Augnlækningatæki gefið til heilsugæslunnar í Vík

Föstudaginn 5. október sl. færðu kvenfélögin á starfssvæði heilsugæslustöðvarinnar í Vík, Lionsklúbburinn Suðri,  ásamt fleiri hollvinum stöðinni fullkomin augnlækningatæki, í því skyni að tryggja þá þjónustu í héraði. Safnað hafði verið fyrir þessum tækjum í nokkurn tíma með ýmsum uppákomum s.s. spilavist, ýmiskonar sölu, bingói ofl.

 

Þess má til gamans geta að árið 2010 var haldið bingó eitt kvöldið þegar sem mesta öskufall úr Eyjafjallagosinu var í Vík, þrátt fyrir það var fullt út úr dyrum. Þetta ásamt svo mörgu öðru sýnir sóknar- og samhug íbúanna og vilja til að efla og standa við bakið á heilbrigðisþjónustu í héraði.

 

Við þetta tækifæri afhenti Krabbameinsfélag Vestur-Skaftafellssýslu stöðinni CRP blóðrannsóknartæki að gjöf.

 

Þetta var fyrsti dagur í Regnbogahátíðinni sem er bæjarhátíð Mýrdælinga og var opið hús á heilsugæslunni af þessu tilefni og m.a. boðið uppá nýpressaðan hollustusafa m.a. úr hráefni úr héraði.