Breyting á þjónustu HSU komi til verkfalls hjúkrunarfræðinga

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur boðað til ótímabundins allsherjarverkfalls frá og með kl. 08 n.k. mánudag þann 22.06.2020.  Komi til verkfalls þá þýðir það að allir hjúkrunarfræðingar með aðild að Fíh fara í verkfall að óbreyttu.  Í gildi er öryggislisti sem tryggir lágmarksmönnun komi til verkfalls.  

 

Ef af verður þá þýðir þetta talsverða röskun á starfsemi HSU.  Öryggi skjólstæðinga HSU verður nú sem fyrr í forgrunni og allri lífsnauðsynlegri þjónustu verður sinnt.  

 

Þetta mun hafa í för með sér þó nokkrar tafir í starfseminni, símatímar hjúkrunarfræðinga falla niður, mögulega þarf að fresta fyrirfram skipulagðri þjónustu og fækka sjúkrarúmum.

 

Heilbrigðisstofnunin harmar að þessi alvarlega staða sé komin upp og hvetur samningsaðila til að ganga til samninga hið fyrsta svo ekki komi til verkfalls.