Biðtími eftir þjónustu heilsugæslulæknis í Rangárþingi með því stysta sem þekkist á landinu

HSU_Herdis_Samsett-300x204Heilsugæslustöðvarnar í Rangárþingi, á Hellu og Hvolsvelli voru sameinuð í eina stofnun 1998. Frá þeim tíma hefur því verið rekin ein heilsugæsla í Rangárþingi á tveimur starfstöðvum. Síðustu ár hefur skipulagið verið með þeim hætti að yfir sumartímanum hefur verið lokað til skiptis á Hellu eða Hvolsvelli í 3 mánuði í senn. Árið 2004 sameinaðist heilsugæslan í Rangárþingi við Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU). Á heilsugæslunni í Rangárþingi starfa 3 læknar í tæplega þremur stöðugildum og 5 hjúkrunarfræðingar í rúmlega þremur stöðugildum og aðrir starfsmenn, auk sálfræðings og barnalæknis sem veita reglubundna þjónustu við stöðina. Þessir starfsmenn starfa á tveimur starfstöðvum. Stjórnendur heilsugæslunnar hafa skipulagt ungbarnavernd, mæðravernd, skólahjúkrun, heimahjúkrun og sérfræðiþjónustu frá Hellu.

 

Íbúar Rangárþings búa við eitt allra besta aðgengi að heilsugæslulæknum sem þekkist á landinu og biðtími er með því styðsta sem þekkist á landinu öllu. Samkvæmt starfsemistölum HSU á árinu 2014 og 2015 þá fá 60% þeirra íbúa sem leita til heilsugæslunnar í Rangárþingi viðtalstíma hjá heilsugæslulækni samdægurs eða næsta dag. Framboð á tímum hjá heilsugæslulæknum er því nóg og biðtíminn nánast enginn. Allir sem leita til heilsugæslunnar í Rangárþingi fá bókaðan tíma innan 5-6 daga, ef þeir óska þess. Fáir íbúar á Suðurlandi búa við betra aðgengi að læknisþjónustu en þeir sem leita til heilsugæslunnar í Rangárþingi, á Hellu eða Hvolsvelli. Milli þessara tveggja íbúakjarna í sýslunni er 13 km greiðfær leið. Auk þess hefur á undaförnum árum verið byggð upp viðbótar hjúkrunarþjónusta þannig að ávallt er tryggt að þeir íbúar og sjúklingar sem leita til heilsugæslunnar geta fengið viðtal hjá hjúkrunarfræðingi ef ekki er hægt að bóka tíma hjá lækni samdægurs. Hjúkrunarfræðingur veitir þá ráðgjöf um næstu skref í þjónustunni við sjúkling eða vísar viðkomandi til vaktlæknis. Að loknum dagvinnutíma er læknir á bakvakt til að sinna neyðartilfellum í héraðinu. Sú þjónusta hefur verið óbreytt og engin áform eru um að breyta því. Tveir sjúkrabílar eru staðsettir á Hvolsvelli.

 

Aðdragandi þess að töf varð á opnun á Hvolsvelli s.l. haust, eftir sumarlokun, var sú að töf varð á áætluðum framkvæmdum sem síðar kom í ljós að þurfti að fresta á árinu 2015.

 

Í haust fór framkvæmdastjórn þess á leit við stjórnendur heilsugæslunnar í Rangárþingi að koma með tillögur um hvernig mætti nýta sem best starfsfólk heilsugæslunnar til hagsbóta fyrir sem flesta íbúa, enda skal heilsugæsla í heimahéraði vera fyrsta val íbúa. Niðurstaðan var sú að breyta opnunartíma tímabundið á Hvolsvelli til að nýta enn betur fagþekkingu heilbrigðisstarfsfólks í þágu íbúa. Með því að breyta opnunartíma var hægt að nýta mannauð hjúkrunarfræðinga enn betur til verkefna í héraðinu í stað þess að vera með hjúkrunarfræðinga á bundinni dagvakt inni á heilsugæslustöð. Með breyttum opnunartíma skapast svigrúm til að auka við 40-50% stöðugildi í heimahjúkrun fyrir íbúa Rangárþings. Ljóst er að fjöldi vitjana í heimahjúkrun á svæðinu hefur vaxið um 25% milli áranna 2015 og 2014 og því hefur heilsugæslan náð að sinna þeim hópi afar vel og bæta þjónustu við hjúkrunarsjúklinga í umdæminu. Þessa aukningu má að hluta til rekja til breytinga á skipulagi opnunartíma og hefur sem dæmi verið hægt að bæta við 25 nýjum sjúklingum í fyrstu vitjun í heimahjúkrun, auk annarra sem þiggja þá þjónustu. Fyrirsjáanlegt er að heimaþjónusta fari vaxandi og því jákvætt að hægt sé að bæta þá þjónustu enn frekar.

 

Breyttur opnunartími var kynntur fyrir sveitarstjórnum í Rangárþingi 10. nóvember s.l. á upplýsingafundi sem framkvæmdastjórn HSU boðaði til. Þá var tilgangur verkefnisins skýrður. Breytt fyrirkomulag tók gildi 16. nóvember 2015. Rætt var um að þessi breyting á opnunartíma á Hvolsvelli væri gerð tímabundið til vorsins 2016 og alls ekki stæði til að loka. Það var skýrt tekið fram og sveitarstjórnarmenn beðnir um að koma því skýrt til skila. Tilgangur breytinganna var á engan hátt að valda óvissu eða skapa kvíða meðal íbúa og harma ég ef það hefur gerst. Tilgangurinn var fyrst og fremst að efla umrædda þjónustu í heimahjúkrun, enda hefur viðtalstímum hjá læknum ekki verið fækkað og full mönnun lækna er við stöðina. Engin skerðing hefur átt sér stað á þjónustu heilsugæslunnar í Rangárþingi en frekar verið bætt í grunnþjónustuna með sömu mönnun og áður. Hins vegar hefur opnunartíma verið breytt þannig að á þriðjudögum og föstudögum þarf að sækja viðtal til heimilislæknis á Hellu.

 

Framkvæmdastjórn fagnaði því að vera boðið að upplýsa íbúa Rangárþings eystra um tilgang þessara tímabundu breytingar í íbúafundi á Hvolsvelli þann 11. janúar 2016. Á fundinum fullyrti forstjóri HSU að ekki stæði til að loka starfstöð heilsugæslunnar í Rangárþingi á Hvolsvelli og harmaði að þessar breytingar hefðu valdið óvissu og kvíða í samfélaginu. Forstjóri harmar að svo virðist sem sveitastjóri Rangárþings eystra hafi ekki komið upplýsingum til íbúa um það að um tímabundna breytingu væri að ræða til vorsins 2016 og að ekki stæði til að loka á Hvolsvelli. Sumarið 2016 er áætlað að starfstöð heilsugæslunnar á Hellu verði lokuð og opið verður á Hvolsvelli allt sumarið.

 

Forstjóri HSU fagnar því að sveitarstjórn Rangárþings eystra kalli eftir faglegu samráði við íbúa enda er það markmið HSU að leita allar leiða til að bæta gæði og öryggi í almennri heilbrigðisþjónustu fyrir það fjármagn sem gefið er til heilbrigðisumdæmis Suðurlands.

 

Framkvæmdastjórn HSU tók við undirskriftum íbúa á fundinum og tekur undir að öflug heilsugæsla er grundvallarstoð í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.

 

 

 

 

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri

Heilbrigðisstofnun Suðurlands