Fæðingardeild HSU

Fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

 

 

 

 

 

 

 

 

Fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi er fæðingardeild Sunnlendinga.

Hér geta allar konur fætt eigi þær eðlilega meðgöngu að baki og ef fæðingu ber eðlilega að. Á fæðingardeildinni starfa reyndar ljósmæður sem leggja sig fram um að skapa heimilislegt andrúmsloft en gæta þó á sama tíma fyllsta öryggis móður og barns.

 

Fæðingardeild HSu hefur fjölþætt hlutverk. Þar er ekki einungis tekið á móti börnum, heldur er fæðingardeildin miðstöð fyrir meðgönguvernd, göngudeildarþjónustu við barnshafandi fjölskyldur og sængurlegu eftir fæðingu.  Að auki sjá ljósmæður deildarinnar um fæðingarundirbúningsnámskeið fyrir verðandi foreldra. Markmið deildarinnar er að hlúa að fjölskyldum í barneignarferlinu eins og kostur er, sem næst þeirra heimahögum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fæðingardeildin er til húsa á annarri hæð gamla sjúkrahússins. Þar er mæðraverndarstofa og 2 sængurlegustofur ásamt setustofu og baðherbergi. Vaktherbergi ljósmæðra er þar einnig, sem og umönnunarrými fyrir ungbörnin. Fæðingarstofan er staðsett annarsstaðar á sömu hæð í hléi frá utanaðkomandi truflun. Út frá fæðingarstofunni er baðherbergi þar sem er gott hornbaðkar sem er mikið notað til verkjameðferðar í fæðingu og margar konur kjósa að fæða þar einnig. Reyndar var fæðingardeildin á Selfossi fyrsta fæðingardeild landsins sem tók upp vatnsböð í fæðingu, 1994, og gerði konum kleyft að fæða í vatni inni á sjúkrahúsi.

Verðandi foreldrum er velkomið að skoða deildina í samráði við ljósmóður á vakt, en ráðlegt er að hringja áður ef vera kynni að ljósmóðir væri upptekin. Síminn er: 480 5164