Fjaraugnlækningar í Vestmannaeyjum

Mynd tekin við undirritun samkomulags um fjaraugnlækningar í Vestmannaeyjum. Fv. Sigmar Georgsson frá Lions í Eyjum, Ólafur Már Björnsson augnlæknir, Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU, Jónmundur Gunnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sjónlags, Óskar Jónsson augnlæknir og Ari Sigurðsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs HSU.

 

Fjaraugnlækningar í Vestmannaeyjum eru að verða að veruleika hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands en þjónustan er samstarfsverkefni Sjónlags augnlæknastöðvar og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Verkefnið er tilraunaverkefni í nútímavæddri augnlæknisþjónustu og er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Verkefnið hlaut 10 milljóna króna nýsköpunarstyrk á vegum Fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Heilbrigðisráðuneytisins og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins en ráðuneytin stóðu fyrir fjárfestingarátaki um nýsköpun í heilbrigðisþjónustu á síðasta ári.

 

Íbúum í Vestmannaeyjum mun nú gefast kostur á að fara til augnlæknis, sem staðsettur er í Reykjavík. Þjónustan fer fram á tveimur stöðum, annars vegar í húsakynnum HSU í Vestmannaeyjum og hins vegar í höfuðstöðvum Sjónlags í Reykjavík, en samningur þess efnis var undirritaður þ. 5. mars sl.

 

Lionsklúbburinn í Vestmannaeyjum stóð fyrir söfnun að tækjabúnaði fyrir alls 25 milljónir króna og færum við þeim miklar þakkir fyrir þetta dýrmæta framlag en ljóst er að ekki hefði verið mögulegt að fara af stað með þetta verkefni án aðkomu styrktaraðila.

 

Núna fer í gang ferli þar sem hentugur tækjabúnaður verður keyptur en valinn er búnaður sem nær til sem flestra sjúklingahópa. Tækjabúnaðinum verður komið fyrir á starfsstöð HSU í Vestmannaeyjum, en sérþjálfaður starfsmaður mun taka á móti sjúklingum þar og framkvæma þær rannsóknir sem við eiga hverju sinni. Þær rannsóknir sem hægt verður að framkvæma með tækjabúnaðinum eru m.a. augnbotnamyndir, þrýstingsmælingar og skoðun á sjónsviði, en myndir frá rannsóknunum verða sendar með öruggum gagnaflutningi til greiningar í höfuðstöðvar Sjónlags. Hugbúnaður á bak við verkefnið er frá framleiðandanum Zeiss sem er af fullkomnustu gerð.

 

Við hlökkum mikið til að takast á við þetta nýja verkefni og erum sannfærð um að framtakið muni bæta bæði aðgengi og þjónustu íbúa í Vestmannaeyjum á sviði augnlækninga.

 

Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU