Bætt öryggi við fyrstu hjálp í uppsveitum Árnessýslu staðfest með undirritun samstarfssamnings

Ljósm.MHH

Þann 5. júní 2019 var undirritaður samningur milli Björgunarfélagsins Eyvindar á Flúðum og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands vegna fyrstu viðbragða í alvarlegum slysum eða veikindum. Samningurinn var undirritaður af Borgþóri Vignissyni formanni félagsins og Herdísi Gunnarsdóttur forstjóra HSU.

 

Í uppsveitum Árnessýslu er oft á tíðum langt í sérhæfða aðstoð. Í alvarlegum tilfellum er því nauðsynlegt að hafa yfir að ráða öflugum viðbragðshóp til þess að bregðast skjótt við og hefja fyrstu hjálp þar til sjúkraflutningamenn og lögregla koma á staðinn. Björgunarfélagið Eyvindur hefur yfir að ráða vettvangsliðum sem lokið hafa námskeiðinu, Fyrsta hjálp í óbyggðum sem kennt er við Björgunarskóla Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Þetta fólk er þjálfað og tilbúið til þess að bregðast við ef óskað er eftir. Einnig er hluti mannskapsins komin með grunnmenntun í sjúkraflutningum.

 

Tilgangur samstarfsamningsins var að endurnýja eldri samning frá árinu 2011. Tilgangur samningsins felur í sér að Björgunarfélagið Eyvindur muni hafa til taks hóp vettvangsliða, sem eru þjálfaðir og tilbúnir til að þess að bregðast við ef HSU óskar eftir aðstoð þegar um neyðartilfelli er að ræða og langt er í að sjúkraflutningar HSU geti komið á staðinn. Með núverandi samningi mun HSU greiða Björgunarfélaginu Eyvindi þóknun sem nýtt verður í endurnýjun á búnaði og menntun félagsmanna. Samkomulagið er mikilvægur hlekkur í að auka öryggi í fyrstu hjálp og heilbrigðisþjónustu í dreifðum og víðfeðmum byggðum Suðurlands þar sem umferð fer sívaxandi. Jafnframt er samningurinn staðfesting á því góða samstarfi sem hefur verið á milli aðila allt frá upphafi verkefnisins árið 2011. 

 

Ljósm.MHH