Bæjarráð Árborgar mótmælir fyrirhuguðum niðurskurði til HSu 2012

Á fundi bæjarráðs Árborgar  10. maí sl. var lögð fram eftirfarandi ályktun vegna Heilbrigðisstofnunar Suðurlands:

 

 Bæjarráð Árborgar mótmælir fyrirhuguðum niðurskurði fjárveitinga til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands árið 2012. Fram hafa komið ályktanir starfsfólks um að búið sé að hagræða eins og kostur er og að frekari niðurskurður geti haft alvarleg áhrif á grunnþjónustu stofnunarinnar. Suðurland hefur mikla sérstöðu sem kallar á öfluga heilbrigðisþjónustu. Hamfarir liðinna ára sem og fjöldi ferðamanna og sumarhúsaeigenda á svæðinu sýna að nær væri að styrkja þjónustuna og efla en að draga úr henni. Læknaráð HSu hefur bent á að niðurskurður liðinna ára hafi dregið mjög úr sérfræðiþjónustu á stofnuninni og aukið álag á þá lækna sem eftir eru og sinna grunnþjónustu svo stefnir í óefni. Það er ekki ásættanlegt að niðurskurður á HSu sé fólginn í tilfærslu verkefna til annarra landshluta og gert lítið úr margra ára uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á svæðinu. Einnig hafa komið fram vísbendingar um að kostnaður við heilbrigðisþjónustu sé lægri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Bæjarráð skorar á velferðarráðherra að endurskoða ákvörðun sína um niðurskurð ársins 2012 á starfsemi HSu og lýsir yfir fullum stuðningi við starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.