Brjóstagjöf

Að brjóstfæða barn sitt er sterk upplifun sem auðgar líf móður og barns.  Brjóstagjöf er heilsusamleg og það er auðvelt að læra að gefa brjóst, því líkaminn vinnur aðal vinnuna sjálfur. 
Langflestar konur geta haft barn sitt á brjósti, en viðhorf þeirra til brjóstagjafar skiptir máli, þ.e. að hafa vilja til að láta brjóstagjöfina ganga vel. Konan þarf líka næði, góða næringu, nægilega hvíld og stuðning frá fjölskyldu og fagfólki til þess að vel gangi.


 

Fyrsta gjöfin eftir fæðingu barns, er ábending líkamans að hefja mjólkurframleiðslu.  Því fyrr og meira sem barnið drekkur, því meiri mjólk framleiða brjóstin.  Að láta barn sjúga oft og vel flýtir ferlinu þar sem broddurinn, sem inniheldur mikið af eggjahvítu og mótefnum, breytist í næringarríka mjólk.  Þessi breyting á sér stað í fyrsta lagi eftir sólahring og lýkur innan u.þ.b. fimm daga.  Tíu til fjórtán dögum eftir fæðingu á barnið völ á þroskaðri móðurmjólk.  Þroskuð mjólk inniheldur meiri fitu og sykur en minni eggjahvítuefni.  Í staðin fyrir þykkan rjómakenndan broddinn kemur mjólk, næstum eins og undanrenna að sjá.  Þegar líður á gjöfina hjá barninu, kemur eftirmjólkin og hún er mjög seðjandi og hitaeiningarík, ef barnið drekkur nógu lengi.  Forðast ber að færa barnið of fljótt á milli brjósta því þá verður það ekki nógu mett. 


Brjóstagjöfin er besti kostur fyrir hið nýfædda barn vegna m.a. eftirfarandi þátta:   
• Með móðurmjólkinni fær barnið góða vörn gegn sumum sýkingum.
• Brjóstamjólkin er alltaf fersk og við rétt hitastig.
• Móðurmjólk minnkar líkur á ofnæmi og astma.
• Móðurmjólkin er auðmelt og minnkar líkur á hægðatregðu.
• Næturgjöfin er auðveldari; það þarf ekki að fara fram úr um miðjar
nætur til að hita mjólk.
• Brjóstagjöf fylgir enginn þvottur eða sótthreinsun pela.
• Brjóstamjólk kostar ekki peninga.
• Þegar byrjunarörðugleikar eru úr sögunni er brjóstagjöfin yfirleitt
notaleg samverustund fyrir móður og barn.