Auðvitað læt ég bólusetja mig

Óskar S. ReykdalssonNú er enn og aftur kominn sá árstími, að Sóttvarnarlæknir hefur látið þau boð út ganga, að allir skuli bólusetja sig til að verjast því að fá inflúensu.

 

Eins og flestir  muna varð uppi fótur og fjör í heilbrigðiskerfinu og allt fór á annan endann við heimsfaraldurinn sem upp kom ekki fyrir svo löngu síðan. Mjög margir létu lífið  og á Íslandi einu  var gjörgæsludeild Landspítalans full viku eftir viku af fólki sem var fárveikt og þurfti aðstoð  tækja til að halda lífi. Hefði sama komið uppá nokkrum árum áður hefðu fjöldi látist í þessum faraldri.  Öflug þekking heilbrigðisstarfsmanna, tæki og tækni var þessum einstaklingum lífgjöf. 

Sem læknir er ég með nokkra sjúklinga sem en eru að kljást við afleyðingar þessa. Þetta er augljóst.  Ég minnist hins vegar ekki að vera að kljást við alvarlegar afleyðingar bólusetningar .

 

Bólusetning er það að setja inn í líkamann efni sem líkist veirunni sem um ræðir. Líkaminn skynjar áhættu og setur í gang mótefnasvar. Auðvitað er hér um að ræða æfingu þar  sem veirulíkið er ekki veiran sjálf nema annað hvort veikluð eða líflaus.  Þar sem allt fer í gang er eðlilegt að við finnum fyrir þessu, alveg eins og ef ég fer í líkamsrækt, þá líður mér vel á eftir jafnvel þó að ég sé þreyttur og með harðsperrur. Björgunarsveitir, lögreglan, flugmenn og heilbrigðisstarfsfólk æfir sig líka til að vera betur í stakk búinn að kljást við vanda og hættu sem upp kemur. Þjálfuð erum við sterkari.

Það eru margar rannsóknir sem styðja bólusetningar. Við vitum að sjúkdómum fækkar við bólusetningar . Við vitum um bólusótt, mislinga og mjög marga sjúkdóma sem voru erfiðir okkur íslendingum en eru ekki lengur, þakkir útbreiddum bólusetningum. Það er líka ljóst að við verndum umhverfi okkar, aðstandendur og vini með því að bólusetja okkur. Einhver ber alltaf pestina á milli einstaklinga.

 

Já allir í bólusetningu, fækkum vandamálum tengdum alvarlegum sýkingum!

 

 

Óskar Reykdalsson

Sóttvarnarlæknir Suðurlands