Bæklunarlæknir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu) og Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa gert samkomulag um, að HSu veiti alhliða göngudeildarþjónustu í bæklunarskurðlækningum. Um er að ræða viðtöl við bæklunarskurðlækna og allar almennar aðgerðir svo sem liðspeglanir, sem ekki krefst innlagnar á sjúkrahús.

Guðni ArinbjarnarGuðni Arinbjarnar, bæklunarskurðlæknir, hefur verið ráðinn til að veita þessa þjónustu til að byrja með, en gert er ráð fyrir að fleiri bæklunarlæknar geti veitt þessa þjónustu á stofnuninni. Guðni kemur til starfa 14. september nk. og er hægt að bóka tíma hjá honum í afgreiðslu HSu.


HSu hefur á undanförnum árum lagt áherslu á að styrkja ýmsa sérfræðiþjónustu á þjónustusvæði stofnunarinnar. Sunnlendingar þurfa að sækja mikla sérfræðiþjónustu á höfuðborgarsvæðið, sem hæglega á að vera hægt að veita á Suðurlandi. Þjónusta í bæklunarlækningum er liður í að styrkja slíka þjónustu sem næst íbúum svæðisins.