Böðun ungbarna og hreinlæti

 

 

 

 

 

 

Fyrir nokkrum áratugum tíðkaðist að þvo börnunum daglega upp úr sótthreinsisápu en síðan fóru leiðbeiningarnar alveg í hina áttina, það átti helst ekkert að baða börn. Sjálfsagt er meðalvegurinn og heilbrigð skynsemi best í þessu eins og svo mörgu öðru er kemur að umönnun og uppeldi barna.

Til að auðvelda verkið og gera baðið þægilegra fyrir barnið er þó ágætt að hafa nokkra fasta punkta:

 

Það má aldrei skilja barn eftir á skiptiborði eða öðrum stað sem það getur oltið fram af.  Hafið hendurnar alltaf á barninu.

 

Baðstaðurinn ætti að vera hlýr og laus við trekk – loka gluggum í herberginu.

Allt sem nota þarf í tengslum við baðið ætti að vera innan seilingar – Þvottapoki, handklæði, krem, púður, bleiur og hreinn fatnaður.

 

 

 

 

 

Best líður barninu í baðinu ef vatnið er í kring um 37 – 38 gráður – notalegt þegar díft er í það hendi – en einnig er hægt að mæla það með baðhitamæli.

Áður en barnið er sett ofan í baðið þarf að hreinsa naflastúfinn með bómullarhnoðra og eins öll sjáanleg óhreinindi s.s. hægðir.

Þvoið barninu ofan frá og niður – byrjið á hreinasta svæðinu (andlitinu, höfðinu og efri hluta líkamans) og endið á því óhreinasta (neðri hluta líkama og endaþarmi).

Nota má nokkra dropa af mildu sjampói í hár barnsins en að öðru leiti ætti alveg að sleppa sápunotkun meðan barnið er lítið. Nota má jurtaolíu til að strjúka burt hægðaklíning og óhreinindi úr nárum og fellingum og eins er í lagi að setja nokkra dropa af olíu í baðvatnið þegar búið er að skola hár barnsins. Það gildir sérstaklega ef barnið er með þurra húð.

 

bordi_blar 

 

 

Þar sem lítil börn kólna hratt er nauðsynlegt að þurrka þeim vel, strax eftir baðið og nota sömu aðferð og við þvottinn – ofan frá og niður. Gætið sérstaklega að því að þurrka vel úr öllum fellingun – hálsakoti, undirörmum og nárum, því þar geta myndast rakasár.

Til að koma enn frekar í veg fyrir rakasár má bera þunnt lag af barnapúðri eða kartöflumjöli í fellingarnar. Gætið þess bara að ekkert berist af því í öndunarfæri barnsins – það getur valdið lungnabólgu.

Yfirleitt þarf ekki að bera neitt á húð barnsins en gott er að nota Zink krem á rauða rassa og feitt krem eins og júgursmyrsl ef húð barnsins er mjög þurr og sprungin.

Forðast ætti sem mest öll ilmefni í barnasnyrtivörum þar sem þau geta verið ofnæmisvaldandi.

Áður en barnið er klætt eftir baðið þarf að taka allt rakt og blautt undan barninu og gæta þess að hafa það fremur hlýtt klætt til að byrja með þannig að ekki slái að því.

 

 

 

Þótt engin þörf sé á að baða börn daglega finnst flestum börnum notalegt í baðinu og það skapar dýrmætt tækifæri fyrir nána samveru við barnið. Það er upplagt fyrir pabba að hafa baðið í sínum verkahring þar sem nándin sem það veitir er svipuð og móðirin fær við brjóstagjöfina og styrkir tengslin við barnið.