Bráðmóttaka

 

bradamottakaBráðamóttaka (BMT) HSU, Selfossi var opnuð í núverandi mynd þann 1. febrúar 2011 og er staðsett á fyrstu hæð gömlu byggingar. Starfsemi Bráðamóttökunnar hefur á síðustu misserum vaxið gríðarlega og fjöldi sjúklinga sem þangað leita fjölgar jafnt og þétt. Þar munar miklu um aukningu erlendra ferðamanna til landsins en einnig má nefna þann fjölda fólks sem býr og dvelur til lengri eða skemmri tíma í sumarhúsabyggðum í nágrenni við Selfoss og í uppsveitum Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Sjúklingar koma ýmist á eigin vegum, eftir tilvísun frá heilsugæslu, í gegnum utanspítalaþjónustu eða frá læknum á göngudeildum spítalans. Sjúklingar tilheyra öllum aldurshópum og koma hvenær sem er sólarhringsins. Vandamálin eru því af öllu tagi en algengustu vandamál sem fólk leitar út af eru m.a.:

  • Bráðaveikindi
  • Slys
  • Stoðkerfisvandamál (tognanir eða brot)
  • Andþyngsli
  • Brjóstverkir
  • Endurkomur í gifsskiptingu
  • Reglulegar lyfjagjafir

Ferill sjúklings sem leitar á Bráðamóttöku hefst í móttöku þegar móttökuritari skráir hann inn  við komu, þar sem honum er síðan vísað á biðstofu Bráðamóttökunnar.  Hjúkrunarfræðingur kallar sjúkling inn til viðtals eins fljótt og auðið er og forgangsflokkar eftir alvarleika veikinda.   Eftir það er skjólstæðingum vísað á mismunandi svæði eftir því sem við á innan bráðamóttökunnar eða á biðstofu og bíða eftir því að nafn þeirra sé kallað upp til viðtals við lækni.  Ef skjólstæðingur tjáir strax við komu í móttöku brjóstverk, andþyngsli, mikla verki eða ef um slys er að ræða lætur móttökuritari hjúkrunarfræðing strax vita.  Skjólstæðingar Bráðamóttöku eru því hvattir til að láta vita af sér ef þeir eru með ofangreind einkenni.  Á álagstímum getur bið eftir þjónustu verið löng, en allir eiga þó að hafa hitt heilbrigðisstarfsmann innan skamms tíma frá komu sem metur ástand sjúklings m.t.t. alvarleika. 

Álag hefur verið mikið í sumar á Bráðamóttöku og þar sem biðin hefur oft á tímum verið löng eru sjúklingar beðnir um að kynna sér önnur úrræði stofnunarinnar ef ekki er um bráðaveikindi eða slys að ræða.   

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Bergdís Saga Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur

Guðrún Kormáksdóttir deildarstjóri Bráðamóttöku