Hvað þarf að eiga fyrir barnið

 

 

 

 

 

Það er margt sem fylgir því að eignast barn og áður en barnið fæðist þarf að viða að sér ýmsu, bæði fatnaði og „ílátum“ fyrir það. Þótt margt af því sé nauðsynlegt má fastlega búast við að ýmsir reyni að selja ykkur allt mögulegt sem er alger óþarfi. Best er að byrja snemma að viða að sér því sem þarf, bæði til að dreifa kostnaðinum á lengri tíma og eins til að gefa ykkur svigrúm til að bera saman verð og gæði. Ekki má heldur gleyma að margt af því sem þarf má fá lánað eða kaupa notað. Það er um að gera að vera hagsýnn og hlaupa ekki eftir misviturlegum „nauðsynjum“.

 

 

 

 

 

Það sem helst þarf að eiga er:

Góður barnabílstóll með 5 punkta belti. Athugið að plastið í bílstólunum hefur takmarkaðan líftíma og eins ættuð þið aldrei að kaupa stól sem hefur lent í tjóni. Það er gott að fá með stólnum bílstólapoka/-svuntu, en ekki nauðsynlegt.

Prjónað eða heklað ullarteppi.

Rimlarúm og/eða vagga með góðri svampdýnu.

Vöggusæng. Kodda ættu börn ekki að nota fyrr en um eins árs aldurinn.

Sængurföt. Gott að eiga þrjú ver á sængina og eitthvað meira af lökum til skiptanna.

Gúmmídúkur til að setja undir lakið til að vernda dýnuna.

Taubleiur. Þótt þið notið einnota bleiur er gott að eiga taubleiur til að hafa undir höfði

barnsins og á öxlinni þegar barnið er að ropa.

Bleiur – annað hvort einnota eða taubleiur með yfirbuxum. Af þannig taubleium eru til margar gerðir og misdýrar en til lengri tíma litið eru þær ódýrari en einnota bleiurnar. Að auki fara þær betur með húð barnsins og umhverfi okkar, þannig að allir sem eiga von á barni ættu a.m.k. að kynna sér taubleiunotkun. Nokkrir tenglar á taubleiur hér.

Nærfatnaður/samfellur. Gott að eiga 6 – 8 stk í minnstu stærðinni en yfirleitt nægir að eiga 4 þegar barnið eldist.

Sokkabuxur eða leggings. Þrennar til fernar ætti að duga.

Milliþykkar peysur/síðaerma boli. Gott að eiga 6 – 8 stk.

Ein eða tvær þykkari peysur.

Náttgallar. Þrennir eða fernir duga oftast.

Sokkar – helst ullarsokkar – nokkur pör.

Prjónasett – buxur, peysa, húfa, vettlingar, sokkar.

Heilgalli. Best að hafa hann úr mjúku og þjálu efni.

Húfur . Gott að eiga tvær í mismunandi þykkt.

Barnavagn.

Kerrupoki.