Bleik vika hjá HSu á enda

bleika2013Það hefur ekki farið framhjá þeim sem áttu erindi á HSu vikuna 21. til 28. febrúar að eitthvað sérstakt var í gangi, enda bleikar skreytingar um allt hús.  Bleik vika er að verða árlegur viðburður hjá HSu og þátttaka og metnaður eykst með hverju ári í skreytingum.  það er starfsmannafélgið sem stendur fyrir þessum viðburð og er almenn ánægja með þetta hjá starfsfólki, kátína og gleði um allt hús.

 

 

Bleikri viku lauk síðan á fimmtudagskvöldið 28. febrúar. Þá stóð starfsmannafélagið fyrir bleikri uppskeruhátið  þar sem fjölmiðlakonan Sirrý Arnars var með léttan og skemmtilegan fyrirlestur „laðaðu til þín það góða“ og síðar kom Sigga Kling með fyrirlestur um að magna upp sjálfstraustið og bæta samskiptin og lífið.  Báðar náðu að laða fram bros og hlátur.

 

 

Í hléi milli fyrirlestra voru veittar viðurkenningar fyrir bleikustu deildirnar, bleikustu konuna og bleikasta karlinn.  Valið var erfitt, svo erfitt að þrjár deildir fengu bikara sem bleikasta deildin, Þvottahúsið, Heilsugæslan og Ljósheimar, enda þemað ólíkt. Sjúkraflutningar fengu einnig sérstakt hrós fyrir framtakið á skreytingum á gömlum sjúkraflutningabíl sem vakti athygli margra.

 

 

Árni Snorri Valsson sjúkraflutningamaður hreppti titilinn, Bleikasti karlinn 2013, titilinn Bleikasta konan 2013 hlaut Ragnheiður Jónsdóttir sjúkraliði á Hand- og lyflækningadeild.

 

Meðfylgjandi myndir sýna vel stemninguna á bleikri viku.