Heimaþjónusta í sængurlegu

Heimaþjónusta í sængurlegu

Eftir fæðingu er boðið upp á sjúkrahúslegu í sólarhring, en að honum loknum geta ljósmæður í flestum tilvikum annast fjölskylduna heima fyrir. Undantekning er þó ef kona býr langt í burtu frá sjúkrahúsinu, en þá hefur hún kost á að vera tvær nætur á sjúkrahúsinu eftir fæðinguna. Alltaf er þó reynt að taka tillit til aðstæðna og þarfa hverrar konu og hennar fjölskyldu.
Heimaþjónusta ljósmæðra byggir á samningi við Sjúkratryggingar Íslands og er foreldrum að kostnaðarlausu. Ljósmæður fæðingadeildarinnar sjá um að útvega fjölskyldunni ljósmóður til heimaþjónustu.
Ljósmóðir sem samið er við kemur allt að 8 sinnum í vitjun til fjölskyldunnar á fyrstu tíu dögunum eftir fæðingu. Hún lítur eftir að leg móðurinnar jafni sig eftir meðgönguna, ekki blæði óhóflega, brjóstagjöf gangi vel, barnið dafni eðlilega, nafli barnsins grói vel og ekki komi í hann sýking og fjölskyldan aðlagist nýjum fjölskyldumeðlim eins og best verður. Öllum frávikum reynir hún að beina í réttan farveg og leitar til viðeigandi aðila eins og þurfa þykir.
Það er mikilvægt að búa heimilið vel undir sængurleguna heima fyrir. Best er ef faðirinn getur verið í fríi með konunni sinni og barninu a.m.k. fyrstu vikuna heima. Geti hann það ekki, eða ef móðirin er einstæð, er mikilvægt að einhver annar fullorðinn geti verið hinni nýorðnu móður innan handar fyrstu dagana meðan hún er að jafna sig eftir fæðinguna.
Flestum líður betur að koma heim á hreint heimili þegar útskrifast er af sjúkrahúsinu. Því er best að koma því í gott  horf áður en kemur að fæðingunni. Gott er líka að eiga eitthvað hollt og nærandi í ísskápnum eins og ávexti, brauð, álegg og mjólkurvörur og ekki sakar að eiga í frystinum tilbúna rétti til að skella í ofn eða á pönnu. Sé barnið á brjósti er óþarfi að kaupa þurrmjólk og pela og snuð gera oft meira ógagn en gagn fyrstu vikurnar meðan barnið er að læra að sjúga brjóst, svo þau mega í flestum tilvikum bíða betri tíma. Besti vinurinn við brjóstagjöf og barnaumönnun er hlýtt og létt teppi til að vefja um barnið. Hér eru svo uppástungur um annað sem gott er að eiga.
Vitaskuld er það hvers og eins að ákveða hvort fólk vill fá mikið eða lítið af heimsóknum eftir heimkomuna en gott er að hafa í huga að mikill gestagangur eykur hættu á sýkingum hjá barninu og getur að auki haft truflandi áhrif á tengslamyndun og brjóstagjöf. Eins þarf að huga að því að kona sem er nýbúin að fæða er mjög þreytt og viðkvæm og þarf að nota allan tíma sem gefst til að hvíla sig. Því er ráðlagt að fá einungis fáa og vel valda gesti fyrstu vikurnar eftir heimkomuna. Einhverja sem kunna að kaupa inn til heimilis, elda og brjóta saman þvott og lofa foreldrunum að njóta hæfileika sinna í þeim efnum.
Það er mest um vert að öllum í fjölskyldunni líði vel, litla barninu, mömmunni, pabbanum og eldri systkinum ef þau eru til staðar. Hlutverk ljósmóðurinnar sem kemur heim eftir fæðingu barns er að styðja við bakið á foreldrunum meðan þeir takast á við þetta nýja hlutverk, að vera foreldrar eins eða fleiri barna.