Brjóstagjöf – á að gefa annað brjóstið eða bæði í gjöf

Hulda Sigurlin ThorðardottirMargar mæður með börn á brjósti velta fyrir sér hvort betra sé að gefa annað brjóstið eða bæði í gjöf.  Sum börn þurfa alltaf bæði brjóstin, önnur verða södd eftir annað brjóstið og mörg börn láta sér nægja annað brjóstið fyrri part dags en þurfa svo bæði þegar líður á daginn.  Brjóst eru ekki eins og peli sem tæmist jafnt og þétt.  Brjóst afgreiða mjólkina í frekar miklu magni í byrjun og svo hægist á.  Það er hægt að sjá þetta með því að telja hve mörg sog barnið þarf að taka áður en það kyngir. Í byrjun gjafar er þetta frekar rólegt  þ.e. mörg sog áður en kyngt er, en að meðaltali 56 sek. eftir að barnið byrjar að sjúga kemur svokallað losunarviðbragð. Þá tölum við um að mjólkin losni úr brjóstinu og barnið byrjar að kyngja mjög ört.  Svo hægist aftur á þar til næsta losunarviðbragð kemur. Það gerist á 3-4 mín fresti.  Sumar konur finna fyrir fyrsta losunarviðbragðinu sem einhvers konar tilfinningu í brjóstinu. 

Börn vita hvenær þau vilja skipta um brjóst.  Þau sleppa brjóstinu en geta líka orðið óróleg við brjóstið þegar hægist á rennslinu.  Þau toga og rífa í brjóstvörtuna og hreyfa höfuðið til og frá.  Þá er hægt að kreista brjóstið. Með því pressast mjólkin fram að geirvörtunni, sérstaklega hjá mæðrum með stærri brjóst.  Halda þarf pressunni á mismunandi stöðum í 20-30 sek. í senn.  Þau kyngja  þá hraðar. Ef þau eru farin að sjúga 4-5x áður en þau kyngja, er rétt að skipta um brjóst. Ef þau eru yngri en 2-3 vikna og rennslið er ekki nægilegt þá bara sofna þau og hvílast.  Sama á hvaða aldri barnið er þá getur verið gott að kreista brjóstið ef það sýnir óróleika eða sofnar og athuga hvort þau kyngi örar.

 

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

 

Hulda Sigurlína Þórðardóttir

Ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi á HSU