Fyrstu dagar lífsins

 

 

 

Þegar barn fæðist færir ljósmóðirin það upp á kvið móðurinnar og þurrkar það og „snýtir“ og örvar það þannig til að anda. Öll börn eru fremur bláleit við fæðingu en það er vegna þess að hjartað dreifir blóðinu öðruvísi meðan barnið hefur ekki ennþá andað en eftir að öndun hefst. Þegar barnið er farið að anda reglulega hverfur þessi blámi að mestu leiti. Börn geta þó verið aðeins blá á höndum og fótum í nokkra daga eftir fæðinguna og er það alveg eðlilegt.

 

 

 

Það er mjög mikilvægt að halda góðum hita á ungbörnum vegna þess að þau eru mjög fljót að ofkælast og það veldur álagi á nýstarfhæf líffæri barnsins. Þess vegna leggur ljósmóðirin áherslu á það að þurrka barninu strax eftir fæðinguna og hafa þurrt handklæði/teppi utan um það og þá sérstaklega yfir höfuðið sem geislar út mesta hitanum. Af sömu ástæðu líður barninu best þegar það fær að liggja þétt upp við móður sína – það heldur á því hita. Gott ráð er að hafa barnið alltaf vel klætt og í ullarsokkum fyrstu dagana. Mjúkt teppi er líka nauðsynlegt að hafa yfir barninu hvar sem það er. Sjá nánar um góðan klæðnað hér.

 

 

Nýfædda barnið er mjög næmt fyrir umhverfi sínu og þess vegna er mikilvægt að sem fæstir handfjatli það fyrst um sinn. Barnið þarf að læra á foreldra sína, þekkja lyktina af móðurinni og hljóðin í kring um sig og ef margir eru að halda á því getur það haft truflandi áhrif á tengslamyndun og brjóstagjöf. Nýfætt barn hefur heldur ekki myndað mótefni gegn neinu nema því sem móðirin hefur verið í snertingu við fram að fæðingunni og er því næmt fyrir sýkingum af öllu tagi.

Um hálfum til einum klukkutíma eftir fæðingu eru flest börn tilbúin að hefja bjróstagjöf og gefa það til kynna með því að bera hendurnar upp að munninum og snúa höfðinu til hliðanna. Langflestum börnum gengur vel að taka brjóstið með smá aðstoð ljósmóðurinnar. Fyrsta sólarhringinn taka börn langar tarnir við brjóstið en þegar mjólkin eykst í brjóstunum fara þau að taka reglulegri dúra inn á milli. Það er um að gera að lofa barninu að ráða tíðni og tímalengd brjóstagjafarinnar þar sem barnið fæðist með þá eiginleika sem þarf til að koma brjóstagjöfinni vel af stað. Til að losna sem mest við byrjunarörðugleika við brjóstagjöfina er mikilvægast að barnið taki geirvörtuna rétt og því er best að fá góða aðstoð fyrsta sólarhringinn. Eftir það eru flest börn komin upp á lag með að taka geirvörturnar rétt og mamman farin að finna muninn á réttu sogi og röngu og ráða betur við handbrögðin sem þarf. Sjá nánar um brjóstagjöf hér. 

 

 

Þegar klippt hefur verið á naflastrenginn verður eftir smábútur af honum næst barninu. Þessi naflastrengsstúfur þornar fljótt og losnar frá á nokkrum dögum. Best er að láta hann sem mest í friði en þó ágætt að strjúka burt það sem vessar úr honum með hreinum bómullarhnoðra bleyttum í vatni og þurrka á eftir með öðrum hnoðra. Barnið finnur ekki til í naflastúfnum sjálfum en finnst óþægilegt þegar togað er í hann eða snúið uppá. Þess vegna er best að hafa bleiuna fremur lausa yfir stúfnum meðan hann er að detta af.

 

 

 

Fyrstu sólarhringana eftir fæðinguna losar barnið sig við fósturhægðirnar sem eru grænsvartar og þykkar en á næstu dögum lýsast hægðirnar og þynnast eftir því sem barnið fær meira að drekka. Flest börn kúka nokkrum sinnum á dag fyrstu vikurnar og það er líka merki um að þau fái nóg að drekka ásamt því að rennbleyta a.m.k. 6 – 8 bleiur á dag.

 

Nýfætt barn þarf ekki að baða á hverjum degi þótt það skaði ekkert ef ekki er notuð sápa eða annað sem getur skaðað húð barnsins og komið nauðsynlegri bakteríuflóru úr jafnvægi. Fósturfitan sem liggur utan á húð barnsins við fæðingu (mismikið) gengur inn í húðina og þurrkast af þegar barnið er klætt og þarf ekki að þvost af. Hún virkar líka bakteríuhemjandi og er því góð fyrir barnið. Undantekning er þegar stórir flekkir af fósturfitu liggja í fellingum eins og handakrikum og nárum, þá er gott að strjúka hana burt því annars súrnar hún og getur valdið sýkingu. Stundum er líka blóð eða fita í hári barnsins sem flestum finnst betra að þvo úr. Að öðru leiti er nóg að þvo barninu með hreinu vatni og þvottastykki ásamt því að þrífa burt hægðir og gubb eftir þörfum.  Meira um böðun ungbarna hér.

 

 

 

Það sem nýfædda barnið þarf mest á að halda er friður og öryggi í faðmi foreldra og ástvina meðan það áttar sig smám saman á veröldinni. Reynið að hafa það gott og njóta samverunnar með barninu – tíminn líður hratt og það verður stórt áður en varir.