Heilbrigði í meðgöngu og fæðingu

 

 

 

 

 

 

Ýmsir þættir hafa áhrif á gang meðgönunnar og fæðingarinnar. Stærsti þátturinn er þó lífsstíll og næring verðandi móður. Að vera í góðu líkamlegu formi, hreyfa sig reglulega, borða fjölbreytta og næringarríka fæðu, halda sér í kjörþyngd og sneiða hjá vímuefnum og tóbaki stuðlar að betri meðgöngu, auðveldari fæðingu og hraustara barni. Þar að auki er móðirin fljótari að jafna sig eftir fæðinguna og á auðveldara með að takast á við brjóstagjöfina og breytingarnar í fjölskyldunni.

 

 

 

 

 

 

Mataræði

Þótt þú gangir með barn þarftu ekki að borða á við tvo en þú þarft samt að borða aðeins meira af vissum næringarefnum s.s. prótein, fjölómettuðum fitusýrum og ýmsum steinefnum og vítamínum.

Allar konur á barneignaraldri ættu að borða vel af fólasínríkri fæðu og/eða taka aukalega fólasín í töfluformi. Fólasínskortur getur nefnilega leitt til galla á miðtaugakerfi fóstursins á mótunarskeiði þess í byrjun meðgöngu. Lýsi er líka nauðsynlegt fyrir móður og barn þar sem það inniheldur D- vítamín sem er nauðsynlegt fyrir myndun tanna og beina og í því eru einnig ákaflega hagstæðar fitusýrur sem efla vöxt heila og tauga. Lýsi inniheldur einnig A- vítamín en of mikið af því er óæskilegt þannig að passaðu að taka bara ráðlagðan dagskammt lýsis. Á vefsíðu Lýðheilsustöðvar eru upplýsingar um öll vítamín og dagsþörf þeirra ásamt fróðleik um uppsprettu og virkni hinna ýmsu efna fyrir líkamann.

Á meðgöngu þurfa konur líka meira af próteini en það fá þær helst úr dýraafurðum eins og mjólk, eggjum, kjöti og fiski en einnig úr baunum og soyjaafurðum. Prótein er helsta byggingarefni líkamans og því aldrei nauðsynlegra en þegar verið er að búa til heila manneskju til viðbótar við mömmuna.

Til nánari glöggvunar á heilsusamlegu mataræði á meðgöngu bendum við á bækling Lýðheilsustöðvar – Matur og meðganga

 

 

 

 

 

 

 

Hreyfing

Fyrir nokkrum áratugum þótti það öruggt merki um að kona væri þunguð ef hún tók upp á því að fara í daglegar gönguferðir. Það hefur nefnilega lengi verið vitað að hófleg hreyfing og áreynsla hefur góð áhrif á meðgönguna. Þegar þú hreyfir þig eykst hjartslátturinn og blóðið flæðir hraðar um líkamann og þannig eykst flutningur súrefnis og næringarefna til allra vefja, þar með talinnar fylgjunnar og barnsins. Konur sem stunda reglubundna hreyfingu hafa líka meira úthald og þol, fitna síður úr hófi, gengur betur að fæða og eru fljótari að jafna sig eftir fæðinguna. Hafi kona verið að æfa íþróttir áður en hún varð þunguð getur hún í mörgum tilvikum haldið því áfram, þarf einungis aðlaga æfingarnar að meðgöngunni. Íþróttir þar sem krafist er mikillar snerpu eins og hand- og fótbolti, blak og frjálsíþróttir eru þó yfirleitt full áhættusamar og því ekki æskilegar á meðgöngu.

Það er einfalt og ódýrt að fara út að ganga eða hjóla, sund er líka mjög gott á meðgöngunni – sérstaklega fyrir þær konur sem eru með grindarverki – og svo er hægt að fara í leikfimi sem er sérsniðin að þörfum verðandi mæðra. Aðalatriðið er að reyna aðeins aukalega á sig á hverjum degi án þess þó að ofreyna sig.

 

 

 

 

 

 

Áfengi, vímuefni og tóbak

Neysla áfengis hefur mjög skaðleg áhrif á fóstur, hvort heldur er á mótunarskeiðinu eða eftir að lengra er komið meðgöngunni. Öll vímuefni berast til fóstursins og hafa skaðleg áhrif á það. Til nánari upplýsinga um skaðsemi áfengis er bent á síðu Lýðheilsustöðvar og bækling sem fæst í mæðravernd.

Reykingar og notkun tóbaks hefur einnig slæm áhrif á meðgönguna og fóstrið. Nikotín dregur saman æðar og minnkar þannig blóðflæðið og þar með súrefnis- og næringarflutning til fóstursins en einnig eru í reyknum fjöldi annarra eiturefna sem hafa skaðleg áhrif. Rannsóknir sýna að börn sem búa á heimilum þar sem reykt er hafa minni greind, eru í aukinni hættu á vöggudauða og hættir fremur við efri loftvegasjúkdómum en öðrum börnum. Lýðheilsustöð hefur gefið út bækling um reykingar og meðgöngu.

Ef þú ert í áfengis- eða vímuefnavanda eða langar að hætta reykingum skaltu endilega ræða við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni eða heimilislækninn þinn og fá viðeigandi hjálp.