Aukin og skilvirkari þjónusta á heilsugæslustöðinni á Selfossi með þverfaglegu samstarfi

Í byrjun febrúar 2019 mun heilsugæslustöð Selfoss taka upp nýtt og betra fyrirkomulag fyrir skjólstæðinga sína.  Tilgangurinn er að tryggja að erindi fái skjóta og örugga  afgreiðslu.  Mun biðtími eftir aðstoð styttast og munu flestir geta fengið samtal við fagaðila samdægurs en í síðasta lagi næsta dag að morgni.

Þetta nýja fyrirkomulag byggist á teymisvinnu þar sem skjólstæðingur á sinn heimilislækni en tilheyrir teymi lækna og hjúkrunarfræðinga sem hjálpast að við að aðstoða þá sem hingað leita hratt og örugglega. Teymin verða Blá og Rauð og verða þá allir íbúar sem heyra undir heilsugæslustöðina á Selfossi í öðru hvoru teyminu.

Þegar hringt er inn og óskað eftir tíma hjá lækni mun hjúkrunarfræðingur hringja til baka og fara yfir tilefnið með skjólstæðingi stöðvarinnar. Sum erindi má leysa  í gegnum síma eða hjá hjúkrunarfræðingi á heilsugæslustöðinni.  Þeir sem þurfa að hitta lækni fá tíma eftir að vandamálinu hefur verið forgangsraðað eftir alvarleika, það getur verið samdægurs eða seinna ef ekki liggur eins mikið á og verður þá hægt eftir atvikum að undirbúa það viðtal með því að panta t.d. viðeigandi rannsóknir.  Með þessu móti teljum við okkur nýta betur þá breidd sem fagfólk okkar býr yfir til að leysa í sameiningu mál skjólstæðinga heilsugæslustöðvar  Selfoss. Langur biðtími mun þá heyra sögunni til ef tilefnið er aðkallandi og má ekki bíða. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Unnur Þormóðsdóttir hjúkrunarstjóri heilsugæslustöðvar  Selfoss

Arnar Þór Guðmundsson yfirlæknir heilsugæslustöðvar Selfoss