Bólusetningar barna

Helga ÞorbergsÍslendingar voru meðal fyrstu þjóðanna sem hófu bólusetningu gegn kúabólu. Þetta var í upphafi 19. aldar og var bólusetningin skylda samkvæmt lagaboði danskra stjórnvalda.Það var breski læknirinn Jenner sem uppgötvaði aðferðina og draga bólusetningar nafn sitt af bólusóttarefni hans.

Bóluefni eru notuð til ónæmisaðgerða. Þau eru ýmist unnin úr veikluðum veirum eða bakteríum eða þau innihalda efni sem finnast í þessum sýklum. Bóluefnin vekja upp mótefnasvörun í líkamanum sem kemur í veg fyrir eða dregur úr líkum á að börn veikist af sjúkdómnum sem bólusett er gegn.

Bólusett hefur verið gegn alvarlegum smitsjúkdómum hér á landi áratugum saman og vegna mikillar þátttöku í bólusetningum barna hefur ekki verið talin þörf á að gera þær að skyldu. Almenn þátttaka er nauðsynleg til að halda megi alvarlegum farsóttum í skefjum.

Gagnsemi bólusetningar er fólgin í þeirri vernd sem hún veitir barninu. Einnig og ekki síður felst hún í því að hvert og eitt bólusett barn smitar ekki önnur næm börn af þeim sjúkdómi sem það er verndað fyrir. Þannig eru bólusetningar einstakar aðgerðir sem eiga sér ekki hliðstæðu í forvörnum sjúkdóma. Margir barnasjúkdómar sem ollu stórfelldum barnadauða á öldum áður og fram á 20. öldina eru nú sjaldséðir meðal vestrænna þjóða. Reynslan sýnir þó að þessir sjúkdómar geta komið aftur ef slakað er á bólusetningum.

 

Þeir smitsjúkdómar sem almennt og gjaldfrjálst er bólusett gegn á Íslandi í dag eru: Barnaveiki, stífkrampi, kikhósti, mænusótt, og heilahimnubólga af völdum haemophilus influenzae B, heilahimnu-,- lungna-og eyrnabólga af völdum pneumococca, heilahimnubólga af völdum meningococca, mislingar rauðir hundar og hettusótt. Auk þess er öllum 12 ára stúlkum boðin bólusetning gegn HPV veiru sem valdið getur leghálskrabbameini. Um þá bólusetningu verður fjallað í næsta heilsuhorni.

 

Gröf 6 systkina

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Meðfylgjandi mynd er úr Berufjarðarkirkjugarði af gröf 6 systkina á aldrinum 2-12 ára. Þau dóu öll úr barnaveiki á tímabilinu 14. maí til 2. júní 1862.

 

Ítarefni má finna á vef landlæknis; landlaeknir.is

 

 

f.h. heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Helga Þorbergsdóttir

Hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar í Vík