Börn og náttúruhamfarir

Við náttúruhamfarir geta börn orðið mjög hrædd og eftir á geta sum þeirra sýnt breytingar í hegðun og líðan. Hjá flestum börnum eru breytingarnar vægar, vara stutt og þau jafna sig algjörlega með tímanum. Hins vegar geta endurteknar upprifjanir um atburðinn valdið vanlíðan og kvíða. Því ber að varast að vera endurtekið að rifja upp atburðinn í viðurvist barnanna og þá sérstaklega yngri barna. Þetta á sérstaklega við um efni í fjölmiðlum.

Algeng viðbrögð barna við hamförum


Mörg yngri börn eiga erfitt með að setja reynslu sína í orð og birtist vanlíðan þeirra oft í hegðun. Þau þola þá lítið áreiti og verða fljótt pirruð. Oft er styttra í grát og þau vilja láta halda meira á sér og sækja í fang foreldra. Börn á leikskólaaldri geta orðið ringluð ef mikið er um að vera og verða þá oft mjög hrædd um að verða viðskila við foreldra. Þá geta þau bókstaflega fylgt foreldrum sínum eftir og mega ekki sjá af þeim.


Hjá börnum á grunnskólaaldri er algengara að þau verði mjög upptekinn af atburðinum og þurfi að tala um hann út í eitt. Þetta getur valdið því að einbeiting verður lélegri um tíma sem getur haft áhrif á nám og aðra frammistöðu. Algengt er að mestar áhyggjur séu um að hamfarirnar geti gerst aftur og hvað muni gerast þá. Áhyggjur af foreldrum eru oft miklar og stundum þarf að hjálpa til við að greiða úr tilfinningum með því að ræða sértstaklega við börnin og gæta þess að þau hafi réttar upplýsingar um hvað gerðist og hvað geti gerst.


Eldgosið í Eyjafjallajökli


Fjölmörg börn urðu fyrir áhrifum eldgossins í Eyjafjallajökli. Mörg þeirra þurftu að rýma heimili sín og alvarleg truflun varð á daglegu lífi þar sem eldgosið hafði bein áhrif á afkomu og störf foreldra þeirra. Margir foreldrar upplifðu mikla streitu sem setur mark sitt á líðan barnanna. Líklegt er að á dögum þar sem er mikið öskufall geti líðan verið marktækt verri en vanalega hjá börnunum. Þá minnir askan á eldgosið og ýtir undir hugsanir sem geta skapað vanlíðan.


Hvað geta foreldrar gert


Mikilvægt er að gefa sér tíma í að hlusta á börnin og svara spurningum þeirra. Yngri börn þurfa oft einföld svör sem skapa öryggi. Eldri börn þurfa meiri upplýsingar og ber að gæta þess að þær séu réttar. Ef að barn á í erfiðleikum með að tjá hugsanir sínar og tilfinningar getur það hjálpað þeim að teikna eldgosið eða segja sögu af því. Reyna skal eftir fremsta megni að færa lífið í eðlilegt horf og taka upp fyrri störf og skipulag heimilisins.


Foreldrar þurf að huga að sjálfum sér því líðan og hegðun foreldra hefur gríðarleg áhrif á börn. Séu foreldrar fullir af vanlíðan og neikvæðum hugsunum er líklegt að það smiti út til barnanna og hafi bein áhrif á hegðun og líðan. Hafi foreldrar grun um að þeir sjálfir eða börn þeirra líði illa vegna afleiðinga eldgossins ættu þeir skilyrðislaust að leita aðstoðar í gegnum sína heilsugæslu.

Heimildir Helping children cope with disaster. FEMA. 2011. Slóðin er: http//www.fema.gov Íris Bödvarsdóttir, Ask Elklit og Drifa Björk Gudmundsdóttir. (2006). Post-traumatic Stress Reactions in Children after two large Earthquakes in Iceland, 58(2), 91-107.