Bólusetning gegn miðeyrnabólgu og öndunarfærasýkingu

Eins og áður hefur komið fram þá var ætlunin að hefja almenna bólusetningu gegn pneumókokkum hér á landi í apríl á þessu ári. Ráðherra velferðamála hefur hins vegar ákveðið að mikilvægt sé að hefja almennar bólusetningu sem fyrst og því verður hægt að hefja almenna bólusetningu frá og með 11. apríl.

Bóluefnið Synflorix inniheldur 10 hjúpgerðir pneumókokka og auk þess mótefnavaka gegn hemofilus influenzae sem mun veita auka vörn gegn öndunarfærasýkingum og miðeyrnabólgu. Aukaverkanir af bóluefninu eru vægar og svipaðar og við aðrar bólusetningar og alvarlegar aukaverkanir eru ekki þekktar. Synflorix má gefa með öllum bóluefnum og er mælt með að það verði gefið við 3, 5 og 12 mánaða aldur samhliða öðrum ungbarnabólusetningum. Byrjað verður að bólusetja börn sem fædd eru á árinu 2011 en eldri börn falla ekki undir þessa almennu bólusetningu. Foreldrar barna sem fæddir eru fyrir 2011 verða sjálfir að standa straum af kostnaði bóluefnisins kjósi þeir að bólusetja börn sín. Börn sem fæddust í janúar 2011 verða bólusett í apríl. Fljótlega verður meðfylgjandi bæklingi sem ætlaður er fyrir foreldra dreift á allar heilsugæslustöðvar ásamt nánari upplýsingum fyrir heilbrigðisstarfsmenn.f.h. sóttvarnalæknis


Óskar Reykdalsson


Sóttvarnarlæknir í Suðurumdæmi