Breytingar á samdægursmóttöku (opinni móttöku) hjá HSU Selfossi

HSU

 

  • Hluti móttöku færist á dagvinnutíma.
  • Aðskilin skyndimóttaka fyrir börn.
  • Styttri biðtími á biðstofu með tilkomu tímabókunarfyrirkomulags

 

Þrátt fyrir að stöður heilsugæslulækna á Selfossi hafi verið fullmannaðar þá hefur verið skortur á tímum hjá heilsugæslulæknum og almennt talsverð bið eftir hefðbundnum tímum. Aðalástæðan fyrir þessu er sú að þjónusta á bráðamóttöku, sem er sívaxandi, hefur dregið úr mögulegu vinnuframlagi læknana við hefðbundna heilsugæslu. Ein afleiðing takmarkaðs tímaframboðs á heilsugæslu er aukin aðsókn í samdægursmóttöku ( opna móttöku)  heilsugæslulækna sem verið hefur starfrækt utan dagvinnutíma – síðdegismóttöku. Aðsóknin á þá móttöku hefur á köflum verið það mikil að hún hefur haft áhrif á bolmagn bráðamóttöku til að sinna hlutverki sínu.

 

Til að reyna að bæta þjónustuna hefur verið ákveðið að breyta fyrirkomulagi þessarar samdægursmóttöku. Þetta felur m.a. í sér að stór hluti hennar færist yfir á dagvinnutíma á virkum dögum og á dagvinnutíma verður einnig sérstök aðskilin skyndimóttaka fyrir börn auk hraðmóttöku fyrir fullorðna. Sömuleiðis verður í boði aðskilin skyndimóttaka fyrir börn um helgar. Önnur breyting er að nú verður tekið upp tímabókunarfyrirkomulag sem ætti að leiða til þess að skjólstæðingar þurfi að eyða mun styttri tíma á biðstofu en ella. Hægt verður að hringja samdægurs/innan sólarhrings til að fá tíma og mæta svo rétt fyrir þann tíma þannig að biðin á biðstofu ætti í flestum tilfellum ekki að vera lengri en 10-15 mínútur fyrir hvern og einn.

 

Vinna er sömuleiðis í gangi við aðrar aðgerðir til að bæta aðgengi að hefðbundnum tímum á heilsugæslunni á Selfossi. Líklegt er að þær aðgerðir fari að bera ávöxt með haustinu.

 

Mikilvægt er að skilja á milli þjónustuþátta á heilsugæslu og bráðamóttöku á Selfossi. Bráðamóttaka er eins og nafnið ber með sér ætluð fyrir bráðavandamál, sjúkdóma og slys, sem eru alvarleg og þangað er hægt að leita beint með slík vandamál. Samdægursmóttaka á heilsugæslu (skyndimóttaka/hraðmóttaka fyrir börn og fullorðna) er ætluð fyrir einfaldari, en brýn vandamál, sem þarfnast skjótrar afgreiðslu. Tími sem hverjum skjólstæðingi er ætlaður er helmingi styttri en í hefðbundnum tíma á heilsugæslu. Þetta er almennt ekki vettvangur til að taka fyrir flókin eða mörg langvinn vandamál. Mikilvægt er að aðgengi sé að þjónustunni fyrir þá sem raunverulega þurfa á að halda og skjólstæðingar átti sig á þessum mun og reyni ekki að nýta þessa tíma fyrir flókin og langvinn vandamál.

 

 

Fyrirkomulag bókana á samdægursmóttöku:

Hægt verður að panta tíma símleiðis á næstu samdægursmóttöku.

Virkir dagar:

Hvað varðar móttöku á dagvinnutíma  þá verður hægt að panta tíma eftir kl. 8 að morgni sama dag. Fyrir síðdegismóttöku á virkum dögum verður hægt að panta tíma eftir kl. 14 sama dag.

Helgar:

Hægt verður að hringja síðdegis næsta dag á undan milli kl. 17 og 18 og panta tíma. Símamóttaka verður opin á laugardögum og þá er einnig hægt að hringja frá kl. 10 á meðan á móttöku stendur fyrir tíma sama dag.

 Ekki verður hægt að panta tíma nema innan sólarhrings, enda væri þá samdægursmóttaka búinn að missa hlutverk sitt hvað varðar m.a. aðgengi.

Þar sem nú verður tekið upp tímabókunarfyrirkomulag þá er sá möguleiki fyrir hendi að ef skjólstæðingur mætir of seint að tíminn detti upp fyrir og hann þurfi aftur að panta tíma.

Framboð tíma á samdægursmóttöku verður um 20% meira en meðaltal síðasta árs, en eins og alltaf má búast við toppum í þjónustuþörf – t.d. þegar inflúensutímabil ganga yfir – og verður reynt að bregðast við því með sveigjanleika í tímaframboði. Þó er ekki hægt að tryggja það að alltaf verði lausir tímar á samdægursmóttöku innan næsta sólarhrings – og ef vandamál eru það brýn og alvarleg að skjólstæðingar telji að þau megi ekki bíða lengur þá má segja að þau flokkist undir vandamál sem heyri undir bráðamóttöku og hægt að leita þangað.

 

 

Síðdegis- og helgarmóttaka

Hraðmóttaka starfrækt milli kl. 16 og 18 virka daga, milli kl. 10 og 15 á laugardögum og milli kl. 10 og 12 á sunnudögum (og öðrum frídögum sem ekki eru stórhátíðardagar) Hver tími er miðaður við tímalengd upp á 10 mínútur. Hægt verður að bóka tíma eftir kl. 14 sama dag virka daga. Fyrir laugardaga og sunnudaga verður  hægt að hringja deginum áður milli kl. 17 og 18 og panta tíma. Á laugardögum er líka hægt að hringja og panta tíma þann daginn frá kl. 10 og á meðan á móttöku stendur.

Skyndimóttaka fyrir börn

Skyndimóttaka sérstaklega ætluð börnum verður starfrækt virka daga á milli kl. 14 og 15 og á móttöku um helgar verður um þriðjungur tíma sérstaklega ætlaður börnum. Hægt er að bóka í þessa tíma eftir kl. 8 að morgni á virkum dögum. Fyrir laugardaga, sunnudaga verður  hægt að hringja deginum áður milli kl. 17 og 18 og panta tíma og á laugardögum frá kl. 10 sama dag á meðan á móttöku stendur.

Hraðmóttaka fyrir fullorðna á dagvinnutíma

Starfrækt milli kl. 13 og 15 virka daga. Hægt að bóka í þessa tíma eftir kl. 8 að morgni sama dag. Ef þörf er á má nýta þessa tíma fyrir börn. Hver tími er 10 mínútur.

Stórhátíðardagar

Ekki er samdægursmóttaka á stórhátíðardögum, enda einungis neyðarþjónusta á slíkum dögum (bráðamóttaka er opin).

Sérstakir frídagar aðrir en stórhátíðardagar

Samdægursmóttaka er opin en ef sunnudagur eða stórhátíðardagur er á undan þá er ekki símavakt þá daga og hægt að panta tíma frá kl. 10 sama dag (og milli kl. 17 og 18 daginn á undan stórhátíðardeginum/sunnudeginum sem kemur á milli).

Ofangreindar breytingar tóku gildi 20. júní n.k. og skjólstæðingar geta nú mætt án tímapöntunar og verið vissir um að komast að á næstu samdægursmóttöku. Tímapöntunarfyrirkomulag og aukinn sveigjanleiki með meiri tímadreifingu yfir daginn og aðskilinni móttöku fyrir börn munu hins vegar væntanlega og vonandi almennt leiða til aukinna þæginda fyrir skjólstæðinga og aukinna gæða þjónustu – bæði á samdægursmóttöku á heilsugæslu og á bráðamóttöku.

Ekki er hægt að útiloka að einhverjir byrjunarerfiðleikar og hnökrar eigi sér stað þegar nýja fyrirkomulagið verður tekið í notkun og eru skjólstæðingar beðnir að sýna því skilning ef svo verður  – en jafnframt að upplýsa ef slíkt kemur upp, t.d. með því að senda tölvupóst á póstfangið hsu@hsu.is.

 

 

Nánari upplýsingar um þetta verður alltaf hægt að nálgast á heimasíðu HSU, undir Heilsugæslu Selfoss.

 

Með ósk um gott, gleðiríkt og góðviðrasamt sumar.