Ingigerður Þórðardóttir á 104 ára afmæli í dag og telst þar með elsti Sunnlendingurinn. Ingigerður er fædd á Reykjum á Skeiðum 21. janúar 1912, fjórða í röð 11 systkina. Maki Ingigerðar var Þorsteinn Bjarnason frá Hlemmiskeiði á Skeiðum, en hann lést 2002. Þau voru búsett á Selfossi alla tíð, en nú síðustu ár hefur Ingigerður dvalið á Ljósheimum, hjúkrunardeild HSU.
Herdís Gunnarsdóttir forstjóri HSU færði afmælisbarninu blóm og konfekt í tilefni dagsins. Afmælisbarnið vildi nú lítið gera úr þessu og var hissa á öllu þessu tilstandi og velti fyrir sér hvað væri eiginlega í gangi og komst svo skemmtilega að orði og sagði; „er þetta vegna þess að ég er orðin elsta kerlingin“?
Ingigerður er í fjórða sæti yfir elstu núlifandi Íslendingana, en nú eru 37 einstaklingar á lífi 100 ára og eldri.