Augnsýkingar og augnbólgur

Bólgur og roði í augum eru algeng einkenni. Oftast er um veirusýkingu að ræða sem fylgja gjarnan kvefi. Oftast lagast bólgur og roði af sjálfu sér en í sumum tilvikum þarf að leita til læknis.

Tárubólgu er bólga í slímhúð augans eða augnhvítunni. Kemur oftast í bæði augun þarf þó ekki alltaf að vera þannig.  Algengast er að tárubólga sé að völdum veirusýkingar sem ekki er hægt að meðhöndla með sýklalyfjum en hún lagast yfirleitt af sjálfu sér. Hún er oft fylgikvilli kvefpesta. Helstu einkenni hennar eru:  graftarkennd útferð úr augum,  augun límd saman á morgnana,  roði í slímhúð augans eða augnhvítunni,  pirringur í auganu og leki úr auganu.

Hvarmabólga er mjög algeng og langoftast hættulaus. Hún kemur þegar litlir fitukirtlar í augnhárunum stíflast. Hún lagast þó oftast af sjálfu sér. 

Einkenni er:  sviði í augum, pirringur í auga eða augum, kláði , sérstaklega ef ofnæmi er til staðar ,roði í augum og bjúgur (bólgur) á hvörmum og flögnuð húð í kringum augun.

Ofnæmisbólgur. Lýsa sér oft svipað og sýkingar í auga með roða og kláða og útferð úr auganu í formi tára eða klístraðs vökva. Ofnæmisbólgur lagast oftast þegar ofnæmisvaldurinn fer eða með ofnæmislyfjum.

Meðferð við augnsýkingum

-Haltu svæðinu í kringum augun hreinu. Þvoðu með volgu vatni og bómull eða mjúkum bómullarklút og hreinsaðu gröft og klístur af augnlokum.

-Þvoðu hendur reglulega með sápu.

-Þvoðu koddaver og þvottastykki úr heitu sápuvatni.

-Til þess að koma í veg fyrir smit ætti ekki að láta aðra nota sömu handklæði, koddaver og  þvottastykki og sá sem er með augnsýkingu á auk þess að þvo þessa hluti með heitu sápuvatni.

-Ekki deila augnlyfjum, augnsnyrtivörum eða öðru sem snertir augun með öðrum.

-Reyndu að forðast að nudda augun.

-Gott getur verið að setja bakstur, kaldan eða heitan, á augun ef þig klæjar.

-Notir þú augnlinsur er gott að gefa þeim frí á meðan augun jafna sig.

Yfirleitt eru bólgur og roði augum saklaust og lagast af sjálfu sér með góðri umhirðu þá er sumar sýkingar sem þarfnast læknismeðferðar. Ef að barn undir 2 ára aldri er með roða eða bólgu í augunum er ráðlagt að leita til læknis. Ef að þú ert búin að vera með sýkingu í einhvern tíma og hún lagast ekki með góðri umhirðu ættir þú að leita til læknis. Ef að þú notar augnlinsur og ert með einkenni um augnbólgur gætir þú verið með ofnæmi fyrir linsunum. Augnsýkingar geta smitast á milli augna og er það yfirleitt þá með snertingu eða þegar verið er að nudda augun.

Kvef er alltaf smitandi  og einnig það sem fer í augun.  Líkaminn ræður vel við slíkt kvef án aðstoðar nema í undantekningartilvikum. Táravökvi inniheldur sýkladrepandi efni og læknar því flestar sýkingar að þessum toga.

 

Margrét Björk Ólafsdóttir

Hjúkrunarfræðingur