Breytingar á heilbrigðisþjónustu

Í dag kynntu stjórnendur HSu starfsmönnum sínum þær breytingar sem verða á starfsemi stofnunarinnar skv. tillögum  Guðlaugs Þ. Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra. Breytingarnar sem eru stefnumarkandi fela m.a. í sér að vaktþjónusta á skurðsviði sjúkrahússins verður lögð niður og það hefur þau áhrif m.a. að fæðingar munu nánast leggjast af.
Heilbrigðisstofnanirnar á Höfn og í Vestmannaeyjum munu sameinast HSu þannig að ein heilbrigðisstofnun verður á Suðurlandi öllu.
Kynna á heilsugæsluna enn frekar sem fyrsta viðkomustað og efla á bráða- og slysaþjónustuna.
Auka á samstarf Landspítala og HSu um rekstur skurðdeilda og auka á þjónustu sérfræðilækna á svæðinu.
Vaktsvæði heilsugæslunnar verður stækkað og rannsóknastofum verður fækkað.
Við þessar breytingar er íbúafjöldi á svæði HSu orðinn 25.600 – sem er þá orðið næststærsta heilbrigðisumdæmi á landsbyggðinni.
Þó tækifæri felist í þessum breytingum þá er líka stórskert þjónusta við íbúa á svæðinu.