Fimmti sjúkdómurinn

Ef þú sérð lasið barn rautt í kinnum eins og það hafi verið slegið utanundir beggja vegna er ekki ólíklegt að fimmti sjúkdómurinn sé hér á ferð.  Nafnið mun vera þannig til komið að af þeim sjúkdómum sem herjuðu á börn var talað um skarlatssótt sem fyrsta sjúkdóminn, mislinga annan, rauða hunda þann þriðja, hlaupabólu fjórða og svo kemur sá fimmti. Einnig var talað um faraldsroða og á erlendum málum erythema infectiosum eða slapped cheek diease.

Þetta er veirusjúkdómur orsakaður af paróveiru  B19. Það eru til margar paróveirur þar á meðal veirur sem herja á dýr, þessi veira leggst eingöngu á menn. Við smit myndar líkaminn mótefni sem endist ævina út. Rannsóknir sýna að 40-60% manna hafa mótefni gegn veirunni  og líklega sýkjast margir án þess að fá mikil eða nokkur einkenni.  

Algengast er að börn á aldrinum 5-15 ára veikist en þó geta allir sýkst. Smitið berst með úða frá nefi eða kverkum og það geta liðið 4-20 dagar frá smiti þar til einkenni koma fram. Einkenni  í upphafi eru oft lík kvefi eða flensu, nefrennsli,  hiti, höfuðverkur og  beinverkir. Útbrot byrja  í andliti og koma svo eftir nokkra daga fram á búk og útlimum, lófar og iljar eru oft undanskilin, þó getur komið fram kláði á iljum. Eftir að útbrot birtast er ekki hætta á smiti, þannig að ef börn eru hitalaus og líður vel er þeim óhætt að fara á leikskóla og skóla þrátt fyrir útbrot.   Útbrotin geta verið sýnileg í allt að 3 vikur.

Bólgur og eymsli í liðum geta fylgt fimmta sjúkdómnum, sérstaklega hjá fullorðnum. Það er engin meðferð til við sjúkdómnum  en hægt að reyna að slá á kláða og mögulega önnur einkenni. Ef þunguð kona smitast á meðgöngu er líklegast að það valdi ekki skaða fyrir barnið. Í innan við 5% tilvika getur sýkingin þó valdið blóðleysi hjá fóstri, þannig að fósturlát verði.

Forvarnir eru svipaðar og gegn öðrum loftbornum smitsjúkdómum.  Sjúkdómurinn er almennt greindur á einkennum, það er hægt að mæla mótefni í blóði til greiningar en það er í undantekningartilvikum sem það er gert.

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Helga Þorbergsdóttir

Hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar í Vík