Ber er hver að baki, nema sér bróður eigi!

Ásgerður GylfadóttirEitt af mörgum hlutverkum heilbrigðisþjónustunnar er bráðaþjónusta. Sú þjónusta getur tekið á sig ýmsar myndir, allt frá því að vera móttaka einstaklings vegna smáslyss á vinutíma uppí hópslys fjarri íbúabyggð.

Til þess að geta brugðist við atburðum í óvenjulegum aðstæðum þurfa heilbrigðisstarfsmenn líkt og aðrir viðbragðsaðilar s.s. björgunarsveitir að halda sér í æfingu. Nú nýverið var haldin ein slík æfing á Hornafjarðarflugvelli. Þar voru æfð viðbrögð allra viðbragðsaðila í héraði við flugslysi. Æfingar sem þessar eru haldnar á fjögurra ára fresti á öllum flugvöllum landsins að frumkvæði og skipulagi Isavia.

Ferlið felst í því að settur er upp slysavettvangur, allir viðbragðsaðilar fá útkall F1- Neyðarstig og hver og ein eining bregst við samkvæmt flugslysaáætlun vallarins sem er einnig í endurskoðun við þessi tímamót. Ráðgjafar eru viðstaddir og þeir hjálpa heimafólki við að meta hvernig til tekst, benda á hvað betur megi fara og hjálpa til við að finna leiðir að bættu verklagi ef með þarf.

Dagana fyrir æfingu gefst viðbragðsaðilum einnig kostur á fræðslu og námskeiðum fyrir sína einingu eða sameiginlega með öðrum til að undirbúa sitt fólk sem allra best. Starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar fór yfir og æfði bráða- og áverkaflokkun auk annarra mikilvægra þátta sem hópslysaáætlunin kveður á um.

Æfingin 24. október tókst að allra mati mjög vel. Það kom í ljós að breyta þarf einhverjum verkferlum í áætluninni þar sem tækifæri gafst til að prófa breytingar sem gáfust vel. Viðbragðsaðilar unnu vel saman, úr varð ein sterk heild sem vann sem einn maður. Sjálfboðaliðar sem léku þolendur slyssins stóðu sig frábærlega og gæddu æfinguna ómetanlegu lífi og vil ég þakka þeim sérstaklega fyrir þeirra þátt í verkefninu.

Lærdómurinn mun síðan skila sér inní endurskoðun á flugslysa- og hópslysaáætlun. Í framhaldinu þarf að halda þeim plöggum vakandi þannig að ef eða þegar atburður verður á þjónustusvæðinu sem kallar á virkjun hóp- eða flugslysaáætlunar þá þekki aðilar sín verkefni og takist á við þau af öryggi og þekkingu sem byggð hefur verið upp með æfingum sem þessari.

Þjónustusvæði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands er víðfermt og mikil umferð bæði íbúa og ferðamanna um svæðið. Tíðni slysa hefur aukist á síðustu árum í takt við aukinn straum ferðamanna um svæðið, náttúruvá er mikil og fjölbreytt á svæðinu. Því er það mjög mikilvægt að fá tækifæri til að fara yfir áætlanir sem þessar og æfa viðbrögð.

Ber er hver að baki nema sér bróður eigi! Í stórum atburðum leysir enginn einn viðbragðsaðili málið. Heilbrigðisstarfsfólk, lögreglan, slökkvilið, björgunarsveit, Rauði krossinn og slysavarnadeildir eru allt aðilar sem geta þurft að koma að þegar um hópslys er að ræða og styður hver einingin aðra eins og um bróður sé að ræða.

Æfingarnar auka bæði öryggi og færni viðbragðsaðila svo og öryggi þeirra sem á svæðinu búa og ferðast um það.

 

f.h. heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Ásgerður K. Gylfadóttir

Hjúkrunarstjóri á hjúkrunarsviði

HSU Hornafirði