Aukið samstarf fæðingadeilda HSu og Fæðingadeildar Landspítalans

Í byrjun árs 2009 sendi Heilbrigðisráðuneytið frá sér tilkynningu um að vöktum fæðingar og svæfingarlækna skyldi hætt á HSu, HSS og SHA. Síðan þá hefur verið unnið að því að reyna að tryggja starfsemina og öryggi íbúa Suðurlands og verðandi mæðra með því að efla samstarfið við LSH . Nú hefur verið undirritað samkomulag þess eðlis. Um er að ræða náið samstarf og verkferla sem eiga að auka á öryggið. Þungaðar konur í áhættuhóp fá ekki að fæða á Selfossi og verður vísað á LSH.

Þetta er ekki ósvipað því sem verið hefur. Verkferlar hafa verið gerðir og samhæfð starfseminni. Þannig verður starfsemi fæðingardeildar HSu núna frá 1.janúar 2010 með sömu verkferla og LSH og samstarfið meira en nokkru sinni og allt gert til að tryggja öryggi þrátt fyrir skert fjárframlag.
Þann 30. desember sl. var samkomulag þetta handsalað á HSu af fulltrúum frá LSH  þeim Hildi Harðardóttur, yfirlækni fæðinga-, meðgöngu- og fósturgreiningardeild og Guðrúnu Eggertsdóttur,  yfirljósmóður á fæðingadeild og f.h. HSu af þeim Sigrúnu Kristjánsdóttur, yfirljósmóður, Óskari Reykdalssyni, framkvæmdastjóra lækninga og Önnu Maríu Snorradóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar.