulegar en styttist jafnt og þétt á milli.Þetta er tíminn til að slaka á, hvílast ef konan er þreytt, því svefnlaus nótt kann að vera framundan. Gott er að borða á meðan konan hefur lyst, því fæðing útheimtir heilmikla orku. T.d. væri vel til fundið að leiða hugann frá hríðunum yfir videói og pizzu, áður en hríðirnar verða of sterkar. Pabbarnir mega heldur ekki gleyma að hugsa um sig, því þeir eiga líka mikið verk fyrir höndum.Rétti tíminn til að fara upp á sjúkrahús ( ef fæðingin á að verða á sjúkrahúsi) er þegar þið haldið að ykkur líði betur með að vera þar. Hægt er að fara og hitta ljósmóður til að meta hvort fæðing sé hafin og hversu langt á veg hún er komin og fara svo heim aftur ef þið viljið. Tíminn er lengi að líða meðan maður bíður á sjúkrahúsi, svo verið heima eins lengi og þið treystið ykkur til.

Vatn sem verkjameðferð í fæðingu

Bað hefur verkjastillandi áhrif á flestar fæðandi konur, vegna þeirrar slökunar sem vatn veitir.  Þegar við leggjumst í bað fyllumst við vellíðan, hreyfingar okkar verða léttari, og streita minnkar.Þegar við finnum til sársauka, losar líkaminn efni ( t.d. endorfín ) sem eru verkjadeyfandi.   Streituhormónar hamla hins vegar losun þessara efna, þannig að áhyggjur og hræðsla auka sársauka, en sátt við ástandið minnkar hann.  Þannig virkar baðið, okkar eigin verkjadeyfing nær að virka. 

Kostir uppréttra stellinga

Hríðir verða kröftugri og reglulegri og slökun meiri í leginu á milli hríða


· Opnun leghálsins (útvíkkun) gengur hraðar
· Þrýstingur frá kolli barnsins á leghálsinn verður meiri milli hríða
· Fyrsta og annað stig fæðingar styttist um allt að 40%
· Betra blóðflæði er um líkamann og þar af leiðandi betri súrefnisflutningur til barnsins
· Færri aðþrengd börn og börn sprækari við fæðingu (hærri apgar)
· Meiri þægindi fyrir konuna, minni streita, minni sársauki og þar af leiðandi minni verkjalyf
· konum finnst þær vera meiri þátttakendur í fæðingunni


(Janet Balaskas — New Active Birth)

Fæðing í vatni

Í flestum tilfellum fer konan upp úr vatninu áður en hún fæðir. En stundum vill hún það ekki, og stundum nær hún því ekki. Er þá barninu óhætt að fæðast undir vatnsyfirborðinu?Já, oftast. Barnið fær súrefni gegnum naflastrenginn þar til fylgjan losnar eftir fæðinguna. Barnið fær síðan súrefni úr loftinu þegar það andar því að sér, þegar þar að kemur.Það sem fær barn til að anda er að fá kalt andrúmsloftið á kinnarnar. Það andar því ekki fyrr en það kemur upp úr vatninu.

Inngrip í fæðingar eiga að vera í lágmarki á HSu

Þau inngrip í fæðingar sem skráð eru markvisst á HSu og hvers vegna við viljum hafa þau í lágmarki


Pethidin er sterkt verkjalyf, sem stundum er notað við fæðingar.  Það hefur slævandi áhrif á bæði móður og barn og í sumum tilfellum getur það haft öndunarletjandi áhrif á barnið og valdið erfiðleikum við brjóstagjöf.  Það var notað í þeim tilgangi að minnka sársauka í hríðunum en þykir ekki bera mikinn árangur sem verkjastilling.  Það virkar hins vegar mjög slakandi og hefur því góð áhrif á kvíða og spennu og er nú mest notað í þeim tilvikum þar sem konan er mjög spennt, hrædd eða þreytt.

Hormónaflæði í fæðingu

Oxitocin sem er öðru nafni kallað ástarhormónið, gegnir miklu hlutverki í kynferðislegri örfun og fullnægingu kvenna. Þetta hormón veldur samdrætti í leginu, þ.e. hríðunum. Oxitocin veldur líka mjólkurlosun úr brjóstunum við brjóstagjöf.

Fræðsla og umræður um barneignir

Vorið 2001 ákváðum við að hætta með hefðbundin foreldrafræðslunámskeið í því formi sem áður var. Í stað þeirra skipulögðum við svokallað Opið hús.

Opið hús er þannig uppbyggt að í stað þess að hafa fræðsluna á fyrirlestraformi þá er fræðslan á Opnu húsi einstaklingshæfð þannig að konunum/pörunum er skipt í hópa niður á ljósmæðurnar þannig að reynt er að hafa ekki fleiri en 2 pör á hverja ljósmóðir. Fræðslan fer þannig fram að pörin stjórna því hvað þau vilja fræðast um og verður megináherslan á það. Afhentir eru minnispunktar til þess að koma með hugmyndir að fræðsluefnum.

Áfallahjálp fyrir íbúa á skjálftasvæðum

Þann 30. júní nk. verður áfallahjálp og eftirfylgd flutt frá Þjónustumiðstöðvum og inn á heilsugæslustöðvarnar í Hveragerði og á Selfossi. Þar verður boðið upp á frekari sálræna úrvinnslu fyrir þá sem þess þurfa.


Ítrekað er að þjónustan er í boði fyrir íbúa á öllu skjálftasvæðinu, og þar með talið þá sem enn stríða við eftirköst vegna skjálftanna árið 2000. Þeir sem óska eftir viðtali við sálfræðing er bent á að hringja í síma 480-5114 á milli kl. 8:00 og 18:00 á virkum dögum. Einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið afallahjalp@hsu.is  og gefa upp símanúmer og haft verður samband við viðkomandi.

Húsnæði leigt vegna sjúkraflutninga í Árnessýslu

Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Björgunarmiðstöð Árborgar hafa gert samning um leigu húsnæðis, sem er í eigu Björgunarmiðstöðvarinnar á Selfossi.


Í húsnæðinu verður aðstaða fyrir sjúkrabifreiðar þær, sem Heilbrigðisstofnun Suðurlands rekur vegna sjúkraflutninga í Árnessýslu og öll aðstaða sem tengist þeirri starfsemi, en heilbrigðisstofnunin tók í ársbyrjun 2006 við sjúkraflutningum í Árnessýslu. Hafa flutningarnir aukist verulega undanfarin misseri.


Um er að ræða rúmlega 360 fermetra húsnæðisins og aðgang að sameign. Gildistími samningsins er 25 ár, eða frá 17. júní 2008 til 17. júní 2033.


Samningurinn var staðfestur var staðfestur með undirskrift Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra, og Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, í hinni nýju Björgunarmiðstöð á Selfossi fimmtudaginn 12. júní.Vonast er til þess að húsnæðið verði tekið í notkun í lok mánaðarins.

Fjárlaganefnd heimsækir HSu

Fjárlaganefnd hefur verið að kynna sér aðstæður á Suðurlandi undanfarna daga.  Á miðvikudag kom nefndin í heimsókn á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi og kynnti sér málefni stofnunarinnar.  Nefndin skoðaði húsnæði stofnunarinnar, m.a. þær lítilsháttar skemmdir, sem urðu á eldri hluta byggingarinnar, auk þess að skoða hina nýju og glæsilegu viðbyggingu.  Stefnt er að því að bjóða út innréttingu 1. hæðar og kjallara nýbyggingarinnar í þessum mánuði.  Þá var fjárlaganefnd kynnt starfsemi stofnunarinnar, en mikil aukning hefur verið í þjónustu stofnuarinnar undanfarin misseri, hvort sem er í heilsugæslu eða á sjúkrahúsi.  Fyrstu fjóra mánuði þessa árs hefur fæðingum t.d. fjölgað um 55 % frá sama tíma árið 2007.  Ennfremur var farið yfir starfsemi Réttargeðdeildarinnar á Sogni og hina brýnu þörf á að bæta húsnæðisaðstoðu þar.  Loks var farið yfir þær tillögur, sem stofnunin hefur lagt fram vegna fjárlagagerðar fyrri árið 2009.

Tilkynning um áfallahjálp í Þjónustumiðstöðvum fyrir skjálftasvæðin

Boðið verður upp á aukinn opnunartíma í áfallahjálp.
Fagfólk á vegum Landspítala og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands veitir stuðning og áfallahjálp.


Viðtalsþjónustan verður áfram í Þjónustumiðstöðvum á Selfossi og í Hveragerði,
mánudag 9. júní – föstudags 13. júní kl. 15 – 18.


Bent er á upplýsingasíðu Rauða krossins varðandi leiðbeiningabæklinga um sálrænan stuðning. www.redcross.is smella á Suðurlandsskjálftar.

Aukið aðgengi að áfallahjálp

Tilkynning vegna aðgengis að áfallahjálp í Þjónustumiðstöðvum fyrir skjálftasvæðin.


Boðið verður upp á aukinn opnunartíma í áfallahjálp.
Fagfólk á vegum Landspítala hefur bæst í hóp þeirra presta og sjálfboðaliða Rauða krossins sem veitt hafa stuðning og áfallahjálp hingað til.


Viðtalsþjónustan verður áfram í Þjónustumiðstöðvum á Selfossi og í Hveragerði,
miðvikudag 4. júní og fimmtudag 5. júní kl. 14 – 20.


Bent er á upplýsingasíðu Rauða krossins varðandi leiðbeiningabæklinga um sálrænan stuðning. www.redcross.is smella á Suðurlandsskjálftar.

Réttargeðdeildin á Sogni

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu um málefni Réttargeðdeildarinnar á Sogni vill undirritaður vekja athygli á, að Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur haft umsjón með rekstri deildarinnar. Hefur stofnunin átt náið samstarf við Heilbrigðisráðuneyti og embætti Landlæknis um rekstur og starfsemi deildarinnar.


Síðustu ár hefur verið lögð mikil áhersla á að styrkja starfsemi deildarinnar með bættri þjónustu, ráðningu starfsfólk og gerð tillagna um bætta aðstöðu og stærra húsnæði. Geðlæknir og iðjuþjálfi voru ráðnir til starfa, hjúkrunarþjónusta elfd og gæslumenn hafa sótt viðbótarnám sem félagsliðar.


Síðustu 3 – 4 ár hefur ítrekað verið auglýst eftir geðlæknum til starfa. Þeir virðast hafa haft öðrum merkilegri störfum að sinna. Síðla vetrar varð loks ljóst, að frá og með 1. september nk. verður hægt að hefja uppbyggingarstarf í geðheilbrigðisþjónustu á Suðurlandi. Yfirlæknir geðlækninga á Suðurlandi kemur til starfa, nýr iðjuþjálfi með mikla reynslu af þvi sviði kemur til starfa á sama tíma. Umsóknarfrestur er að líða varðandí ráðningu geðhjúkrunarfræðings, sem gert er ráð fyrir að komi til starfa 1. september. Með ráðningum framangreindra sérfræðinga er gert ráð fyrir, að loks verði hægt að veita Sunnlendingum geðheilbrigðisþjónustu í heimabyggð.


Ómaklegar og órökstuddar árásir á þjónustu Réttargeðdeildarinnar og starfsmanna hennar vegna meints misferlis fyrrverandi yfirlæknis deildarinnar eru með öllu tilhæfulausar. Skv. upplýsingum frá Landlækni hefur enginn af starfsmönnum Réttargeðdeildarinnar eða Heilbrigðisstofnunar Suðurlands verið grunaður um aðild að meintu misferli. Það hefur átt sér stað utan deildarinnar og er deildinni með öllu óviðkomandi.


Varðandi gagnrýni fyrrverandi skjólstæðins deildarinnar, sem ákveðnir fjölmiðlar hafa hampað gagnrýnislaust, þá er vert að vekja athygli á, að frá opnun deildarinnar fyrir 15 árum hafa á fimmta tug sjúklinga innritast á réttargeðdeildina, þar af um helmingur ósakhæfur. Núna eru 6 sjúklingar á deildinni. Aðrir hafa útskrifast og enginn þeirra framið afbrot aftur. Verður það að teljast afar góður árangur við meðferð mjög veikra einstaklinga, oft við erfiðar aðstæður. Á starfsfólk deildarinnar heiður skilinn fyrir slíka þjónustu.


Skjólstæðingar deildarinnar eru mjög veikt fólk með alvarlega geðsjúkdóma, sem hafa valdið alvarlegum einkennum og afbrotum. Málefni hvers og eins er mjög viðkvæmt og margir eiga um sárt að binda, bæði fjölskyldur sjúklings og fórnarlamba. Meðferðin er því mjög erfið, viðkvæm og tekur langan tíma. Ásakanir um illa meðferð eru því í engu samræmi við framangreindan árangur við að koma þessum einstaklingum út í þjóðfélagið á ný


Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

Byggingar HSu við Árveg óskemmdar

Burðarþolssérfræðingar hafa tekið út byggingu HSu við Árveg.
Engar skemmdir eru á burðarmannvirki hússins en smávægilegar sprungur eru í múrhúð.
Ragnar Sigbjörnsson, prófessor og forstöðumaður Jarðskjálftastofnunar HÍ kom á fund starfsfólksins og lýsti því sem gerist í jarðskjálfta af þessum styrkleika.
Starfsfólk var fullvissað um að óhætt væri að halda uppi eðlilegri starfsemi í húsinu.
Trausti Traustason, umsjónarmaður fasteinga HSu útskýrði byggingarlag hússins á myndrænan hátt og Magnús Skúlason, forstjóri HSu sagði frá því að Almannavarnir hefðu fyrirskipað flutning allra sjúklinga úr húsinu í gær en eftir að Guðjón Sigfússon, verkfræðingur og sérfræðingur í burðarþoli, hafði skoðað bygginguna og ljóst var að engar skemmdur voru á burðarþoli hennar, var leyft að flytja fólkið aftur á sjúkrahúsið.

Nýir fæðinga- og kvensjúkdómalæknar til starfa á HSu

Tveir fæðinga- og kvensjúkdómalæknar verða að störfum á HSu í júní nk. Þetta eru þau Brynhildur Eyjólfsdóttir og Radoslaw Szelc.
Brynhildur kemur frá Svíþjóð og leysir af í 4 vikur frá 9. júní. Radoslaw verður hér í 2 vikur til að byrja með frá 29/5. Hann kemur frá Póllandi en talar ensku líka.


Þau verða bæði með móttöku á sjúkrahúsinu og er hægt að panta tíma hjá þeim í afgreiðslu HSu í síma 480 5100.

Vor í Árborg á HSu

Nú stendur yfir sýning á myndlist barna á leikskólum í Árborg. Um margskonar myndlist er að ræða og svo eru einnig skúlptúrar. Þessi verk hafa börnin unnið á þemadögum í skólunum.

Aukning í starfsemi sjúkrasviðs

Mikil aukning er á nánast öllum sviðum sjúkrahússins fyrstu 4 mánuði ársins 2008.
Sjúklingum fjölgar og legudögum einnig. Sjúklingar sem lagðir eru inn á sjúkradeildir eru mun fleiri og í aprílmánuði var aukningin 23% miðað við sama mánuð í fyrra. Ferlisjúklingar eru einnig mun fleiri flesta mánuðina og voru 44% fleiri núna en á sama tíma í fyrra.
Eins og áður hefur komið fram hefur speglunum á meltingarfærum fjölgað mjög mikið og enn fjölgar fæðingum, þær voru 66% fleiri nú í apríl en í fyrra.
Þetta hlýtur að spegla þá miklu fjólksfjölgun sem orðið hefur á svæðinu.

Hættir á HSu eftir 37 ára starf

Viktoría Guðmundsdóttir, aðstoðarmaður á myndgreiningardeild (röntgen) HSu lét af störfum nú um mánaðamótin eftir 37 ára starf. Hún byrjaði sem gangastúlka á Sjúkrahúsi Selfoss en síðustu 25 árin vann hún á myndgreiningardeildinni. Af þessu tilefni efndu stjórnendur til kaffisamsætis og færðu Viktoríu gjöf og þökkuðu henni störfin í þágu stofnunarinnar.


Viktoría rifjaði upp hvernig var að vinna á „gamla sjúkrahúsinu“ eins og það er oft nefnt, en þá var hún t.d. ein á næturvakt þó húsið væri fullt af sjúklingum. Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður voru þá á bakvakt og sváfu heima hjá sér og það gerði læknirinn að sjálfsögðu einnig.
Algengt var í þá daga að gangastúlkur /starfsfólk í aðhlynningu aðstoðaði á skurðstofu og við fæðingar ef þörf var.  Þá dvöldu sængurkonur og aðgerðasjúklingar mun lengur á sjúkrahúsinu en tíðkast í dag. Oft voru 4 – 6 sængurkonur inni í einu en þær voru ekki útskrifaðar fyrr en á 6. eða 7. degi. Á  árunum 1965 – 1975 var ekki óalgengt að fæðingar á sjúkrahúsinu væru 180 á ári.


Á meðfylgjandi mynd er Viktoría (í miðið) ásamt samstarfskonum sínum á deildinni þeim Sigríði Bergsteinsdóttur og Guðrúnu Hálfdánardóttur, geislafræðingum, Esther Óskarsdóttur, skrifstofustjóra og Magnúsi Skúlasyni, forstjóra HSu.

Hafsteinn Þorvaldsson og börn gefa 1 milljón til HSu

Hafsteinn Þorvaldsson, fyrrv. framkvæmdastjóri Sjúkrahúss Suðurlands færði Fossheimum, hinni nýju hjúkrunardeild á HSu, eina milljóna króna að gjöf við opnun deildarinnar í dag.
Gjöfin er minningargjöf um eiginkonu hans Ragnhildi Ingvarsdóttur og er frá Hafsteini og börnum þeirra hjóna. Ragnhildur sem var starfsmaður sjúkrahússins í 30 ár var fædd 13.08.1929 og lést þann 16.12.2006.

 

Ný hjúkrunardeild á 3ju hæð

Þann  28. apríl n.k. mun starfsemi hefjast á nýrri hjúkrunardeild fyrir aldraða á 3ju hæð HSu á Selfossi. 
Forstjóri HSu, heilbrigðisráðherra og þingmenn við athöfnina.


Deildin var vígð við formlega athöfn í dag 25. arpíl að viðstöddum Heilbrigðisráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmönnunum Kjartani Ólafssyni og Guðna Ágústssyni, sveitarstjórnarmönnum, starfsfólki o.fl.  Magnús Skúlason forstjóri HSu og Anna María Snorradóttir, hjúkrunarforstjóri lýstu þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er og Magnús sagði frá þeirri uppbyggingu sem á sér stað á vegum stofnunarinnar.
Hörpukórinn, kór aldraðra söng við athöfnina.  Samkeppni um nafn fór fram meðal starfsfólks og hlaut hún nafnið Fossheimar en það var tillaga starfsstúlkna í eldhúsi HSu.
Deildin skiptist í tvær einingar, annars vegar 8 rúma einingu og hins vegar 12 rúma einingu.  Til að byrja með verður tekin í notkun minni einingin, en hún er ætluð fólki með heilabilun. Stærri einingin, sem verður almenn hjúkrunardeild, verður opnuð með haustinu.


Minni einingin er sérstaklega skipulögð með tilliti til fólks með heilabilun.  Hún er lítil í sniðum og reynt verður eftir fremsta megni að skapa heimilislegt umhverfi.  Áhersla verður lögð á rólegt og gott viðmót, virðingu, alúð og jafnræði. Við leggjum áherslu á gott samstarf við aðstandendur og  fræðslu  fyrir starfsfólk. 


 

Mikil aukning í fæðingum á HSu

Það sem af er árinu 2008 hefur orðið mikil aukning í fæðingum miðað við árið 2007 sem var þó metár í fæðingum í lengri tíma en þá fæddust 177 börn.
Í janúar hafa fæðist 15 börn sem er 7% aukning frá síðasta ári. Í febrúar fæddust 15 börn en 8 á sama tíma í fyrra sem er nær 100% aukning, í mars fæddust 16 börn en 10 árið áður sem er 60% aukning. Apríl lofar góðu því nú þegar eru fædd 16 börn.
Fæðingar í ár því eru orðnar 28 fleiri en á sama tíma í fyrra.

18.04.08: Ný tækni á skurðstofu HSu

Nýlega var tekið í notkun á skurðstofu HSu svokallað Coblations tæki sem notað er til háls- og nefkirtlatöku, aðgerða vegna kæfisvefnsvandamála og aðgerða í nefholi t.d. hrotuaðgerðir.
Notkun þessa tækis við fyrrgreindar aðgerðir hefur þá kosti að minni blæðingar verða í aðgerð og eftirblæðingum eftir aðgerð fækkar. Þá fá sjúklingar minni verki og/eða sársauka eftir aðgerð og þeir eru fljótari að jafna sig og komast fyrr á fætur eftir.


Þessi aðgerðatækni er í dag talin kjöraðferð til að gera fyrrgreindar aðgerðir og er t.d. notuð á Háls-, nef- og eyrnadeild á Landspítala háskólasjúkrahúsi og einnig á Læknastöðinni í Glæsibæ.


Þá hefur einnig verið tekið í notkun Fiber rhino-laryngoscope sem er speglunartæki til skoðunar á efri öndunarvegi, koki og hálsi. 

17.04.08: Heilbrigðisumdæmi Suðurlands

Skv. nýjum lögum um heilbrigðisþjónstu, sem tóku gildi 1.september sl., var landinu skipt í 7 heilbrigðisumdæmi.  Heilbrigðisumdæmi Suðurlands nær yfir þjónustusvæði heilbrigðisstofnana Suðurlands, Suðausturlands og Vestmannaeyja.  Jafnframt tók gildi á sama tíma ný reglugerð um heilbrigðisumdæmi.  Skv. hinum nýju lögum og reglugerð skal í hverju heilbrigðisumdæmi starfa samráðsnefnd, sem skipuð er forstjórum heilbrigðisstofnana í umdæminu.

Nefndina skipa því Magnús Skúlason, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Gunnar K. Gunnarsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja og Guðrún Júlía Jónsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands.


Hlutverk samráðsnefnda hvers umdæmis er að hafa samráð um:


1. Skipulag heilsugæslu í umdæminu.
2. Skipulag hjúkrunarþjónustu í heimahúsum, hjúkrunarrýmum stofnana og á hjúkrunarheimilum í umdæminu.
3. Skipulag almennrar sjúkrahúsþjónustu í umdæminu.
 

16.04.08: Kvenfélag Eyrarbakka gefur á fæðingadeild HSu

Kvenfélag Eyrarbakka er 120 ára á þessu ári. Af því tilefni færðu kvenfélagskonur fæðingadeild HSu súrefnismettunar-, blóðþrýstings og hitamæli að gjöf. Um er að ræða tæki af gerðinni Distica og er verðmæti gjafarinnar um 1/2 milljón krónur.
Stofnunin þakkar þessa höfðinglegu gjöf og enn einu sinni sýna konur á Suðurlandi þann góða hug sem þær bera til HSu og er það stofnuninni ómetanlegt.

14.04.08: Sáramóttaka Heilsugæslustöðvar Selfoss

Í október á síðasta ári kom dr. Theis Huldt-Nystrøm norskur sérfræðingur í húðlækningum, sem rekur sáramóttöku í Noregi, í heimsókn á sáramóttöku heilsugæslustöðvar Selfoss.  Unnur Þormóðsdóttir hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar og Jónína Kristjánsdóttir heilsugæsluhjúkrunarfræðingur, sem jafnframt sjá um sáramóttökuna, stóðu fyrir heimsókninni.  Í maí 2007 fóru Unnur og Jónína á evrópska sáraráðstefnu til Glasgow til að kynna sér nýjungar innan fagsins.  Kynntust þær Theis Huldt á ráðstefnunni en hann hafði byrjað í sínu læknanámi hér á Íslandi.  Ákveðið var að Theis Huldt kæmi í heimsókn til Íslands með haustinu.  Í október 2007 kom hann til Íslands ásamt Runbjørg og Kirsti, norskum hjúkrunarfræðingum. 

14.04.08: Yfirlýsing um samstarf

Yfirlýsing
um samstarf milli Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSu) og Svæðisstjórnar Björgunarsveita í Árnessýslu (Svæðisstjórn ).


Svæðisstjórn Björgunarsveita í Árnessýslu:


Hefur í sínum röðum 9 Björgunarsveitir sem hafa á að skipa þaulþjálfuðum björgunarsveitarmönnum.  Þessi mannskapur er ávallt reiðubúinn til aðstoðar við sjúkraflutningamenn HSu þegar þörf er á.  Innan Björgunarsveitanna er mikil þekking og reynsla í skyndihjálp, aðhlynningu slasaðra og vinnu á slysavettvangi.


Björgunarsveitirnar eru vel búnar tækjum og búnaði sem geta nýst vel til aðstoðar við sjúkraflutninga. Björgunarsveitir hafa t.d. til umráða sérútbúnar fjallabifreiðar útbúnar til sjúkraflutninga. Svæðisstjórn sér til að HSu hafi ávallt uppfærðar upplýsingar um búnað björgunarsveita.


 

Gunnar Örn myndlistarmaður látinn

Gunnnar Örn Gunnarsson, myndlistarmaður á Kambi er látinn. Hann sýndi okkur á HSu þann heiður að lána listaverk í nýtt anddyri HSu við vígslu nýbyggingarinnar í janúar sl. Hann var þannig fyrstur til þess að sýna verk sín þar.
Eftirlifandi eiginkona hans er Þórdís Ingólfsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Heilsugæslustöðinni á Hellu.

Sumarstarfsemi 2008

Sjúkrahús á suðvesturhorni landsins


Sjúkrahúsin á Suð-Vesturhorni landsins, þ.e. Heilbrigðisstofnun Suðurlands, heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Landspítali, sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin Akranesi og St. Jósefsspítali – Sólvangur hafa yfirfarið og samræmt sumarstarfsemi sína, sbr. samninga sem undirritaðir voru fyrr á árinu. Meðfylgjandi er yfirlit yfir sumarstarfsemi hverrar stofnunar fyrir sig.


Heilbrigðisstofnun Suðurlands


Hand- og lyflæknisdeild dregur úr starfsemi og verður með 15 rúm opin. Skurðstofa lokar í 7 vikur, frá 23. júní – 11. ágúst, og dregið verður úr skurðaðgerðum aðrar vikur sumarsins. Fæðingum fækkar á sama tíma og skurðstofu lokar, vegna skorts á skurðstofuaðgengi, en sængurlegurými verða opin.


Hjúkrunardeild á 3. hæð opnar 10 rúm í vor eða 6 viðbótarrými. Þau skiptast í 8 rými fyrir heilabilaða og 2 hvíldarrými. Önnur starfsemi verður óbreytt. 

Steindór Zóphóníasson gaf HSu 1 milljón kr

Steindór Zóphóníasson gaf HSu 1 milljón kr. og Dagdvöl aldraðra í Árborg 1 milljón kr.Þann 12. febr. 2008 barst tilkynning til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands frá útibúi LÍ á Selfossi um peningagjöf að upphæð kr. 1 millj. frá  Steindóri Zóphóníassyni.
Einnig gaf Steindór 1 millj. kr. til Dagdvalar aldraðra í Árborg.
Steindór lést 17. mars sl. á dvalarheimilinu Kumbaravogi.
Steindór bjó lengst af í Ásbrekku í Gnúpverjahreppi, en fluttist á Selfoss árið 1992. Árið 2007 vistaðist Steindór á hjúkrunar- og dvalarheimilið Kumbaravog á Stokkseyri.
Dóttir Steindórs og Bjarneyjar G. Björgvinsdóttur er Ingveldur Sigrún Steindórsdóttir og býr í Reykjavík.


 

Nýbygging vígð

Fyrsti hluti nýrrar 5.256 fermetra viðbyggingar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu) á Selfossi var formlega tekin í notkun í dag. Nýbyggingin er þrjár hæðir auk kjallara. Áætlaður heildarkostnaður við bygginguna er 1,5 milljarðar króna. Framkvæmdir við bygginguna hófust síðla árs 2004. Núverandi húsnæði sjúkrahússins er um 4.500 fermetrar, þannig að um tvöföldun er að ræða með tilkomu nýju byggingarinnar.

Fimm sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir gera með sér samkomulag

Í dag var undirritað víðtækt samkomulag milli Landspítala – háskólasjúkrahúss og fjögurra sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana um tilfærslu verkefna frá Landspítala til viðkomandi stofnana. Forstjórar stofnananna undirrituðu samkomulagið sem Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, staðfesti að lokinni undirritun.

1. áfangi nýbyggingar formlega opnaður

Fyrsti áfangi nýbyggingar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi verður formlega opnaður fimmtudaginn 24. janúar n.k. Starfsmönnum stofnunarinnar er boðin þátttaka í formlegri athöfn opnunarinnar sem hefst kl. 15:30 í anddyri nýbyggingarinnar.

Héldu tombólu til styrktar HSu

Tvær ungar blómarósir komu færandi hendi til Estherar Óskarsdóttur, skrifstofustjóra HSu í gær þann 3.janúar. Þetta voru þær Esther Ýr Óskarsdóttir og Harpa Hlíf Guðjónsdóttir og 
afhentu þær sjúkrahúsinu peningagjöf að upphæð kr. 1.584 sem þær höfðu safnað með því að halda tombólu.

Breyting á komugjöldum

Frá og með 1. janúar 2008 falla niður komugjöld barna-og ungmenna yngri en 18 ára á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum.

Góður árangur af meðferð á Sogni

Fréttatilkynning frá Óskari S. Reykdalssyni, framkvæmdastjóra lækninga
Á Sogni er starfrækt réttargeðdeild, sú eina sinnar tegundar á Íslandi. Markmið réttargeðdeildarstarfsins er að undirbúa þá sjúklinga sem þar vistast fyrir brottför og að gera hana framkvæmanlega innan eðlilegs tíma.

Jósef Geir færði starfsfólki geislaspilara

Miklar framkvæmdir hafa átt sér stað á HSu undanfarið og mikið um iðnaðarmenn í húsinu. Einn starfsmanna JÁ verktaka, Jósef Geir Guðmundsson, trésmiður sem unnið hefur í húsinu í nokkra mánuði kom einn daginn með geisladiska með jólalögum og færði starfsfólkinu á sjúkrahúsinu.

Uppbygging og aukin starfsemi á HSu

Þann 18. des. bauðst starfsfólki HSu að skoða þann hluta nýbyggingarinnar við HSu á Selfossi sem tekinn verður í notkun í upphafi næsta árs. En þann 18. des. 1981 flutti sjúkrahúsið á Selfossi starfsemi sína í núverandi húsnæði, þ.e. fyrir 26 árum.

Fæðingamet slegið á HSu ?

Á fæðingadeild HSu stefnir í nýtt fæðingamet.Til og með 18. desember hafa fæðst 167 börn, 80 strákar og 87 stúlkur. Svanborg Egilsdóttir, yfirljósmóðir reiknar með að fæðingarnar verði 175-180 í ár.

Viðbragðsáætlun vegna heimsfaraldurs inflúensu æfð á Suðurlandi

Unnið hefur verið að gerð viðbragðsáætlunar vegna heimsfaraldurs inflúensu frá því haustið 2005. Þann 10. febr.´06 ákvað ríkisstjórnin að fela ríkislögreglustjóra og sóttvarnalækni að skilgreina verkefni og hlutverk samstarfsaðila viðbúnaðar við heimsfaraldri sem byggja á opinberum sóttvarnaráðstöfunum og almannavarnastarfi. Stýrihópur, verkefnastjórn og verkefnahópar hafa unnið að verkefninu undanfarið rúmt ár.

Kiwanismenn í Ölfusi gefa Heilsugæslu Þorlákshafnar

Sl. föstudag afhentu Kiwanismenn í Ölfusi Heilsugæslu Þorlákshafnar skoðunarbekk og tilheyrandi búnað. Kiwanisklúbburinn Ölver hefur lengi staðið við bakið á heilsugæslunni og skemmst er að minnast röntgenbúnaðar sem klúbburinn gaf á síðasta ári.

Umferðaslysaæfing hjá sjúkraflutningamönnum HSu

Í síðustu viku var haldin bílslysaæfing sem var samæfing sjúkraflutingamanna og Brunavarna Árnessýslu í viðbrögðum við umferðarslysi þar sem beita þarf klippum til þess að ná slösuðum úr bílflökum. Báðir þessir aðlilar hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna í björgun slasaðra úr bílflökum, þótt hlutverkin séu ólík og er nauðsynlegt að samhæfa allt björgunarlið til þess að hlutirnir gangi sem best fyrir sig.

Nýir sóttvarnarlæknar á Suðurlandi

Guðlaugur Þór Þórðarsson heilbrigðisráðherra hefur skipað Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóra lækninga við HSu sem nýjan sóttvarnarlækni í umdæmi Suðurlands. Þetta er gert eftir að ný reglugerð tók gildi 4.9.2007.

Körfuboltaakademia FSu, Actavis og Krabbameinsfélag Árnessýslu gefa HSu

Í gær fór fram formleg afhending gjafar sem  Körfuboltaakademia FSu og  Actavis gáfu Krabbameinsfélagi Árnessýslu sem síðan afhenti HSu gjöfina.
Um er að ræða eina milljón króna sem er ágóði af aðgangseyri á heimaleiki Körfuboltaliðs FSu veturinn 2006-2007 og Actavis tvöfaldaði þá upphæð.

Málþing um líkn og verki

Fræðsluráð HSu stendur fyrir málþingi fyrir starfsmenn HSu um líkn og verki á Hótel Geysi 16. nóvember 2007.

Deildarstjóri á sjúkrasviði

Baldvina Ýr Hafsteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur hefur verið ráðin sem deildarstjóri á hand – og lyflæknissvið HSu frá 1. nóvember 2007.

Heimsókn þingmanna

Þingmenn Suðurkjördæmis voru á ferð um kjördæmið í síðustu viku.  Á fundi með stjórn SASS fimmtudaginn 25. október greindu forráðamenn HSu  þingmönnum og stjórn SASS frá stöðu mála varðandi nýbyggingu við HSu á Selfossi,  rekstrarstöðu og fjárveitingum skv. frumvarpi til fjárlaga 2008.

Mikil hollusta starfsfólks HSu við vinnustað sinn

Könnun á starfsumhverfi ríkisstarfsmanna  fór fram í nóv. og des. á sl. ári. Kannað var viðhorf  ríkisstarfsmanna til eigin starfsumhverfis. Rúmlega 16 000 starfsmenn í 150 stofnunum og öllum ráðuneytum var boðið að taka þátt í rannsókninni. Svarhlutfall starfsmanna HSu var 42,2%.

Ánægður kvensjúkdómalæknir á Selfossi

Robert Gardocki pólski fæðinga- og kvensjúkdómalæknirinn sem var í vinnu á fæðinga- og kvensjúkdómadeild HSu nú í október segir í viðtali við Fréttablaðið í gær að það sem hann hafi helst veitt athygli á Íslandi sé heilbrigt samfélag, hér séu ekki eins margir sjúkdómar og í Póllandi. Hann telur að hlutur fisks í fæðu okkar sé lykilatriði en einnig lífsstíllinn og umhverfið.  Hann telur að fólk vinni ekki eins langan vinnudag hér og venjan er í Póllandi.New Cell New Cell

Læknar á Selfossi skrifa lítið af ávana- og fíknilyfjum

Í samvinnu við Landlæknisembættið var gerð úttekt á ávísanavenjum lækna á Selfossi varðandi ávana- og fíknilyf og borið saman við landið í heild. Úttektin miðaðist við lyfjaávísanir lækna fyrir árið 2006 og miðast við þann fjölda sem tilheyrir heilsugæslunni á Selfossi. Um er að ræða ítarlegar upplýsingar og komu fram margar gagnlegar upplýsingar og eru þær hluti af gæðaþróun stofnunarinnar.

Samningur um iðjuþjálfun

Þann 27. september sl. var undirritaður samningur um samstarfsverkefni um starf iðjuþjálfa á Suðurlandi.  Samninginn undirrituðu Magnús Skúlason framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og Laufey Jónsdóttir framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Suðurlandi.

Samningur um endurmenntun starfsmanna

Þann 26. sept. 2007 var undirritaður samningur milli Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Fræðslunets Suðurlands um fræðslu, sí- og endurmenntun, fyrir starfsmenn HSu á Suðurlandi.
Samningurinn tók gildi við undirskrift aðila og skal endurskoðast í janúar ár hvert.

Fræðslunefnd HSu

Stjórn HSu hefur sett á fót fræðslunefnd og tilnefnt eftirtalda einstaklinga í nefndina:
Baldvinu Ýr Hafsteinsdóttur, hjúkrunarfræðing, Jórunni V. Valgarðsdóttur, heilsugæslulækni og Esther Óskarsdóttur, skrifstofustjóra.

Fjölmennt á Kynningarfundi HSu

Fjölmennt var á kynningarfundi HSu sem haldinn var í gær. Á fundinn mætti m.a. Björgvin Sigurðsson, viðskiptaráðherra, Kjartan Ólafsson, alþingismaður, Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, Þorvaldur Guðmundsson, forseti Bæjarstjórnar Árborgar, Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri SASS, Pálína Reynisdóttir, deildarstjóri HTR og Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri HTR auk fjölda starfsmanna stofnunarinnar.

Kynningarfundur um starfsemi HSu

Í dag 26. september 2007 kl. 14 – 16 er haldinn fundur um starfsemi HSu. Fundurinn er haldinn í fundarsal þjónustumiðstöðvar aldraðra að Grænumörk 5 á Selfossi. Fundurinn er opinn fyrir starfsfólk HSu, alþingismenn Suðurkjördæmis og fulltrúa sveitarfélaga.