Fæðing 1,2,3

 

 

 

Eðlilegri fæðingu er skipt í 3 stig:

1. stig – tími útvíkkunar leghálsins

2. stig – tími fæðingar barnsins

3. stig – tími fæðingar fylgjunnar

 

1. stig – útvíkkun leghálsins.

Legið er vöðvi sem umlykur barnið á meðgöngu. Leghálsinn er neðsti hluti legsins þar sem það opnast niður í leggöngin.

Mynd

Leghálsinn er mun stífari en legvöðvinn sjálfur og er undir eðlilegum kringumstæðum u.þ.b. 4 cm langur og lokaður. Undir lok meðgöngunnar tekur hann að mýkjast og styttist smám saman eftir því sem kollur barnsins þrýstir meira á hann. Hjá frumbyrjum (konum sem eru að eignast sitt fyrsta barn) er hann venjulega orðinn næfurþunnur áður en hann byrjar að opnast en hjá fjölbyrjum (konum sem fætt hafa áður) styttist hann oft og opnast samtímis.

Fyrir atbeina ýmissa hormóna og efnasambanda í líkama móðurinnar og barnsins hefjast reglubundnir samdrættir í legvöðvanum þegar barnið er tilbúið að fæðast, við ca 41. viku meðgöngunnar. Þeir samdrættir kallast hríðar og fyrir þeirra tilstilli fæðist barnið. Legvöðvinn hefur vissulega verið að draga sig saman af og til alla meðgönguna en samdrættirnir í hríðunum eru öðruvísi að því leiti að legið slaknar aldrei alveg og vöðvþræðirnir styttast því í legvöðvanum. Við það þrýstist barnið neðar og neðar með hverjum samdrætti þannig að leghálsinn lyftist upp með höfði þess þar til ekkert bil er milli leghálsins og legganganna og er þá talað um fulla útvíkkur – eða 10 cm.

Mynd

 

2. stig – fæðing barnsins.

Þegar leghálsinn hefur opnast að fullu heldur legið áfram að þrýsta barninu niður í leggöngin og  við það kemur fram ósjálfráð rembingsþörf hjá móðurinni sem rembist með hríðunum og hjálpar þannig enn frekar við að þrýsta barninu út.

Mynd

 

3. stig – fæðing fylgjunnar.

Eftir að barnið er fætt kemur smá hlé í samdrættina og tækifæri gefst til að taka barnið í fangið, lykta af því og hugga það en sú athöfn leiðir af sér nýja hormónabylgju sem á þátt í að legið dregst aftur saman og fylgjan losnar frá legveggnum og fæðist. Til að flýta fyrir fylgjufæðingu og minnka líkur á óhóflegri blæðingu er hægt að gefa samdráttarlyfið Syntocinon í æð eða vöðva. Það hefur engar þekktar aukaverkanir, dregur saman legið og getur minnkað hættu á blæðingu um allt að 60%.

Eftir að fæðingin er afstaðin þarf ljósmóðirin að skoða fæðingarveginn og meta hvort eitthvað þar hafi gefið sig í fæðingunni og sauma rifur ef þær eru til staðar. Ennfremur þarf ljósmóðirin að fylgjast með að legið dragi sig vel saman til að sem minnst blæði hjá móður eftir fæðinguna.