Covid-19 fréttir frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Covid-19 smitum fer nú fjölgandi í samfélaginu og hafa þau ekki verið fleiri frá því í apríl sl. Samkvæmt nýjustu Covid tölum frá Suðurlandi eru nú 51 í einangrun með virkt smit og 84 í sóttkví. Þetta veldur okkur að sjálfsögðu áhyggjum en við megum ekki bugast og höldum ótrauð áfram í baráttunni við þennan skæða vágest. Það sem einkennir þessa bylgju sem nú er farin af stað er að veiran er mun meira smitandi og hver smitaður virðist smita mun fleiri en áður. Bólusettir eru einnig að smitast en flestir eru þó einkennalitlir.

Hjá HSU gildir nú grímuskylda hjá starfsmönnum í öllum samskiptum við sjúklinga og skjólstæðinga. Jafnframt er grímuskylda hjá öllum sem heimsækja stofnunina.

Heimsóknarreglum á HSU var breytt þann 22.júlí sl. Breytingarnar fela í sér takmörkun á komum gesta en sjúklingar mega fá einn gest til sín á heimsóknartíma. Jafnframt er mælst til þess að börn undir 12 ára aldri komi ekki í heimsókn. Fólk sem hefur einhver einkenni smitandi sjúkdóma er beðið að fresta heimsóknum þar til einkennin eru gengin yfir.

Ákveðið hefur verið að bjóða barnshafandi konum upp á bólusetningu og munu þær hefjast í næstu viku. Tímasetning bólusetninganna verður auglýst síðar.

Það er ljóst að við stöndum öll frammi fyrir því að baráttunni við Covid-19 er svo sannarlega ekki lokið og því mikilvægt að við vöndum okkur í alla staði og munum eftir mikilvægi sóttvarna.

Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU