Breytingar í starfsemi HSu

hsuUndanfarin fjögur ár, 2009 – 2012, hefur Heilbrigðisstofnun Suðurlands, HSu,  þurft að bregðast við mikilli lækkun fjárveitinga til reksturs stofnunarinnar.  Gripið hefur verið til margháttaðra aðgerða til að draga úr útgjöldum.  Þrátt fyrir það á stofnunin við mikla rekstrarerfiðleika að etja.  Nauðsynlegt er, að rekstur stofnunarinnar verði í samræmi við þær fjárveitingar, sem ætlaðar eru til rekstursins.

 

Eftir ítarlega yfirferð á hugsanlegum möguleikum við að koma rekstri stofnunarinnar til samræmis við fjárveitingar skv. fjárlögum er  ljóst, að slíkt er ekki hægt nema endurskipuleggja hluta af þjónustu stofnunarinnar. Velferðarráðuneyti hefur ítrekað verið gerð grein fyrir þessum vanda. 

 

 

Endurskipulagning heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi.

 

Að mati stjórnenda HSu verður ekki lengra gengið í hagræðingu svo nokkru nemi  til að mæta nauðsynlegri  útgjaldalækkun nema með endurskipulagningu og breytingum á þjónustunni.  Framkvæmdastjórn HSu hefur á undanförnum árum haft samráð við lækna- og hjúkrunar- og ljósmæðraráð stofnunarinnar varðandi leiðir til að bregðast við kröfum um útgjaldalækkun. 

 

Nauðsynlegt er að ráðast í ýmsar breytingar sem  lúta að þjónustu sjúkrahúss, vaktafyrirkomulagi, sjúkraflutningum og ýmsum öðrum reksturskostnaði.

 

Starfsemi og vinnuskipulag handlækninga og skurðstofu verður aðlöguð þeirri þjónustu, sem þar hefur verið að undanförnu. Handlækningadeild hefur verið lögð niður, en skurðaðgerðir og speglanir í göngu- og dagdeildarþjónustu verða tvo til þrjá daga í viku. 

 

Þjónusta lyflækna verður aukin á ýmsum sviðum, t.d. varðandi vaktþjónustu, svefn- og öndunarfærarannsóknir og lungnaspeglanir. Göngudeildarþjónustan er vaxandi og kemur til með að fækka ferðum Sunnlendinga til að sækja slíka þjónustu á höfuðborgarsvæðið.

Fyrir er á  göngudeild lyflækninga þjónusta varðandi áreynslupróf, hjartaómskoðanir, sólarhrings blóðþrýstingsmælingar, Holter (sólarhrings hjartalínurit), speglanir á maga og ristli.  Þá er ótalið m.a. allar þær lyfjagjafir, sem framkvæmdar eru á göngudeild eða bráðadeild með lyfjum, sem halda niðri erfiðum langvinnum sjúkdómum í liðum eða meltingarfærum svo dæmi sé tekið.

 

Starfsemi bráðamóttöku eykst stöðugt og verður reynt að stuðla að því, að svo geti verið áfram.

 

Draga verður úr kostnaði við sjúkraflutninga til samræmis við fjárveitingu til þeirra.  Frá og með 1. janúar n.k. verður einn sjúkrabíll mannaður um nætur í Árnessýslu í stað tveggja.  Bakvakt sjúkraflutningamanna er í Rangárvallasýslu eins og verið hefur, einnig í Vík og á Kirkjubæjarklaustri. Áfram verður gert ráð fyrir stuðningi sjúkraflutninga milli sýslna eins og verið hefur.

 

Framangreindar breytingar fela í sér nokkra fækkun stöðugilda, hægt var að bjóða flestum starf á öðrum deildum, en tveimur starfsmönnum þurfti að segja upp.