Bangsaspítali á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, laugardaginn 5. nóvember n.k.

Bangsaspítalinn verður opnaður á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi laugardaginn 5. nóvember frá kl 13-17 í tilefni alþjóðlega bangsadagsins 27. október. Öllum börnum á aldrinum 3-6 ára er velkomið að koma og verður tekið á móti veikum og slösuðum böngsum við aðalinngang Heilbrigðisstofnunarinnar.

Markmið Bangsaspítalans er tvíþætt; bæði að stuðla að jákvæðu viðhorfi barna og trausti gagnvart heilbrigðisstarfsfólki, heilbrigðisstofnunum og því starfi sem fer þar fram, auk þess að vera mikilvæg samskiptaæfing 1. árs læknanema við verðandi sjúklinga.

Hugmyndin er sú að barn, í hlutverki foreldris, komi með veikan bangsa eða dúkku til læknis, tjái hvað sé að og orsakir vandans og bangsinn hljóti svo viðeigandi meðhöndlun, fái sáraumbúðir, plástra og þess háttar.

Við vonumst til að sjá sem flesta og að allir hafi gaman af.

Lýðheilsufélag læknanema.

Frétt á Stöð 2: http://visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTVE6E8E0EE-C1E4-4E6A-85EA-F05205E510DA