Fæðing í vatni

Í flestum tilfellum fer konan upp úr vatninu áður en hún fæðir. En stundum vill hún það ekki, og stundum nær hún því ekki. Er þá barninu óhætt að fæðast undir vatnsyfirborðinu?Já, oftast. Barnið fær súrefni gegnum naflastrenginn þar til fylgjan losnar eftir fæðinguna. Barnið fær síðan súrefni úr loftinu þegar það andar því að sér, þegar þar að kemur.Það sem fær barn til að anda er að fá kalt andrúmsloftið á kinnarnar. Það andar því ekki fyrr en það kemur upp úr vatninu.

Viltu vita meira?


Stundum fæðist höfuð barnsins í lok hríðar, svo bíða þarf eftir næstu hríð til að barnið fæðist allt. Barninu er óhætt í nokkrar mínútur og í næstu hríð fæðist það allt.Þegar barnið er fætt er því lyft þannig að höfuðið a.m.k. fari uppúr, og móðirin tekur það í fangið.Börn eru blá eða fjólublá að lit nýfædd, hvort sem þau fæðast í vatni eður ei, en þau fá rjóðan lit þegar þau byrja að anda og það gera þau oftast innan við mínútu frá fæðingu. Fyrst eftir fæðinguna er barnið er í fangi móður sinnar í baðinu, þar sem það nýtur hámarks snertingar og hlýju og skilið er á milli í róleg-heitunum. Á meðan konan stígur upp úr baðinu (fyrir eða eftir fylgjufæðingu), tekur faðirinn við barni sínu og umvefur það hita og öryggi áfram.


Fæðing í vatni er streituminni bæði fyrir móður og barn, vegna þyngdarleysisins og hlýjunnar í vatninu og vegna næðisins sem konan fær, þó hún sé umkringd sínum nánustu og ljósmóðurinni .Í örfáum tilfellum höfum við þurft að biðja konuna um að standa upp á síðustu stundu. Hún fæðir þá annaðhvort standandi yfir vatnsyfirborðinu eða fer upp úr baðinu og fæðir á gólfinu eða í rúminu.Meira um vatnsfæðingar.Margar konur nota vatnið sem verkjastillingu í fæðingu þó svo að þær fæði ekki í því.


Hvers vegna anda börn ekki niðri í vatninu þegar þau fæðast í vatni?


Á meðan það er í vatninu er hið svokallaða köfunarviðbragð virkt, eins og í ungbarnasundinu, barnið lokar fyrir loftveginn eins og þegar við kyngjum, meðan það er í vatni. Ef vökvi fer upp í munn barnsins fer hann niður í magann, en ekki lungun, sem eru reyndar vökvafyllt í móðurlífi. Köfunarviðbragðið hverfur síðan í andrúmsloftinu, auk þess sem öndunin örvast við að blóðgösin breytast (minna súrefni, meira koltvíildi, þegar fylgjan minnkar starfsemina við fæðingu barnsins). Þá er einnig lungnavökvinn að mestu farinn inn í æðakerfi barnsins eftir áraunina við að fara í gegnum fæðingarveginn, svo loft kemst niður í lungun.