Aukin sóknarfæri HSu

Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu) og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) héldu þann 29, apríl sl. málþing um heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi.  Á þinginu voru haldin fjölmörg erindi um heilbrigðisþjónustu og samstarf ríkis og sveitarfélaga á því sviði.Mörg sóknarfæri
Á þinginu komu fram skoðanir og upplýsingar um stöðu og framtíð heilbrigðisþjónustunnar á Suðurlandi, sem nýtast munu við stefnumörkun heimamanna og stjórnvalda. Magnús Skúlason, framkvæmdastjóri HSu, greindi frá vinnu við stefnumótun stofnunarinnar.  Unnið hefur verið að greiningu á stöðu stofnunarinnar í heild, þörfum íbúa Suðurlands á heilbrigðisþjónustu og möguleikum á að veita meiri heibrigðisþjónustu á Suðurlandi.  Ýmsa dagdeildar- og göngudeildarþjónustu, sérfræðiþjónustu lækna, iðjuþjálfun ofl. , sem Sunnlendingar sækja nú til höfðuborgarsvæðisins, væri hægt að að veita á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.  Óskar S. Reykdalsson, nýráðinn lækningaforstjóri Hsu, benti á að fjölga þyrfti sérfræðilæknum á Suðurlandi, t.d. eru engir bæklunarlæknar eða geðlæknar með opna móttöku á svæðinu. Einnig þyrfti að auka þjónustu augnlækna, barnalækna, háls- nef- og eyrnalækna og kvensjúkdómalækna. Í máli hans kom fram að Sunnlendingar fóru tæplega 17 þúsund sinnum til sérfræðilækna í Reykjavík og þarf ekki flóknar reikniaðferðir til þess að sjá að með aukinni þjónustu sérfræðilækna á Suðurlandi sparast óhemju fjármagn, sjúklingar þurfa ekki að ferðast eins mikið og sparast við það mikill tími, bæði þeirra og aðstandenda, sem oft þurfa að fylgja sjúklingum til Reykjavíkur.
HSu sem kennslustofnun
Á HSu fer fram fjölbreytt kennsla nema í heilbrigðisfræðum. Læknanemar eru reglulega á heilsugæslustöðina á Selfossi og einnig læknar í framhaldsnámi í heimilislækningum. Þá fer einnig fram verkleg þjálfun ljósmæðra-, hjúkrunarfræði-, læknaritara-, meinatæka- og sjúkraliðanema. Skurðdeild HSu gæti einnig tekið að sér kennslu í almennum skurðlækningum, s.s. smærri aðgerðum, sem ekki eru lengur framkvæmdar á Landspítala háskólasjúkrahúsi og læknanemar fá því ekki lengur þá þjálfun þar.
Skortur á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða
Á málþinginu var fjallað um þjónustu við aldraða . Anna María Snorradóttir, nýráðinn hjúkrunarforstjóri Hsu, sagði frá nýlegri könnun á þörf fyrir heimaþjónstu (heimilishjálp – heimahjúkrun) á Árborgarsvæðinu og þjónustusvæði heilsugæslustöðvarinnar á Selfossi. Í máli hennar kom fram að verulegur skortur er á hjúkrunarrýmum. Íbúafjölgun á landinu öllu var 0,96% árið 2004, á Suðurlandi 2,1% og í Árborg 3,1% eða rúmlega þrefalt landsmeðaltal.  Íbúum yfir 80 ára á landinu hefur fjölgað úr 1,4% árið 1960 í 3,0% árið 2003. Ef tekið er mið af fjölda rýma pr. 1000 íbúa,  þá eru á landsvísu 8,2 dvalar- og hjúkrunarrými, en 5,1 á Selfossi. Niðurstöður könnunarinnar voru að fjölga þarf hjúkrunarrýmum, auka þjónustu heilsugæslustöðvarinnar með auknu stöðugildi sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga í heimahjúkrun, tryggja félagslega þjónustu með aukinni  kvöld og helgarþjónustu. Einnig að samtvinna félagslega heimaþjónustu og heimahjúkrun með það að markmiði að tryggja hagkvæma og örugga þjónustu við skjólstæðingana.