Endurbætur á húsnæði HSu, að andvirði 1,3 milljarðar samþykktar

Endurbætur HSuÖll áform um að draga frekar úr umsvifum spítalasviðs HSu eru úr sögunni, því samþykktar hafa verið í Samstarfnefnd um opinberar framkvæmdir hjá ríkinu, 1,3 milljarða króna, sem fara á í endurbætur á húsnæði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi.

 

Í kjölfarið mun Framkvæmdasýsla ríkisins geta haldið áfram með undirbúning og hönnun framkvæmda, sem byrjað var á í upphafi árs.

Verkið verður unnið í fjórum áföngum og eru áætluð verklok árið 2017. Núverandi stærð eldri hluta hússins er 3027 m², en verður að framkvæmdum loknum 5769 m². Reynt verður að halda fullri starfssemi í húsinu þrátt fyrir framkvæmdir.

 

Þetta varðar tímamót í framtíð HSu og með ákvörðuninni er búið að marka stofnuninni skýrt framtíðarhlutverk, sem undirstaða heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi. Þetta er því mikið ánægjuefni að búið sé að samþykkja allt sem snýr að endurbótum HSu.

 

Nú fer hönnun, undirbúningur og útboð fram á fjárfestingu upp á 1,3 milljarð í þessari undirstöðu velferðarstofnun á Suðurlandi.  Að sögn Björgvins G. Sigurðssonar Þingmanns voru áformin við það að frestast, en þá tókst að fá 200 milljónir aukalega á fjárlögum fyrir árið 2013 og það dugði til að halda áfram.

 

Með þessum endurbótum á elsta hluta HSu er búið að byggja vel utan um sjúkrahúsið og heilsugæsluna, og öll áform um að draga frekar úr umsvifum spítalasviðs HSu úr sögunni.

 

Líkan af HSu eftir endurbætur