Breytt lyfjastefna í fangelsinu á Litla Hrauni

Samráðsnefnd um málefni fanga hélt nýlega morgunverðarfund þar sem rædd var áfengis- og vímuefnameðferð í fangelsum. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá HSu, HTR, Fangelsismálastofnun ríkisins, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Þjónustumiðstöð Breiðholts, Landlæknisembættinu, Rauða Krossi Íslands, Lögreglunni í Reykjavík, Fangavarðarfélaginu, Geðvernd, Fangaprestur o.fl.

Meðal fyrirlesara á fundinum var Ragnar Gunnarsson, sérfræðingur í heimilislækningum sem starfar að hluta á Litla Hrauni en er heilsugæslulæknir á Selfossi.


Ragnar ræddi um nýja lyfjastefnu í fangelsinu en henni var breytt árið 2004. Nú fær enginn fangi á Litla Hrauni ávanabindandi lyf (utan fráhvarfsmeðferðar) nema með algjörri undantekningu og þá með samþykki heilbrigðisteymis sem þar er starfandi, en í því sitja læknar, hjúkrunarfræðingar og sálfræðingar. Það háir þó meðferð við eiturlyfjafíkn að á Litla Hrauni er engin meðferðardeild, en fangi sem fær alvarleg fráhvarfseinkenni þyrfti helst að vera undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanns (læknis, hjúkrunarfræðings) allan sólarhringinn. Margir fanganna á Litla Hrauni teljast til hörðustu fíkla landsins og þeir þurfa að fá viðeigandi fráhvarfsmeðferð.
Ragnars sagði að ýmsir kvillar gætu hrjáð fanga þegar þeir koma í fangelsið s.s. líkamlegir sjúkdómar og áverkar eftir slys en einnig geðrænir sjúkdómar s.s. þunglyndi og ekki síst áðurnefnd eiturlyfjafíkn. Ragnar sagði stefnu í fangelsismálum vera að breytast til hins betra og í Fangelsismálastofnun væri rekin mannúðleg stefna í málefnum fanga.


Á fundinum kom fram að ekki er samræmd lyfjastefna fyrir öll fangelsi í landinu en eftir því hefur verið óskað að Landlæknir gæfi út vinnureglur um slíka stefnu. Það sem gerir þetta mjög erfitt er að lyf flæða inn í fangelsið, þangað er smyglað inn bæði fíkniefnum og læknalyfjum. Neysla stera er einnig vandamál.


Heilbrigðisstofnun Suðurlands sér um heilbrigðisþjónustu í fangelsinu skv. sérstökum samningi við HTR. Heilbrigðisþjónusta sem er í boði er m.a. móttaka og viðvera hjúkrunarfræðinga frá þriðjudegi til föstudags, móttaka heimilislækna tvisvar í viku, hálfan dag í senn en neyðarþjónusta læknis er allan sólarhringinn og  móttaka geðlæknis að jafnaði einu sinni í viku.  Vikulega eru fundir með heilbrigðisstarfsmönnum og fangelsisstjóra.
Heimild er til að auka geðlæknisþjónustuna en enn hefur ekki tekist að ráða í það starf en vonir standa til að það geti gerst innan tíðar.