Bætt úr brýnni þörf á sviði geðheilbrigðisþjónustu

22. febrúar 2019

 

Kæru íbúar Suðurlands.

 

Það er ánægjuefni að í gær kynnti heilbrigðisráðherra úthlutun fjármuna til uppbyggingar geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslunni.  Heilbrigðisstofnun Suðurlands fékk úthlutað 58 millj. kr. til að byggja upp geðheilsuteymi í heilsugæslunni á Suðurlandi.

 

Mikið er rætt um að heilsugæslan eigi að vera fyrsti viðkomustaður íbúa sem þurfa að leita sér heilbrigðisþjónustu.  Á landsbyggðinni þjónar heilsugæslan sannarlega því hlutverki. Aftur á móti hefur verið takmörkuð þjónusta sérfræðilækna og sérfræðinga á landsbyggðinni og íbúar þekkja vel að þurfa að fara um langan veg til að leita sérfræðiaðstoðar.   Uppbygging geðheilsuteymis á Suðurlandi er því mikilvæg varða í þeirri vegferð að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Heilsugæslan er sannarlega réttur vettvangur fyrir slíka þjónustu. Bætt er úr brýnni þörf því geðvernd hefur verið  einn af veikustu hlekkjum grunnþjónustu heilsugæslunnar.

 

Til heilsugæslunnar leitar töluvert stór hópur sem stríðir við andlegan eða geðrænan vanda.  Vandamál svo sem þunglyndi hrjá ýmsa og í enn ríkari mæli er kvíði að hrjá marga. Oft er vandi einstaklinga fjölþættur og því mikilvægt að geta nýtt þekkingu ólíkra faghópa og samstarf mismunandi  heilbrigðisstétta með sjúklingum og fjölskyldum þeirra.

 

Hingað til hafa heilsugæslulæknar á HSU annast meðferð þeirra fullorðnu sem stríða við geðheilbrigðisvanda. Einnig er starfandi barnalæknir á HSU sem hefur að mestu sinnt geðrænum vanda meðal barna.

 

Sú sálfræðiþjónusta sem einkum hefur verið í boði hingað til hjá HSU er móttaka fyrir börn og fjölskyldur þeirra.  Þó vel hafi tekist til að stytta biðtíma fyrir sálfræðiþjónustu við börn og fjölskyldur þeirra er ljóst að gera þarf enn betur í að stytta biðtíma.  Þó svo að alvarlegustu tilfellin séu ávallt tekin inn eins fljótt og hægt er þá er vandinn oft orðinn mikill hjá þeim sem hafa beðið lengi eftir þjónustu. 

 

Einnig hefur verið í boði þjónusta fyrir verðandi og nýbakað foreldra. Það er mjög mikilvægt að bæta við geðheilbrigðisþjónustu fyrir þungaðar konur og konur eftir fæðingu. Þar er lagður grunnurinn fyrir framtíðina. Með snemmtækri íhlutun sem hefur verið í boði á HSU til barnshafandi kvenna og fjölskyldna þeirra og fjölskyldna með ung börn er hægt að fyrirbyggja meiri sálrænan og geðrænan vanda síðar á ævinni. 

Geðrænn vandi algengur og mikil þörf á þjónustu. Sérstaklega er ánægjulegt að geta hafist handa við að bæta við geðverndarþjónustu fyrir fullorðna á Suðurlandi.  Það er tímabært og nauðsynlegt.  Slík þjónusta hefur verið af afskaplega skornum skammti utan þéttbýlisins á höfuðborgarsvæðinu. Þar starfar talsverður fjöldi geðlækna, sálfræðinga og annarra meðferðaraðila utan stofnanna.  Mikilvægt er að geta veitt alla almenna geðverndarþjónustu í nærumhverfi en þurfi ekki að sækja slíka þjónustu um langan veg. Þó er ljóst að fyrir þessa upphæð verður ekki hægt að þjóna öllum að fullu. Við þurfum því að skipuleggja vel hvernig við getum nýtt þessa fjárveitingu til að þjóna þörfum íbúa sem best fyrir geðheilbrigðisþjónustu.

 

Við sjáum fyrir okkur að geta bætt sáfræðiþjónustu fyrir fullorðna sem er lítil sem engin á heilsugæslu HSU í dag. Nauðsynlegt er að bæta fjölskylduráðgjöf og vinna að átaksverkefnum út frá stöðu einstaklinga með erfiða geðsjúkdóma og hjá fjölskyldum sem glíma við margþættan vanda. Geðlæknisþjónustu þarf að bæta fyrir fullorðna og börn. Mikil þörf er fyrir ráðgefandi geðlækni. Mikilvægt er því að fá að ráða geðlækni til HSU eða hafa aðgang að ráðgefandi geðlækni fyrir HSU. Þá væri hægt að byrja á að veita þjónustu eftir tilvísun frá lækni vegna tiltekinna mála, t.d. fyrir ungt fólk, fullorðna og aldraða, vegna áfalla eða alvarlegra einkenna depurðar, kvíða, streitu eða þunglyndis.  Nauðsynlegt er einnig að á HSU sé tækifæri til starfa í geðheilsuteymi fyrir hjúkrunarfræðinga með framhaldsmenntun eða hjúkrunarfræðinga með sérfræðingsleyfi á sviði heilsugæslu, forvarna, verkjameðferðar. Bæta þarf í hóp annarra heilbrigðisstétta s.s. iðju- og sjúkraþjálfara á heilsugæslusviði HSU sem gætu samhliða sjálfstæðri móttöku á heilsugæslu verið ráðgefandi og átt sæti í geðteymi HSU.

Nú fer í gang á næstu vikum mótun á uppbygginu og starfsemi geðheilsuteymis HSU.  Spennandi verður að geta kynnt nýjungar í þjónustu fyrir íbúum á næstu mánuðum.  Nauðsynlegt verður að forgangsraða verkefnum innan geðheilsuteymisins. Samhliða því má efla um leið samþættingu úrræða á Suðurlandi m.a. með aukinni samvinnu við félagsþjónustur sveitarfélaganna og við aðrar stofnanir s.s. Landspítala. Við munum jafnframt kynna möguleika á hagnýtingu fjarbúnaðar við meðferð og þjónustu geðheilsuteyma á Suðurlandi.

Við hlökkum til að hefjast handa við að skipuleggja þjónustu geðheilsuteymisins og stíga mikilvæg viðbótarskerf í átt að bættri geðheilbrigðisþjónustu á Suðurlandi.

 

Ari Bergsteinsson, yfirsálfræðingur HSU

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU