Blöðrubólga

Að fá greiningu um blöðrubólgu er frekar algengt, sérstaklega hjá konum. Blöðrubólga getur kviknað þegar bakteríur ná að komast upp þvagrásina inn í þvagblöðruna, sem að öllu jöfnu er laus við bakteríur. Ef þær ná að fjölga sér þá valda þær sýkingu. Hægt er að fá sýkingu annars staðar í þvagvegum og nefnast þær þá þvagfærasýkingar. Oft eru sýkingarnar af völdum saurgerla eða einhverra baktería sem að ýmsum orsökum nýta tækifærið og ná sér á strik. Allir geta fengið þvagfærasýkingar. Skoðum aðeins hverjar ástæðurnar geta verið og hvað er til ráða.

Stutt er á milli þvagrásar og endaþarmsops, sérstaklega hjá konum, þvagrás kvenna er töluvert styttri en hjá körlum. Konum er því hættara við að fá slíkar sýkingar en körlum.

 

 

Algeng einkenni eru sársauki eða sviði við þvaglát, bráð eða tíð þvaglátsþörf og verkir fyrir ofan lífbein. Þvag getur verið gruggugt að sjá og/eða illa lyktandi. Almennari einkenni eru þreyta og slappleiki. Sýking getur einnig verið einkennalaus.

 

Einkenni hjá börnum: slappleiki, pirringur, minni matarlyst, uppköst, niðurgangur,  jafnvel hiti, blóð í þvagi, sársauki við þvaglát og kviðverkir.

 

Ýmsar ástæður: Kynlíf, of lítil vökvainntaka, sykursýki, minnkandi estrogen hjá konum á breytingarskeiðinu, meðfæddir gallar í þvagfærum, stækkaður blöðruhálskirtill, bólgur, notkun þvagleggja, skurðaðgerðir sem gerðar hafa verið á þvagfærum og bakflæði í þvagpípum.

Trönuberjasafi/hylki eða C- vítamín hafa verið talin verndandi gegn blöðrubólgu. Rík vökvainntaka og reglulegar salernisferðir eru mikilvægar, passa þarf að tæma blöðruna vel og forðast hægðartregðu. Mikilvægt er að pissa eftir samfarir og gæta að hreinlæti.

Konur: passi að þurrka sér eftir þvaglát, frá þvagrásaropi og aftur að endaþarmsopi til að varna að bakteríur frá endaþarmi berist í þvagrás. Það þarf að skipta ört um túrtappar eða sleppa þeim.

Karlmenn: hreinlæti undir forhúð skiptir máli.

Allir: Forðast krem á kynfærasvæði, daglegur þvottur  með volgu vatni, ef sápa er notuð þá er mikilvægt að hún sé notuð í hófi og sé mild og lyktarlaus. Forhúð á ungabarni eða ungum drengjum er óþarfi að þrífa og á alls ekki að þvinga hana til baka, það getur valdið sársauka eða skaða. Veldu þægileg föt sem þrengja ekki að kynfærasvæði og myndar ekki raka.

 

Tekið er þvagsýni til greiningar, helst miðbunuþvag. Sýklalyfjakúr dugar oftast til að lækna þvagfærasýkingu. Slíkar sýkingar geta vissulega verið óþægilegar en oft læknast þær án meðferðar á einni viku.

Ef þú er hins vegar með einkenni sýkingar í þvagfærum og eitthvað af eftirfarandi einkennum: ert barnshafandi, með hita yfir 38°c, hefur nýlega fengið meðferð við þvagfærasýkingu, finnur verk í baki eða síðu, grunar kynsjúkdóm eða nýlega verið inniliggjandi á sjúkrahúsi, þá skaltu leita strax  á næstu heilsugæslu.       

 

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands,

Sólrún Auðbertsdóttir

Hjúkrunarstjóri heilsugæslu  

Hveragerðis og Þorlákshafnar

 

 

Heimildir:

www.heilsuvera.is

www.heilsugaeslan.is

www.landlaeknir.is