Fæðingarþjónusta á HSU – Vestmannaeyjum

 

 

 

 

 

 

Eftir áfallalitla meðgöngu sem nær 37 vikum eiga flestar konur þess kost að fæða á fæðingadeild HSU Vestmannaeyjum. Ljósmæður í mæðravernd meta áhættu hverrar konu á meðgöngu og leiðbeina um val á fæðingarstað eftir því mati.

Fæðingastöðum er skipt niður eftir því hvaða þjónustu þeir veita og hvaða áhættuþungunum þeir geta sinnt:

Fæðingastaður í flokki A er sérhæfð kvennadeild fyrir áhættumeðgöngu og fæðingu á sjúkrahúsi þar sem ljósmæður, fæðinga- og kvensjúkdómalæknar starfa og aðgangur er að skurðstofu þar sem svæfingalæknir er á sólarhringsvakt. Ennfremur er þar sérhæfð þjónusta nýburalækna og – hjúkrunarfræðinga fyrir nýbura frá og með 22 vikna meðgöngu allan sólarhringinn. Eina sjúkrahúsið hér á landi sem uppfyllir skilyrði fyrir flokk A er Landspítalinn.

Fæðingastaður í flokki B er sérhæfð kvennadeild fyrir áhættumeðgöngu og fæðingu á sjúkrahúsi þar sem ljósmæður og fæðinga- og kvensjúkdómalæknar starfa. Þar er aðgangur að skurðstofu þar sem svæfingarlæknir er á sólarhringsvakt. Þjónusta barnalækna og hjúkrunarfræðinga er þar allan sólarhringinn fyrir nýbura eftir 34 vikna meðgöngu. Undir flokk B heyrir t.d. Sjúkrahúsið á Akureyri.

Fæðingastaðir í flokki C eru tvenns konar:

C1 er millistór fæðingardeild þar sem auk ljósmæðra starfa fæðinga- og kvensjúkdómalæknir og/eða skurðlæknir sem hefur þjálfun í bráða- fæðingarhjálp, áhaldafæðingum og keisaraskurði. Hægt er að bjóða upp á framköllun fæðinga og mænurótardeyfingu. Bráðaaðgangur að skurðstofu með svæfingarlækni er þar allan sólarhringinn. Góður aðgangur er að fæðingarstað með þjónustustig A – B. Slík fæðingadeild er t.d. á Akranesi.

C2 er millistór fæðingadeild þar sem auk ljósmæðra starfa fæðinga- og kvensjúkdómalæknir og/eða skurðlæknir sem hefur þjálfun í bráðafæðingarhjálp, áhaldafæðingum og keisaraskurði. Ekki er aðgangur að skurðstofu og svæfingalækni allan sólarhringinn, en góður aðgangur að fæðingarstað með þjónustustig A – B.

 

 

D1 er lítil fæðingardeild á heilbrigðisstofnun þar sem auk ljósmæðra starfa heilsugæslulæknar. Góður aðgangur er að fæðingarstað með þjónustustig A – C.

 

 

Fæðingastaðir í flokki D eru einnig tvenns konar:

D2 er heimafæðing þar sem ljósmóðir starfar og hefur aðgang að fæðingarstað með þjónustustig A – C.

Til nánari glöggvunar um val á fæðingarstað bendum við á vef landlæknisembættisins www.landlaeknir.is

Þar sem fæðingadeild HSU – Ve er lágáhættudeild ( D1 ) geta einungis konur í eðlilegri meðgöngu sem vænta má eðlilegrar fæðingar hjá fætt hér. Sem betur fer gildir það um meirihluta kvenna í barneignarferlinu. Konum sem hafa einhverja áhættuþætti eða vænta má vandkvæða í fæðingu hjá er ráðlagt að fæða á fæðingadeild Landspítalans. Síminn á fæðingadeild LSH er 543 3049.

Tvær ljósmæður starfa við mæðravernd og fæðingaþjónustu í Vestmannaeyjum og skipta þær með sér vöktum.

Ljósmóðir er á vakt allan sólarhringinn árið um kring og því er alltaf hægt að fá ráðgjöf og þjónustu þegar á þarf að halda. Vaktsími ljósmæðra er 897-9620.

Það er okkar heitasta ósk að konur íhugi vandlega að fæða börn sín í heimabyggð ef kostur er og munum við kappkosta að fræða konurnar okkar og hvetja til þess að fleiri börn geti fæðst í heimabyggð.