Fækkun stöðugilda hjá ríkinu

Í svari fjármálaráðherra í vikunni við fyrirspurn um fækkun stöðugilda hjá ríkinu kemur fram, að frá ársbyrjun 2009 til ársloka 2010 hafi stöðugildum fækkað um 545. Þar af var fækkunin mest á heilbrigðisstofnunum eða 470 stöðugildi. Af þessum 545 stöðugildum fækkaði um 240 stöðugildi í Reykjavík, en um 305 stöðugildi utan Reykjavíkur.

Þessar upplýsingar koma ekki á óvart. Í fjárlögum þessa árs fólst mikil lækkun fjárveitinga til heilbrigðisstofnana utan Reykjavíkur og Akureyrar. Þessar upplýsingar passa hins vegar engan veginn við upplýsingar, sem stjórnendur Landspítala hafa kynnt margoft um, að þar hafi fækkað um 660 stöðugildi. Nauðsynlegt er, að stjórnvöld skýri þennan mismun. Það er algjörlega óviðunandi að svo misvísandi upplýsingar komi frá stjórnvöldum um grunnupplýsingar varðandi fjölda stöðugilda hjá rikinu.


Almenningur, starfsmenn heilbrigðisstofnana og ekki síst stjórnmálamenn, sem þurfa að taka stefnumarkandi ákvarðanir varðandi útgjöld ríkisins, verða að geta treyst því, að stjórnvöld veiti sem nákvæmastar og áreiðanlegastar upplýsingar um starfsemi og útgjöld ríkisins. Framangreint misræmi vekur tortryggni og vantrú á áreiðanleika þessara upplýsinga.


Umræða um heilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins sl. haust sýndi glögglega hversu villandi upplýsingar stjórnvöld höfðu um þessa þjónustu. Af því tilefni skrifaði framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands grein í Mbl. í nóvember sl., þar sem lögð var áhersla á, að ákvarðanir stjórnvalda í heilbrigðsmálum byggðust á sem réttustum upplýsingum, en ekki röngum. Framangreint misræmi um fækkun stöðugilda staðfestir enn einu sinni, að mikil ástæða er til að tortryggja upplýsingar um starfsemi og útgjöld í heilbrigðiskerfinu.


Stjórnvöld verða að tryggja áreiðanleika slíkra upplýsinga. Brenglaðar upplýsingar um stöðu fjármálakerfisins fram að hruninu 2008 ættu að vera lærdómur fyrir alla. Áreiðanleiki og traust er forsenda málefnalegrar umræðu og sanngirni við ákvarðanatöku.